13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3217)

235. mál, beitingavél

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Framvinda hönnunar og smiði beitingarvélarinnar hefur í meginatriðum verið eins og hér greinir:

Á árinu 1972 var lokið við smíði geymslu fyrir nýja tauma, síðar var taumageymslunni breytt og lauk endurhönnun í jan. 1975. Á árinu 1973 var lokið við smíði nokkurra tækja: tækis til þess að bæta á nýjum taumum, þ.e. taumaábót, í febr. afsnúningatækis til þess að snúa tauma af línuás, í maí afskurðartækis til þess að skera af slitna tauma, í okt. tækis til þess að stokka línu. Í jan. 1974 var lokið við önglabeygju, tæki til þess að lagfæra bogna öngla. Jafnframt smíði vélahlutanna var unnið að hönnun á burðargrind og stjórnbúnaði. Vann tæknifræðingur að hönnuninni fram til 31. mars á s.l. ári, en þá hætti hann störfum. Á þessu ári hefur starfið einkum beinst að því að hanna og smíða stjórnbúnað og drif. Jafnframt var tekið til við prófanir á tækjunum og leiddi það til þess að gerðar voru breytingar á taumageymslu eins og ég sagði áðan. Hefur aðeins einn maður unnið að þessu síðan tæknifræðingurinn hætti.

Fiskimálasjóður hefur árlega veitt styrki til þessa starfs frá árinu 1966 og hafa þeir numið sem hér segir: Það ár 215 þús., 1967 386 þús., 1968 365 þús., 1969 350 þús., 1970 310 þús., 1971 500 þús., 1972 1 millj. og 600 þús., 1973 1600 þús. og á s.l. ári 1400 þús. Samtals er búið eð verja til þessarar tilraunar og smíði 6 millj. 126 þús. kr. Síðasta upphæðin nægði ekki til þess að unnt væri að ráða tæknifræðing á ný, en fram til þessa hefur smíðakostnaður og efni numið um það bil 40% af kostnaði.

Vélaþættirnir, sem eftir er að vinna, eru burðargrind, samstilling, prófanir og breytingar, en þá er lokið fyrri vélareiningunni. Síðari vélareiningin hefur að hluta verið smíðuð áður, en þarfnast endurskoðunar, þ.e. beituskurður, beiting, stjórnbúnaður, burðargrind, prófun og breytingar. Má gera ráð fyrir því að vinnumagnið, sem eftir er, sé um. 12 mánuðir við fyrri vélareiningu og 15 mánuðir við síðari vélareiningu eða samtals um 27 mannmánuðir.

Ég þekki þetta mál mjög náið sem fyrrv. stjórnarmaður í Fiskimálasjóði og hef fylgst mjög ítarlega með þessum tilraunum. Hafa margir aðilar skoðað þessar vélar, svo langt sem þær ná, og skipstjórar, sem hafa mikla tækniþekkingu jafnhliða, hafa lokið miklu lofsorði á þessa uppfinningu og telja að hún muni, þegar henni verði lokið, standa mun framar en norska uppfinningin sem hefur verið reynd hér á landi með því miður mjög lélegum árangri. Færeyska beitingarvélin, sem er fyrst og fremst fyrir minni báta, getur gengið í þessum litlu bátum, en afköst hennar eru engan veginn sambærileg við þau afköst sem gert er ráð fyrir að þessi vél komi til með að ná. M.ö.o.: Það eru mjög bjartar vonir tengdar við það að þessi uppfinning muni geta breytt verulega gangi línuveiða hér á hinum stærri bátum sem línuveiðar stunda.

Ég skal svo að síðustu svara því að ég mun, eins og ég gerði á meðan ég var stjórnarmaður í Fiskimálasjóði, beita mér fyrir því að aukið verði framlag til þess að hraða lokavinnu við þessa merku uppfinningu, þannig að þá verður séð hvort hér verður um mjög mikla breyt. að ræða sem oltið getur á hvort veiðar fiskibáta með línu eiga framtíð fyrir sér. M.ö.o.: ég skal beita mér fyrir því, að aukin verði framlög Fiskimálasjóðs á þessu sviði, í samráði við þann eftirlitsmann sem Fiskimálasjóður hefur ráðið til þess að fylgjast með gangi verksins frá hendi uppfinningamannsins.