13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

342. mál, mengunarhætta í Njarðvíkurhreppi og Keflavík

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 464 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um mengunarhættu í Njarðvíkurhreppi og Keflavík. Fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður rannsókn á mengunarhættu vatnsbóla í Njarðvíkurhreppi og Keflavík vegna olíu frá Keflavíkurflugvelli og hve víðtæk er rannsóknin? a) Hafa vatnshæðarmælingar farið fram? b) Hafa verið teknir borkjarnar til efnarannsókna? e) Hafa verið gerðar ísótópamælingar á vatnsrennsli? d) Er orðið ljóst, hve langt jarðvegsmengunin er komin? e) Hafa hættusvæði verið kortlögð?“

Á fundi hreppsnefndar Njarðvíkurhrepps 3. mars s.l. var gerð eftirfarandi samþykkt samhljóða:

„Hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps lýsir yfir megnri óánægju með þann drátt sem orðið hefur á rannsóknum á mengunarhættu vatnsbóla í Njarðvíkurhreppi og Keflavík og krefst þess að unnið verði af fullum krafti að þessu máli og ríkisvaldið sjái til þess að fjármagn skorti ekki til rannsóknanna.“

Njarðvíkingar hafa um langa hríð haft þungar áhyggjur af hugsanlegri mengun vatnsbóla sinna vegna gálauslegrar meðferðar olíu og annarra skyldra efna á Keflavíkurflugvelli og staðsetningar aðaltankasvæðis Keflavíkurflugvallar skammt frá vatnsbólum njarðvíkinga.

Árið 1968 var Jóni Jónssyni jarðfræðingi falið að gera athugun á vatnsbólum í Ytri-Njarðvík með tilliti til mengunarhættu frá olíugeymum varnarliðsins. Í skýrslu hans, sem er dagsett 10. apríl 1969, segir svo um mengunarhættu, eftir að gerð hefur verið grein fyrir lítilli hættu af efnafræðilegri mengun, með leyfi forseta:

„Hins vegar er því ekki að leyna að hætta getur verið á mengun frá olíum, bensíni og þess háttar efnum sem mjög mikið eru höfð um hönd á þessum slóðum. Hættan er því meiri sem þarna er um stórt, meira og minna samfellt grunnvatnssvæði að ræða. Mengist það af þessum efnum getur það þýtt að mörg vatnsból á svæðinu ónýtist að fullu og öllu.“

Hinn 6. okt. 1970 kaus svo hreppsnefndin þriggja manna nefnd til að kanna réttarstöðu hreppsfélagsins, einstaklinga og fyrirtækja varðandi tryggingar og tjónabætur, ef slys yrði af völdum flugumferðar, einnig varðandi yfirstandandi hættu á mengun vatnsbóla frá olíusvæðum varnarliðsins og annarra. Nefndin skilaði mjög ítarlegu áliti í júlí 1972 og þar kemur m.a. fram, að mörg þúsund tonn af olíu og öðrum skaðlegum efnum hafa runnið út í jarðveg Keflavíkurflugvallar á umliðnum áratugum. Landi hallar til norðurs frá vallarsvæðinu að vatnsbólum keflvíkinga og njarðvíkinga. Rakin eru erlend dæmi þess að grunnvatn hafi spillst af olíuleka sem varð þrem áratugum áður.

Það sem m.a. kom fram í skýrslu Jóns Jónssonar var að gamlir olíutankar þarna eru búnir að leka árum saman, að á svæðinu við stóra flugskýlið hefur mikið farið niður af olíu, að um tíma var steinolía, sem flugvélar voru þvegnar upp úr, látin fara niður í holræsin, en vegna mikillar gasmyndunar í holræsum var hætt við þá aðferð og olían látin fara út í jörðina. Þessi dæmi eru tekin af handahófi í skýrslunni, en þar eru mörg dæmi um slíkt sem tekin eru fram.

Það, sem litið er á að þurfi að gera þarna, er að velja borholu til vatnshæðarmælingar, að framkvæma vatnshæðarmælingar, að samræma hæðarkerfi á Rosmhvalanesi, að taka borkjarna til efnarannsókna og gera ísótópamælingar á vatnsrennsli. Heilbrigðiseftirliti ríkisins hefur verið falið að annast þessa rannsókn og hefur hún að nokkru leyti verið framkvæmd, en njarðvíkingum finnst að þetta hafi bæði gengið hægt og rannsóknin ekki verið fullnægjandi og hafa því mikinn áhuga á að úr þessu verði bætt hið skjótasta.