12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja hvernig launakjör manna eru ákveðin hér á Íslandi. Almenna reglan er sú að stéttarfélög semji sín á milli um kaup og kjör, samtök launþega semji við samtök vinnuveitenda um það hvert skuli vera kaup og hver kjör launþega sem í þágu vinnuveitenda vinna. Launþegar hafa lögverndaðan verkfallsrétt og vinnuveitendur hafa lögverndaðan verkbannsrétt. Þó að þetta sé grundvallarreglan um það hvernig kaup og kjör séu ákveðin eru samt frá þessu mjög mikilvægar undantekningar og á það í fyrsta lagi við um opinbera starfsmenn, um starfsmenn íslenska ríkisins.

Lengst af gilti sú regla að laun opinberra starfsmanna voru ákveðin með lagasetningu á Alþ. Þessu var breytt fyrir rúmum áratug. Það mun hafa verið árið 1962 sem þáv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, beitti sér fyrir lagasetningu um samningsrétt opinberra starfsmanna þar sem horfið var frá þeirri reglu að Alþ. ákvæði laun opinberra starfsmanna með lögum, en samtökum opinberra starfsmanna veittur samningsréttur við vinnuveitenda sinn, ríkisvaldið. Þó var opinberum starfsmönnum ekki veittur verkfallsréttur, en það ákvæði sett í lög, sem enn gildir, að náist ekki samkomulag milli opinberra starfsmanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, þá skuli sérstök stofnun, kjaradómur, kveða upp úrskurð, bindandi úrskurð um það hver skuli vera kjör opinberra starfsmanna.

Eftir að þessari stofnun hafði verið komið á fót, kjaradómi, sem nokkrum sinnum hefur fellt mikilvæga úrskurði varðandi launakjör opinberra starfsmanna, hefur honum einnig verið falið það verkefni að kveða á um launakjör tveggja starfshópa í þjóðfélaginu, að vísu fámennra, en starfshópa sem gegna mjög mikilvægum embættum, þ.e.a.s. annars vegar ráðh. og hins vegar hæstaréttardómara.

Þetta eru þær almennu reglur sem gilda um þá starfsmenn sem vinna í þágu einkafyrirtækja, samvinnufélaga og hins opinbera, að einum hópi manna undanþegnum, en það eru alþingismenn. Um alþm. hefur gilt sú regla að þeir ákvæðu laun sin sjálfir, eða réttara sagt þingnefnd, sem starfar samkv. þingsköpum, þingfararkaupsnefnd, ákveði laun þeirra og annað sem nauðsynlegt er að ákveða í því sambandi.

Fyrir 4 árum var gerð mikilvæg breyting á löggjöfinni um þingfararkaup alþm. Með þeim lögum, sem sett voru 1971, var svo kveðið á að alþm. skyldu vera í sérstökum, ákveðnum launaflokki, en þó voru ákvæði þessara laga ekki endanleg því að í 8. gr. laganna segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ef almennar breytingar verða á launum starfsmanna ríkisins er þfkn. heimilt að hækka eða lækka árslaun samkv. 1. gr. að sama skapi.“ M.ö.o.: það er þfkn., það er nefnd þm. sjálfra sem hefur úrslitaorð um það samkv. gildandi lögum hver skuli vera laun alþm. Sömuleiðis ákveður þfkn. hvernig meta skuli húsnæðiskostnað, dvalarkostnað og ferðakostnað.

Því mun ekki hafa verið hreyft fyrstu árin eftir að lagaákvæðin voru sett um kjaradóm fyrir 13 árum að eðlilegt væri að kjaradómur fjallaði um laun annarra en opinberra starfsmanna ef ágreiningur yrði milli samtaka þeirra annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar um launin. En eins og ég gat um áðan hefur kjaradómi síðar verið falið að ákveða laun ráðh. og hæstaréttardómara. Í framhaldi af því komu þær hugmyndir upp að eðlilegt væri að láta hið sama gilda um laun alþm., það væri ástæðulaust að láta þann 60 manna hóp, sem skipar Alþ., vera eina hópinn í íslensku þjóðfélagi sem kvæði í reynd sjálfur á um eigin laun, fyrst kjaradómur væri komin til skjalanna og fjallaði um laun opinberra starfsmanna ásamt launum ráðh. og hæstaréttardómara væri eðlilegt að fela honum einnig það verkefni að kveða á um laun alþm. og önnur atriði sem náskyld eru launagreiðslum til þeirra.

Þegar verið var að undirbúa löggjöfina frá 1971 var þessi hugmynd sett fram, að eðlilegt væri að í væntanlegri lagasetningu yrði það ákvæði að kjaradómur skyldi kveða á um kaup og kjör alþm. Ég fyrir mitt leyti var því hlynntur og hefði talið það vera mjög skynsamlegt að sú ákvörðun hefði verið tekin, að sá kaleikur hefði verið tekinn frá alþm. sjálfum eða ákveðinni þn. að kveða á um sín eigin laun, heldur skyldi það gert í kjaradómi sem var þá orðinn næstum áratugsgömul stofnun og hafði til að bera mikla þekkingu og reynslu í þessum efnum. Hefði þá mátt setja almenn ákvæði um að kjaradómur skyldi ákveða laun alþm. í samræmi við þau önnur hliðstæð störf sem unnin væru af hálfu opinberra starfsmanna eða trúnaðarmanna.

Ýmsir þm. voru þessu sjónarmiði þá fylgjandi. Ég minnist þess alveg sérstaklega að hæstv. núv. landbrh. var þeirri skoðun mjög fylgjandi að þetta yrði gert. Ég nefni hann sérstaklega til vegna þess að hann tók skömmu síðar við hinu mikilvæga embætti fjmrh. En þeir voru fleiri en við tveir sem voru á þessari skoðun, að þetta hefði verið rétt að gera á sínum tíma. En það kom í ljós við undirbúning málsins að þessi afstaða átti ekki nægilegt fylgi og þá taldi a.m.k. ég fyrir mitt leyti ekki rétt að bera fram till. um þetta efni til þess að verða ekki til þess að rjúfa þá samstöðu sem orðin var í þeirri n. sem undirbjó það frv. sem síðan var samþ. með shlj. atkv. á hinu háa Alþ. Ég tel hins vegar þau ár, sem liðið hafa síðan, og umr., sem fram hafa farið um þetta mál síðan, hafa staðfest að það hefði verið heppilegra fyrir Alþ. og alþm., að ákvæðin hefðu orðið þessi, að kjaradómur tæki ákvörðun um kaupið og kjörin, en ekki alþm. sjálfir í reynd. Það er þess vegna sem ég hef leyft mér að flytja þetta frv. ásamt hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram.

Þegar þetta mál var undirbúið og í umr. í sambandi við það bar annað mál á góma, í raun og veru launamálinu náskylt, og það var spurningin um það hvort miða eigi launakjör og starfsaðstöðu alþm. yfirleitt við það að þeir gegni einvörðungu þingmannsstörfum eða hvort eðlilegt sé að þeir geti einnig gegnt öðrum störfum í þjóðfélaginu. Um þetta var mikill ágreiningur og fóru fram miklar umr. um hvort eðlilegt væri að þm. yrðu atvinnustjórnmálamenn — og þá væntanlega ekki aðeins þm. einir, heldur einnig þeir sem kepptu eftir þingmennsku. Þessu sjónarmiði var mjög fast haldið fram af þáv. formanni þingflokks Framsfl. og síðar forseta Sþ., Eysteini Jónssyni. Þessu sjónarmiði var hins vegar fastast andmælt og með mestum og að mínu viti gleggstum rökum af hálfu þáv. forsrh., Bjarna Benediktssonar. Ég tók ekki þátt í þeim umr, sem um þetta fóru fram og voru ítarlegar, en mér er engin launung á því að það var þá mín skoðun og er enn ákveðnari skoðun mín nú að það væri mjög óeðlilegt að miða störf Alþ. og alla skipun þess, þ. á m. launakjör, við það að menn sinntu ekki öðrum störfum en þeim að vera alþm. eða hefðu ekki annað starf en að keppa að því að verða alþm. Ég tel vera mjög óheppilegt ef hér skapaðist starfsstétt stjórnmálamanna, hvort sem þeir hefðu náð þeim árangri að ná kjöri á Alþ. eða ekki. Ég tel að það mundi vera hættulegt spor aftur á bak ef það færi ekki lengur saman að maður gæti verið alþm. og bóndi, að maður gæti verið alþm. og skipstjóri og maður gæti verið alþm. og kaupmaður, alþm. og kennari og þar fram eftir götunum. Ég tel að það, sem við megum einna síst við að. missa nú, séu tengsl milli þeirra manna, sem starfa að stjórnmálum á Alþ. eða í sambandi við þá baráttu sem kostar að verða kjörinn til Alþ., annars vegar og milli hins, að taka þátt í störfum í atvinnulífinu hvort sem það er einkarekstur eða annar rekstur eða að vera einhvers konar opinber starfsmaður. Ég hygg satt að segja að aðskilnaðurinn á milli stjórnmálamanna annars vegar og starfandi fólks í landinu hins vegar sé orðinn meiri en góðu hófi gegnir og eigi ekki á að bæta, heldur eigi þvert á móti að stuðla að því í ríkara mæli en tilhneiging hefur verið til á síðustu árum að menn helguðu sig ekki eingöngu eða svo að segja eingöngu stjórnmálum og tengsl losnuðu á milli stjórnmálamanna annars vegar og þeirra, sem vinna nauðsynleg störf í atvinnulífi eða inna af hendi nauðsynlega opinbera þjónustu, hins vegar.

Vegna þess, hve þetta mál bar mikið á góma í sambandi við umr, um þau lög sem við hv. þm. Ellert B. Schram leggjum til að breytt verði, vildi ég láta þessa skoðun mína persónulega koma fram, ásamt þeirri skoðun að ég tel óeðlilegt að það sé til einn, að vísu mjög mikilvægur, starfshópur í landinu, en aðeins einn sem hefur sjálfdæmi um eigin launakjör. Þetta eru meginrökin fyrir því að þetta einfalda frv. er fram borið, en efni þess er 3 línur í 1. gr. sem hljóða þannig: „Launakjör alþm., að meðtöldum húsnæðiskostnaði, dvalarkostnaði og ferðakostnaði, skulu ákveðin af Kjaradómi að fengnum till. þfkn.“ Í þessu felst enginn dómur um það að í lögunum sjálfum eða ákvörðunum þfkn. felist það að alþm. hafi verið ákveðin of há laun eða gert hafi verið ráð fyrir óeðlilegum reglum í sambandi við húsnæðiskostnað, dvalarkostnað og ferðakostnað. Um slík mál felli ég engan dóm og ræði ekki. Það er ekki efni málsins hvort núgildandi laun eða núgildandi kjör í heild séu óeðlilega há eða óeðlilega lág. Fyrir mér og okkur flm. báðum vakir það grundvallaratriði að alþm. eigi ekki að vera eini hópurinn í þjóðfélaginu sem ákveður eigin kjör, heldur sé eðlilegt að sú stofnun, sem er orðin meira en áratugsgömul, inni þetta verk af höndum, ekki hvað síst af því að hún ákveður kaup og kjör annarra starfshópa sem einna helst má telja hlíðstæða alþm., þ.e.a.s. ráðh. og hæstaréttardómara. Mér finnst satt að segja — og það skulu vera síðustu orð mín — að alþm. ættu að vera fegnir því að sá kaleikur sé frá þeim tekinn að þurfa að taka ákvarðanir um jafnviðkvæmt mál og laun þeirra sjálfra hljóta að vera í augum þeirra sjálfra og í augum alþjóðar. Það segja ýmsir, hæstv. forseti Nd. sagði það í ágætri ræðu áðan, að svo virtist komið að nokkuð skorti á að nægilegur trúnaður væri á milli almennings í landinu annars vegar og þm. eða stjórnmálamannanna yfirleitt hins vegar. Ég tel að samþykkt þessa frv. mundi vera mjög vel til þess fallin að auka trúnað almennings á Alþ. og alþm., á stjórnmálamönnum yfir höfuð að tala. Ég held að sú breyting, sem felst í þessu frv. mundi bæta andrúmsloftið milli alþm. og stjórnmálamanna yfir höfuð að tala og alls almennings í landinu.

Að svo mæltu leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjh: og viðskn.