13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

343. mál, eignarráð yfir jarðhita

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Það er ljóst að ríkisstj. hefur enn ekki myndað sér stefnu í þessu mjög svo afdrifaríka máli. Ég legg áherslu á það og vek athygli á því að einn flokkanna, þingflokkur Alþfl., hefur þó myndað sér skoðun á málinu fyrir nokkrum árum og lagt fram till. um það hér á hv. Alþ. ár eftir ár, sem síðan hafa legið fyrir hv. Alþ. og þingflokkum þar. Þjóðinni hefur verið kynnt þetta mál og eftir því sem lengra líður, eftir því ganga fleiri til fylgis við þau sjónarmið sem fram koma í stefnu Alþfl. í þessu máli.

Ég vil aðeins að lokum hvetja mjög eindregið til þess að ríkisstj. hafi hraðar hendur við að undirbyggja skoðun sína og stefnu í þessu máli, vegna þess að eftir því sem lengra líður, eftir því verða vandamálin stærri og risavaxnari og eftir því verður meiri hætta á að þjóðin þurfi að borga stórfé fyrir orkuréttindi, fyrir vinnsluréttindi á náttúruauðlindum sem ég held að hver einasti skynsamur maður geri sér fulla grein fyrir að þjóðin sjálf á a.m.k. siðferðilegt tilkall til.