13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

342. mál, mengunarhætta í Njarðvíkurhreppi og Keflavík

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. mjög ítarlega skýrslu og greinagóða. Þar kom fram að þarna er um hreint hættuástand að ræða, svo mikið hættuástand, að í raun og veru má segja að það ógni byggð á Suðurnesjum. Og ég get sannarlega fallist á einmitt þá tillögu sem rn. hafði gert til varnarmáladeildar, það er það sem þarf að gera. En því miður hafa framkvæmdir ekki hafist enn þá og verð ég því að skora á hæstv. utanrrh. að sjá til þess að þetta mál verði tekið upp að nýju sem allra fyrst og gerðar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru. Ég held að þarna mætti jafnvel bæta við einni bráðnauðsynlegri aðgerð og hún er sú að leita eftir öðrum vatnsbólum, sem fjær liggja, vegna þess að ég sé ekki fram á annað en þar sem vitað er að a.m.k. hundruð eða jafnvel þúsundir tonna af olíu hafa farið niður í jarðveginn þarna á undanförnum áratugum, þá sé nokkuð ljóst að það ástand, sem nú er, muni stórversna á næstu árum og því sé fullkomin ástæða til að leita eftir öðrum möguleikum en nýta þau vatnsból sem eru í nágrenni vallarins og notuð eru nú.