13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

242. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um snjómokstur á þjóðvegum. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt hafa snjóalög verið með mesta móti í vetur um allt landið og þess vegna kannske eðlilegt að menn forvitnist um það hvernig háttað er kostnaði við snjómokstur á þjóðvegum. Ég hef því leyft mér að bera fram svofellda fsp.:

„Hver var kostnaður við snjómokstur á þjóðvegum landsins árin 1971, 1972, 1973 og 1974? Hvernig skiptist kostnaðurinn á hvert ár um sig? Á hvaða þjóðvegum var hann mestur? Hvaða reglur gilda um snjómokstur hjá Vegagerð ríkisins?“