13.05.1975
Neðri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3956 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

95. mál, vegalög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, Eyjólfi K. Jónssyni, Gils Guðmundssyni, Sverri Bergmann og Gylfa Þ. Gíslasyni. Brtt. er við 11. gr. frv. og er þess efnis að í stað orðanna „25%“ komi „10%“, þ.e.a.s. að þessi hundraðshluti verði færður til hins fyrra horfs. Ég ræddi þetta atriði nokkuð við 1. umr. hér í d. fyrir nokkru og boðaði þá þessa brtt. ef n. sú, sem fékk þetta mál til meðferðar, tæki ekki þessa till. upp. Það hefur hún ekki gert og þess vegna flytjum við brtt. Um rök fyrir henni get ég vísað til þess sem ég áður hef sagt, en ég vil nefna það að með því að færa þetta framlag í 25% er verið að breyta tekjustofni sem sveitarfélögin hafa reiknað með og raunverulega er verið að skerða tekjur allra þéttbýlissveitarfélaganna, það er verið að skerða tekjur þeirra allra í raun.

Það er látið í það skína að hér sé um réttlætismál að ræða fyrir fámenna kaupstaði og kauptún, eins og segir í grg. með frv., en þar segir, þegar rökstutt er hvers vegna farið er upp í 25%, að þetta sé lagt til til þess að auðvelda fámennum kaupstöðum og kauptúnum að flýta gerð þéttbýlisvega með bundnu slitlagi o.s.frv. Í frv. heitir þetta hins vegar annað, þ.e. „til að flýta framkvæmdum þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga“ o.s.frv. Hér er ekki talað um fámenna staði, eins og talað er um í grg. Þetta fé, hvort sem um er að ræða 10% eða 25% sjóð, á að nota að mínu áliti þar sem umferðin er mest. Það er sá þáttur sem vegur mest í mati á því hvar eigi að ráðast í vegaframkvæmdir þótt að sjálfsögðu komi þar til fleiri þættir. Skv. þessu sýnist mér það á misskilningi byggt að hér sé verið að bæta hag hinna fámennari sveitarfélaga almennt. Hins vegar er ljóst, eins og ég áður sagði, að hlutur allra er rýrður nema þeirra örfáu sem framlaga mundu njóta úr þessum sjóði á ári hverju. Hér er um það litla fjárhæð að ræða að skammt dregur þegar hafðar eru í huga þær mörgu framkvæmdir sem vinna þarf að. 10% sjóðurinn gefur 28.5 millj. kr., en 25% 71.2 millj. Mismunur er því 42.7 millj. og gefur auga leið að sú upphæð getur ekki komið að skynsamlegu gagni ef skipta á henni milli margra. Hins vegar er, eins og ég áðan sagði, dregið af öllum þannig að raunverulega fær hver þéttbýlisstaður 20: minna í sinn hlut ef brtt. okkar verður ekki samþ.

Ég nefndi hér við 1. umr. hverju hér munar í tölum talið og ég skal endurtaka það að nokkru leyti. Miðað við 10% sjóðinn yrði framlag á hvern íbúa 1 335 kr. rúmar, en miðað við 25% yrði framlag á hvern íbúa 1 112 kr. rúmlega. Í sveitarfélagi, sem telur 1000 íbúa, er því um að ræða rýrnun tekna sem nemur 223 þús. kr., þ.e. 10% sjóðurinn gefur hverju sveitarfélagi 20% meira, eins og ég sagði áðan, ef till. okkar verður samþ. Það breytir hér engu um þótt Alþ. fái nú að ráðstafa þessu fé í gegnum fjvn., en áður var þetta í höndum ráðh. eins. Mér finnst það í sjálfu sér ekki nema eðlilegt að Alþ. fari ekki að afsala sér fjárveitingavaldinu alfarið í hendur ráðh., eins og raunar verið hefur, þegar um er að ræða slíka hækkun sem lagt er til í frv. eins og það er komið frá Ed.

Hæstv. samgrh. tók fram við 1. umr. að vegamálastjóri mundi ekki misnota það vald sem honum er hér fengið. Mér hefur aldrei dottið í hug að vegamálastjóri mundi gera það. En féð er bara það lítið að það dugir ekki nema á örfáa staði, eins og ég áðan sagði. Hæstv. ráðh. nefndi einnig að hækkun þessa sérstaka framlags væri alveg í samræmi við hans hugsun þar sem hann væri andvígur höfðatölureglunni sem farið er hér eftir. En þetta bætir bara ekki úr ágöllum þeirrar viðmiðunar vegna þess að úthlutun fjárins verður háð mati og því er ég andvigur. Ég tel skynsamlegast að hafa þetta eftir föstum reglum þótt ég sé alls ekki að segja með því að sú regla, sem nú gildir, þ.e. höfðatölureglan, sé hin eina rétta. Þvert á móti hef ég bent á það áður að það þurfi að taka upp nýja viðmiðunarreglu, þótt ég geri það ekki að till. minni núna, og þar eigi að vega mest umferðarþunginn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar hér og mun ekki við þessa umr. ræða um aðrar þær brtt. sem hér hafa verið fluttar.