12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. þm. Sverrir Hermannsson, frsm. meiri hl. sjútvn., segist ekki skilja í því að það standi í áliti meiri hl. n. að við hv. þm. Garðar Sigurðsson samþykkjum að styðja þetta frv. sem hér er lagt fram, en hins vegar komi það fram frá okkur að við munum ekki styðja þessar ráðstafanir, ekki greiða þeim atkv. þó að við munum ekki greiða þeim mótatkvæði. Það er nú svo með þetta plagg sem hv. þm. hefur tvisvar sinnum komið upp til þess að geta um að það er ekki öruggara en það og ekki haldbetri heimild en það, þetta plagg frá meiri hl. sjútvn., að ef hann les plaggið, þá mun hv. frsm. komast að raun um að af 4 svokölluðum nm., sem eiga að skrifa þar undir, er einn maður sem ekki er í n. Það stendur undir þessu plaggi: „Alþingi 12. maí 1975, Jón Skaftason varaform., Sverrir Hermannsson fundaskr., frsm., Tómas Árnason, Gylfi Þ. Gíslason.“ Gylfi Þ. Gíslason á ekki sæti í sjútvn. Nd. Hv. frsm. n., sem segir að þetta plagg sé einhver merkasta sögulega heimild um afstöðu okkar minnihlutamanna sem um getur, hefur ekki einu sinni veitt því athygli, þessi hv. þm., að plaggið er ekki öruggari heimild en svo að það er ekki einu sinni sagt rétt frá því hverjir skipa meiri hl. hv. n. Hv. þm. er nú búinn að koma tvívegis upp í ræðustólinn og hefur í hvorugt skiptið gert athugasemdir við þetta, e.t.v. hefur hann ekki lesið, hv. þm., sína eigin samningu öllu betur en við minnihlutamenn.

Það er rangt hjá hv. frsm. n. að á fundi n. í dag hafi komið fram og verið samþ. að mæla með þessu frv. Á fundi n., sem haldinn var rétt eftir hádegið í dag, var samþ. að halda annan fund. Það var eina samþykktin sem var formlega gerð á þessum fundi sem haldinn var í sjútvn. Nd, í dag. Hins vegar var þessi fundur ekki haldinn. Hv. frsm. n. kom hins vegar að máli við nm., hvern í sínu lagi, og spurði þá að því hvort það mætti ekki ganga frá þessu máli svona og svona. Hann spurði okkur m.a. að því í minni hl. n. hvort það mætti ekki láta þess getið, eins og í nál. sjútvn. Ed., að við mundum gera sérstaka grein fyrir afstöðu okkar í sérstöku nál. og við sögðum að sjálfsögðu já við því. Hins vegar var þetta aldrei borið upp á fundi n., aldrei gerð samþykkt um þetta formlega á fundi n. Síðasta samþykkt, sem gerð var um þetta mál á síðasta fundi þessarar n., var samþykkt um að halda annan fund. Og þetta margumrædda plagg er ekki öruggari heimild en svo, eins og ég hef áður bent á, að það eru taldir þarna upp 4 nm. í meiri hl. sjútvn. og þar af einn sem ekki er í n., og hv. frsm. meiri hl., sem hefur komið tvívegis hingað upp í ræðustól, hefur ekki einu sinni haft fyrir því að lesa sitt eigið nál. því að þá hefði hann væntanlega orðið þessa var.

Hitt liggur svo auðvitað í augum uppi, að ef menn mæla með samþykkt einhverrar ákveðinnar till. eða einhvers ákveðins frv., þá gera þeir það vegna þess að þeir eru reiðubúnir til að greiða því atkv. Menn mæla ekki með því að samþykkja frv. eða till. nema menn séu fúsir til að greiða atkv. með þeim. Við greiðum ekki atkv. með þessu frv., því að við mælum ekki með því að frv. verði samþ. Það gefur auga leið að svona háttur er ekki á hafður, að mæla með frv., till. eða frambjóðanda og greiða honum síðan ekki atkv., nema ef vera skyldi á Austfjörðum. Mér er ekki kunnugt um það hvort sá háttur sé hafður uppi þar, en ég ætla að hann sé ekki hafður uppi í öðrum kjördæmum landsins.

Hæstv. sjútvrh. — það er orðinn fastur liður hjá honum þegar sjávarútvegsmál eru til umr., a.m.k. í þessari hv. d., að hlaupa upp í stól og segja að það hafi engir vit á sjávarútvegsmálum nema hann. Minni hl. sjútvn. hefur að sjálfsögðu ekkert vit á þessum málum. Aðilar í sjávarútvegi, sem alltaf eru að mótmæla því sem ráðh. er að gera, hafa að sjálfsögðu ekkert vit á þeim málum. Og viskan virðist einna helst vera fólgin í því að komast að þeirri niðurstöðu að þá fyrst sé verk vel af höndum leyst þegar allir séu óánægðir með það, eins og hæstv. ráðh. hefur tekið fram og hrósað sér af.

Hæstv. ráðh. virtist vera að bjóða okkur hv. þm. Garðari Sigurðssyni í eins konar sjóvinnunámskeið hjá sér hér í ræðustól áðan. Það er nú svo með það sjóvinnunámskeið, sem hæstv. ráðh. hefur haldið s.l. vetur, þann eina og fyrsta vetur sem hann hefur gegnt embætti, að þangað hefur hann, ef svo má segja, „sjanghajað“ alla aðila í sjávarútvegi og þeir hafa varla gert annað síðan þeir komu á það námskeið en að óska bæði hátt og í hljóði eftir því að sleppa þaðan aftur vegna þess að staðreyndin er sú að hæstv. sjútvrh. kann að vísu að hnýta hnúta, en hann á ákaflega erfitt með að leysa þá aftur, eins og komið hefur í ljós í sambandi við þær ráðstafanir sem hæstv. ráðh. hefur gert t.d. í sambandi við sjóðakerfi sjávarútvegsins. Hann hefur lofað því bæði leynt og ljóst að starfa ötullega að því að leggja þetta óeðlilega millifærslukerfi niður, að leysa hnútinn, en hann hefur haldið áfram að flækja sig og flækja sig í garninu, bæta fleiri og fleiri og fleiri hnútum á reipisspottann, svo að nú er svo komið málum að stuðningsmenn hans í meiri hl. sjútvn. Nd. hrópa hver á annan um að koma nú með hníf og skæri til þess að reyna að brjóta sér brautina út úr allri flækjunni. Ég held því að við mundum ekki verða miklu fróðari í sjávarútvegsmálum, sem skipum minni hl. n., þó að við færum á sjóvinnunámskeið hjá hæstv. sjútvrh.