27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

54. mál, skylduskil til safna

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. hefur gert glögga grein fyrir frv. því sem hér liggur frammi, frv. til l. um skylduskil til safna. Um þetta efni gilda nú lög frá 1949 um afhendingu skyldueintaka til bókasafna. Það er því rétt nú þegar við 1. umr. málsins að gera sér grein fyrir því hverju þessu frv. er ætlað að breyta frá því sem er í gildandi lögum.

Í grg. segir að í frv. þessu sé freistað að skilgreina hver sé raunverulegur tilgangur slíkra laga o.s.frv., og er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Því er í 1. kafla frv. fjallað um tilgang þess, en á það þótti nokkuð skorta í fyrri lagasetningu. En þegar frv. og lögin eru borin saman skilst mér að það sé ekki neitt sérstakt sem rekur á eftir að flýta þessari lagasetningu. Mér finnst það þurfi að athuga þetta mál betur, því verði ekki hraðað um of. Kemur fram við samanburð að ætlunin er að fækka hinum svokölluðu skyldueintökum til mikilla muna. Er það e.t.v. til hagræðingar fyrir vissa aðila, en getur þó breytt töluvert þeirri skipan sem farið hefur verið eftir hingað til.

Nú er aðeins gert ráð fyrir að halda eftir af upplagi 4 eintökum til skylduskila, en þau hafa verið 12, að ég ætla.

Ég vek athygli á því, að í l. um almenningsbókasöfn, nr. 22 frá 1963, 4. gr., er ákvæði sem segir á þessa leið:

„Bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði skulu skyld að varðveita eitt eintak af hverju íslensku riti sem prentað er. Skuli söfnin njóta sakir þessarar skyldu árlegs aukastyrks úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun í fjárl.“

Og í 6. gr. þessara sömu l. er sú skylda lögð á bæi og sýslur að sjá söfnum fyrir viðunandi húsnæði, enda þótt þau eigi að njóta styrks til húsabóta úr ríkissjóði, en hann hefur verið á undanförnum árum mjög svo takmarkaður og ekki fengist hækkaður þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Það er því augljóst mál að þetta frv., ef samþ. verður óbreytt, breytir þessum skylduskilum til mikilla muna. Er því ekki vert að láta það alveg orðalaust ná fram að ganga. Við nánari athugun virðist koma í ljós að meiningin sé að taka prentskilin af bókasöfnunum í Stykkishólmi, Ísafirði og Seyðisfirði. Sú ástæða er einhvers staðar nefnd, að eintökin séu ekki geymd nógu vel á þessum stöðum. Ég vek þó athygli á því að þessi regla, sem ég hef nefnt, hefur gilt um langan aldur og þessi bókasöfn, sem ég nefndi, hafa byggst upp með hliðsjón af henni.

Ég verð því að segja að ég tel þetta frv. að ýmsu leyti afturför frá því sem verið hefur, að því er landsbyggðina snertir a.m.k. Ef þetta væri rétt ástæða, þá væri nær að skyldueintökin til umræddra safna væru 2, annað til geymslu, en hitt til útlána. Mér er nær að ætla að það sé verið að láta að því liggja að þessi bókasöfn úti á landi láni þessi eintök út í staðinn fyrir að geyma þau. Kann vel að vera að einhver brögð séu að því. Ég verð þá að segja að mér finnst meira virði að hreyfa örlítið við bókunum, láta lesa þær, heldur en geyma þær einhvers staðar í læstum skáp.

Ég held þess vegna að við þurfum að athuga þetta nánar. Það væri að ýmsu leyti spor aftur á bak að svipta þessi bókasöfn rétti til skyldueintaka og gera þau þar með óhæfari til þess að gegna hlutverki sínu. Og prentskilaaðferðin er auk þess einfaldari og miklu kostnaðarminni heldur en auka fjárframlög til safna svo að þeim yrði kleift að kaupa allar þær bækur sem þau teldu sig þurfa. Geymsluskyldan og dreifing bóka um landið er líka öðrum þræði gerð í öryggisskyni og til þess að tryggja að bækur glatist ekki alveg þótt náttúruhamfarir, styrjaldir eða aðrar ófarir gangi yfir og tortími bókum á einum stað e.t.v. Ég held því að það þurfi að athuga þetta mál betur áður en prentskilin eru afnumin að því er tekur til umræddra þriggja bókasafna.