27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

41. mál, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Tómas Árnason:

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. nr. 16/1973, um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sem einnig hefur verið flutt af Vilhjálmi Sigurbjörnssyni, fjallar að nokkru leyti um sama efni og ég gerði að umræðuefni hér áðan um þskj. 43. Það gerir ráð fyrir því að l. um happdrætti Dvalarheimilis aldraða sjómanna, nr. 16 frá 1973, verði breytt á þá lund að 30% af ágóða happdrættisins renni til elli- og hjúkrunarheimila í sjávarbyggðum utan Reykjavikur og Reykjaneskjördæmis og skuli þeim hluta tekna happdrættisins ráðstafað af heilbrrh. að fengnum till. landlæknis. Í l. um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna eru ákvæði um hvernig ágóða happdrættisins skuli varið og segir svo í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Heimild þessi gildir til ársloka 1984. Ágóði happdrættisins skal renna í Byggingarsjóð aldraðs fólks. 60% ágóðans skal varið til byggingar Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Heimilt skal þó stjórn Dvalarheimilis aldraðra sjómanna að veita styrk eða lán til annarra dvalarheimila aldraðs fólks.“

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að sjómannasamtökin hafa af miklum dugnaði og myndarskap komið á fót dvalarheimili fyrir aldrað fólk og sjómenn að Hrafnistu í Reykjavík og hafa nú hafið framkvæmdir við nýtt vistheimill og veglegt í Hafnarfirði með beinni aðild sveitarfélaga á Reykjanesskaga. Fjár til þessara framkvæmda hefur verið aflað, eins og kunnugt er, með tekjum af happdrætti DAS sem er landshappdrætti. Það er mikil og brýn nauðsyn fyrir þessa starfsemi og ég hygg að það hafi verið svo á mörgum undanförnum árum að erfitt hefur verið að vista menn t.d. á Dvalarheimili aldraðra sjómanna vegna þess að aðsókn hefur verið svo mikil. Það sýnir nauðsynina á þessu starfi. En það er eins og með málið, sem ég ræddi um hér áðan, að orka kann tvímælis hvernig verja skuli þessum ágóða, hvort ekki sé sanngjarnt að einhver hluti hans renni til hliðstæðrar starfsemi úti á landsbyggðinni og í þá átt gengur þetta frv. sem hér hefur verið flutt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en vísa til framsögu fyrir þskj. 43. Það er eins og með hið fyrra málið, að orka kann tvímælis hvort því er vísað til fjh.- og viðskn. eða félmn. Það er hvort tveggja, bæði fjárhagsmál og einnig mál sem heyrir undir verksvið félmn. En ég geri till. um að málinu verði vísað til fjh: og viðskn. þótt ég taki undir það, sem einhver hv. þm. sagði áðan úr sæti sínu, að það gæti fullt eins vel átt heima í félmn.