13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

343. mál, eignarráð yfir jarðhita

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fsp. þessi er flutt á þskj. 490 til forsrh. hæstv. og hljóðar svo:

„Hefur ríkisstj. markað sér ákveðna stefnu og þá hverja um eignarráð yfir jarðhita, sem borað er eftir á kostnað ríkisins: a) háhita, b) lághita?“

Fsp. þessi var flutt af hv. þm. Braga Sigurjónssyni sem sat hér um skeið á Alþ. í forföllum Benedikts Gröndals og hafði hann hugsað sér að flytja eftirfarandi grg. fyrir þessari fsp.:

Fleirum en mér mun leika mikil forvitni á svari við framangreindri spurningu. Fyrir Nd. hefur nú legið nær daglega um a.m.k. mánaðartíma frv. til l. um breyt. á orkulögum. Megininntak breytinganna er það að öll svonefnd háhitasvæði, nánar tiltekið þar sem 200 gráðu hiti finnst ofar 1000 m dýpis, skuli vera undir umráða- og hagnýtingarrétti ríkisins. Frv. hefur komið til 1. umr. eða raunar komið til 2. umr, — þó að þeirri umr. sé ekki lokið - og meðferð þn., en meiri hl. n. leggur til, að því sé vísað til ríkisstj.

En hver er þá stefna ríkisstj. í málinu hlýtur margur að spyrja? Ég er einn í hópi þeirra fjölmörgu manna sem sýnist virkjunarmálum okkar varðandi vatnsorku og jarðhita stefnt í algert öngþveiti sé ekki umráða- og hagnýtingarréttur ríkisins eða segjum þjóðarinnar yfir þessum þjóðarauði skilgreindur skýrlega og síðan lögfestur. Því tel ég umrætt frv. spor í rétta átt þótt ég hefði kosið það enn afdráttarlausara. En mér sýnist á öllum sólarmerkjum að það bögglist fyrir brjósti hv. þd. Mér er tjáð að fyrir dómstólum landsins séu nú a.m.k. 15 mál í gangi varðandi eignarráð á landi, flest í sambandi við vatnsvirkjanir. Mig grunar að mörg hver ef ekki öll verði talin prófmál og síðan verði ríkið látið borga brúsann. Er óséð hvílíkan kostnað og fyrirhöfn ríkið kann að hafa af slíkum málum um næstu framtíð verði eignarmörkin ekki þegar dregin skýrt og lögformlega.

Enn hefur borið minna á lögbönnum og málaferlum varðandi jarðhitann en vatnsorkuna, en það mun aðallega stafa af því að við erum skemmra eða a.m.k. óvíðar komnir þar á veg með beislun heldur en með vatnsorku. Þó hafa menn ugglaust fylgst með svonefndu Svartsengismáli, sem ekki verður betur séð en stefni í sjálfheldu eins og horfir. Hvernig á að standa að umráða- og nýtingarrétti jarðhitans í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu ef Akureyri fer að leita þangað eftir hitaveitu og húsvíkingar og heimamenn eru fyrir? Hvernig á að búa svo um að hver skaði ekki annan eða árekstrar verði? Hver á jarðvarmann á Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu ef borholan í landi ríkisskólans þar tæmir laugar bændanna í kring?

Þannig vakna upp fleiri og fleiri vandamál við núverandi óljósa löggjöf um eignarráð yfir þessum dýrmæta þjóðarauði okkar. Þess vegna m.a. tel ég sjálfsagt að leita skoðunar núv. ríkisstj. á þessu máli. Hún hefur svo mikinn þingmeirihl. að baki sér að hún hefur í hendi sér að setja um þessi mál afdráttarlaus lög ef hún vill.