13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

329. mál, yfirvinna og aukagreiðslur í opinberum rekstri

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. glögg og góð svör og greinagóða skýrslu. Ég held að það geti verið fróðlegt að athuga þessa skýrslu. við fyrstu sýn rekur maður t.d. augun í það að yfirvinna er geysimisjöfn hjá hinum ýmsu ríkisfyrirtækjum. Þannig má lesa í skýrslunni að í skólunum er allt frá því að vera engin yfirvinna upp í 56% af launagreiðslum. Á skattstofum er allt frá 6% upp í 29% yfirvinna. Hjá sjónvarpi eru yfirvinnugreiðslur 55%, hjá útvarpinu 47%., Póstur og sími greiða 329 millj. kr. á ári í yfirvinnu og grunnskólinn 215 millj. Allt eru þetta fróðlegar tölur og er mér sérstök ánægja að heyra að hæstv. fjmrh. hefur á prjónunum að athuga hvort ekki megi draga úr þessari yfirvinnu og framkvæma þar með eitthvað af þeim sparnaði sem ráðgert er.