13.05.1975
Neðri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

95. mál, vegalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú ekki ýkjamargt sem ég ætla að gera hér að umræðuefni af því sem fram hefur komið. Það eru aðeins örfá atriði og það er þá í fyrsta lagi það sem hv. 9. landsk. kom inn á í dag.

Ég hugsa að hv. þm. hafi eitthvað misreiknað sig þegar hann sagði að ef sú till., sem hann ásamt þremur öðrum hv. þm. stæði að, yrði felld, þá mundi hann flytja brtt. við 3. umr. um að 25% gjaldinu yrði ráðstafað í aðrar framkvæmdir en þjóðvegi gegnum þéttbýli. Er þetta ekki rétt skilið? (SigurlB: Nei, nei alveg öfugt.) Á bara að ráðstafa 25% í þjóðvegi gegnum þéttbýli? (SigurlB: Fyrst og fremst.) Fyrst og fremst í það. Ef það er rétt, þá get ég ómögulega skilið að sú brtt. komi í staðinn fyrir þá sem við erum hér að tala um í sambandi við breyt. á 32. gr. (Gripið fram í.) Ekki ég, hv. þm. líka. (Gripið fram í.) Við erum hér að skera úr. (Forseti: Þótt næturfundur sé vil ég biðja þm. að forðast sem mest samtal í d.) Það eru svo fáir að það gerir ekkert til.

Ég held að það sé alveg ljóst að með þessari brtt. okkar erum við að fara fram á að það verði veitt meira fé en þessi 25% regla kæmi til með að gefa. Og því fé yrði ekki ráðstafað eftir höfðatölureglunni nema að 2/3. 1/3 yrði ráðstafað eins og hv. síðasti ræðumaður var að tala um, eftir þörf. Mér kemur því á óvart ef hv. 9. landsk. getur lýst ánægju með það að að okkar brtt. felldri yrði bara staðið við 25%, því að eins og vegal. nú eru, þ.e.a.s. 32. gr., þá er heimilt að ráðstafa af þéttbýlisvegafé til sérstakra framkvæmda eftir að lokið er gerð þjóðvega í gegnum þéttbýli, þannig að það þarf enga breyt. þar á. Ég lýsti því í dag og sami skilningur kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf. að við virðumst skilja þessa breyt., þ.e.a.s. aukninguna í 25%, á þann veg að það sé einnig heimilt að nýta það fjármagn til annarra framkvæmda en þjóðvegaframkvæmda, ef það sýnist hagkvæmt, og tengja saman framkvæmdir þannig. Þannig skil ég þessa breytingu. Þangað til annað kemur fram vil ég meina að þessi breyt. kæmi til með að fela það í sér að það væri hægt að ráðstafa meiru fé til annarra verkefna en þjóðvegagerðar gegnum þéttbýli.

Hins vegar kom mér á óvart sú afstaða sem hv. 4. þm. Vestf. tók í þessu máli. Ég minnist þess þegar umr. voru um þetta hér á s.l. sumri að þá tók hann einnig til máls og það, sem hann taldi ábótavant við þá brtt. sem ég ásamt fleirum hv. þm. stóð að, að finna tekjustofn til þessara framkvæmda, var að hann taldi að það væri ekki nægilega tryggt til hverra framkvæmda þessu fé yrði ráðstafað, það þyrfti að fá betri tryggingu þar um. Og hann rökstuddi sitt mál með því í lokin að hann mundi ekki styðja þetta m.a. vegna þessa, en stuðla að því að þetta mál yrði tekið föstum, ákveðnum tökum og séð fyrir fjármagni af hálfu Alþ. á næsta ári. Þetta er sagt 1974, það er þá á árinu 1975. Það kemur mér því heldur spánskt fyrir sjónir að hv. þm. skuli ekki treysta sér til þess að standa með þessari brtt. Að vísu tók hann líka fram að hann teldi að með því væri málinu stefnt í hættu, ef það ætti að fara milli deilda. Ég sé ekki að það sé nein hætta á ferðinni með það. Annað eins hefur nú gerst og annað eins á líklega eftir að gerast áður en þingi lýkur, að mál fari milli deilda. Og enginn talar um að því sé stefnt í hættu bara þess vegna. Hér er fyrst og fremst um það spurning, hvort menn eru velviljaðir þessu máli, þessari breyt., eða ekki.

Ég heyrði ekki betur en hv. 4. þm. Vestf. væri efnislega samþykkur þessari breytingu, enda getur ekki annað verið vegna þess að hér á í hlut maður sem verið hefur í forsvari og forustusveit fyrir sveitarstjórnarmálum um árabil. Það kemur mér því ekki á óvart þó hann lýsi sig sammála meginefni eða tilgangi till. þó að hann á þessu stigi telji kannske hæpið að hann geti greitt henni atkv. Ég er ekki trúaður á það, hvað sem menn um það segja, að vegalög verði opnuð aftur á hausti komanda. Í mínum huga er það spurningin hvort þessi breyt. fæst nú, fáist hún ekki nú megi a.m.k. reikna með því að það þurfi að bíða nokkurn tíma eftir því að vegalög verði aftur opnuð, þannig að það mál verður þá óbreytt um nokkurn tíma.

Varðandi það, sem hv. 5. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson sagði áðan, að hér væri verið að breyta tekjustofni sem sveitarfélög hefðu reiknað með, er það að segja að það var orðið um það samkomulag á síðasta þingi, þ.e.a.s. vorið 1974, að hækka þessa prósentu úr 10% í 25%, þannig að það er um enga breyt. þar að ræða. Sveitarfélög hefðu samkv. því samkomulagi getað reiknað með því að þessi breyt. yrði gerð þegar þingmeirihluti skapaðist fyrir að framfylgja því sem orðið var samkomulag um. Auk þess sé ég ekki betur en öll bæjar- eða sveitarfélög verði að endurskoða tekjuáætlanir sínar með hliðsjón af ástandi sem ríkir. Ég sé því ekki að það séu nein rök sem mæla með því að þessu megi ekki breyta vegna þess að sveitarfélög hafi reiknað með þessum tekjustofni til sín.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykn. að það væri látið í það skína að hér væri um að ræða réttarbót hinna fámennu kauptúna. Ég vil meina að það sé meira en látið í það skína, að mínu áliti er það beinlínis tilgangurinn með þessari breyt. að hin fámennari sveitarfélög fái meira í sinn hlut en áður. Þess vegna koma mér ákaflega einkennilega fyrir sjónir þeir útreikningar eða a.m.k. uppsetningin á þeim útreikningum sem hv. 5. þm. Reykn. setti hér upp, þ.e.a.s. 10% sjóðurinn gefur hverju sveitarfélagi 20% meira, segir hann, heldur en 25% sjóðurinn. (ÓE: Já.) Og það er rétt, segir hann. Hvert fer mismunurinn? Hvaða sveitarfélög fá mismuninn á því að 10% gjaldið yrði greitt eða 25%? Er hann inni í þessu? (Gripið fram í: Það er það sem enginn veit.) Nei, hann er ekki inni í þessu. Hv. þm. þarf því að endurskoða útreikninga sína. Einhvers staðar hljóta þessi 15% að koma niður. Það er hins vegar rétt að það eru meiri líkur fyrir að það komi ekki á Reykjaneskjördæmi eða Reykjavík heldur en var áður. Það er mergurinn málsins og þess vegna hefur þessi hv. þm. andófi gegn málinu. Það er það sem um er að ræða, það er verið að breyta, eins og hann réttilega gat um. Breytingin er byggð á því að rétta hlut hinna fámennari staða, það er staðreynd málsins, enda las hann það upp úr grg. frv. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir, sem frv. sömdu, hafi verið að meina annað í grg. en frv. á að túlka. (Gripið fram í: Það ber ekki saman grg, og lagagrein.) Það hefur engin skýring fengist á því hvort á þá að gilda.

Nei, allt andóf gegn þessari breyt., hvaðan sem það kemur, það er andóf gegn því að það verði tekin upp réttlátari skipting á þéttbýlisvegafénu. Það er það sem um er að ræða. Og það verða mér mikil vonbrigði ef nokkur þm., sem telur sig málsvara og fulltrúa hinna fámennari bæjar- og sveitarfélaga dreifbýliskjördæma, ef nokkur þm. í þeirri stöðu greiðir atkv. gegn brtt. þeirri sem við flytjum á þskj. 537. Þeir, sem greiða atkv. gegn slíkri leiðréttingu, hafa ekki meint mikið með því sem þeir hafa sagt á undanförnum árum að því er varðar að fá leiðréttingu á úthlutunarreglum. Spurningin er um það hvort menn vilja á borði gera þá breyt. til leiðréttingar sem þeir hafa haft á orði að undanförnu.