13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3963 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

191. mál, jarðhitarannsóknir við Varmahlíð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrri fsp. hv. þm. er á þessa leið: „Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á jarðhitasvæðinu við Varmahlíð í Skagafirði?“

Jarðhitadeild Orkustofnunar gerði yfirlit yfir jarðhitarannsóknir við Varmahlíð í okt. 1971. Yfirlit þetta var byggt á segul- og viðnámsmælingum sem gerðar voru á árunum 1964–1967 og mæltu niðurstöður þeirra með frekari rannsókn, einkum í nágrenni Reykjarhóls. Árið 1972 voru gerðar viðtækari rannsóknir á þessu svæði með segul- og viðnámsmælingum. Samkv. þeim niðurstöðum, sem þar fengust, var gerð borhola við hverina rétt austan Reykjarhóls. Þessi borhola var boruð í sept. 1972. Rennslis- og hitamælingar í lok borunar gáfu 16–17 sekúndulítra af 86 stiga heitu vatni. Margt bendir til þess að fá megi allt að 100 stiga heitt vatn. Ráðgerð er viðtæk jarðhitarannsókn fyrir Seyluhrepp, Staðarhrepp og Skarðshrepp í Skagafirði nú á þessu sumri. Er von til þess að sú rannsókn veiti nánari upplýsingar um jarðhitasvæðið umhverfis Varmahlíð.

Síðari fsp. hv. þm. er á þessa leið: „Er vitað hvort þar er um að ræða fullnægjandi varmaorku fyrir nærliggjandi umhverfi, þ. á m. grænfóðurverksmiðju, sem ákveðin hefur verið í Vallhólmi?“

Ekki er enn fyllilega ljóst, hver varmaþörfin á svæðinu muni verða. Lausleg athugun á orkuþörf grænfóðurverksmiðju, eins og rætt hefur verið um í Vallhólmi, bendir til þess að það varmamagn, sem nú er fyrir hendi við Varmahlíð, sé ekki nægilegt fyrir slíka verksmiðju. Á hitt ber þó að líta að áframhaldandi rannsókn á jarðhitasvæðinu gæti skapað grundvöll að rekstri slíkrar verksmiðju.

Rétt er að benda á að samkv. athugunum, sem gerðar hafa verið, er ekki fullljóst að hve miklu leyti sé hagkvæmt og tæknilega framkvæmanlegt að nýta jarðhita til grænfóðurframleiðslu og talin þörf ítarlegri rannsókna á þessu sviði, en eins og ég gat um, fara fram frekari mælingar á jarðhitasvæðinu nú á þessu sumri.