12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

102. mál, almannatryggingar

Fram. (Karvel Pálmason):

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er á þskj. 117 og er efnislega um að breyta núv. 11. gr. almannatryggingalaga í þá átt að þeir, sem stundað hafa sjómennsku að ævistarfi og stundað hana í 35 ár eða lengur frá 16–67 ára, fái hærri ellilífeyri en hin almenna regla gildir um. Einnig er hér um að ræða breyt. í þá átt að ellilífeyrir til ekkna verði miðaður við 60 ára aldur og þeir, sem hafa stundað sjómennsku í 40 ár sem aðalstarf, fái tvöfaldan ellilífeyri.

Heilbr.- og trn. hefur rætt þetta mál, sendi það til umsagnar þriggja aðila, þ.e. til Landssambands ísl. útvegsmanna, Tryggingastofnunar ríkisins og Sjómannasambands Íslands. Umsagnir bárust frá tveimur þessara aðila, þ.e.a.s. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Tryggingastofnuninni. En það sem vekur a.m.k. furðu mína er að Sjómannasamband Íslands skuli ekki skila umsögn að beiðni um mál sem er þessa eðlis. Mér finnst það vera athyglisvert þegar leitað er til stéttarsamtaka, heildarsamtaka sjómanna, eins og Sjómannasamband Íslands er, og leitað umsagnar þess um mál sem varðar mjög mikið sjómannastéttina, að þá skuli það ekki láta í té umsögn um málið. Mér þykir það miður og vænti þess að það verði ekki lengi svo að sjómannasamtökin eða önnur heildarsamtök launafólks í landinu virði að vettugi beiðni sem kemur frá Alþ. um umsögn um hin einstöku mál.

Landssamband ísl. útvegsmanna sendi jákvæða umsögn um málið. Að vísu tók það fram að það teldi að athuga bæri hvort réttlætanlegt væri að hafa tvöfaldan ellilífeyri með aðeins fimm ára bili, þ.e.a.s. að þeir, sem væru með 35 ár, hefðu einfaldan, en þeir, sem væru með 40 ára starfstíma sem sjómenn, fengju tvöfaldan. Þetta er vissulega athugunarefni.

Í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins var bent á ýmislegt sem hún taldi að þyrfti frekari umræðu og athugunar við til samræmingar við aðrar bætur sem til greina koma í þessu efni.

Heilbr.- og trn. er um það sammála, eins og fram kemur á þskj. 497, að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess að málið fái þar frekari athugun sem leiði til jákvæðrar niðurstöðu þess. Ég tel að með þessari afgreiðslu heilbr.- og trn. sé hún búin að tjá vilja sinn til málsins, en það sé þess eðlis að það þurfi frekari athugunar við og því verði þannig vísað til ríkisstj.

Nú er orðið mjög áliðið þessa þings. Ég vænti þess að þar sem ekki er ágreiningur um þetta mál fái það afgreiðslu þó að fáir dagar séu eftir til þingloka, og vænti ég þess að það geti orðið niðurstaða, sem heilbr.- og trn. leggur til, og við getum þá vænst þess að fá málið frá ríkisstj. í frv.-formi, sem sé í átt til þess sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess að málið fái afgreiðslu eins og hér er lagt til áður en þingi lýkur.