13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

270. mál, viðbótarritlaun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég svara á þessa leið:

Í fyrsta lagi: Rn. hefur ekki ákveðið að láta fara fram endurmat á þessari tilgreindu úthlutun. Hins vegar hefur rn. skipað nefnd til að gera úttekt á stöðu lista og listafólks í þjóðfélaginu. Mun sú nefnd ljúka störfum innan eins árs. Hlutverk þessarar nefndar er m.a. að leitast við að gera sér grein fyrir því hvort listin, listafólkið og starfsemi þess njóti nú eðlilegrar hlutdeildar í þjóðartekjunum, hvort skipt sé með eðlilegum hætti á milli hinna ýmsu listgreina, og jafnframt að gera sér grein fyrir, hvort eðlilega hafi verið staðið að úthlutun þeirra fjármuna sem bundnir eru einstökum mönnum. Það er ekki ætlunin að þessi nefnd geri till. um úrbætur. Þetta er könnunarnefnd og hún mun skila sínum niðurstöðum til menntmrn. sem seinna mun beita sér fyrir því í samráði við listafólkið í landinu að fram fari athugun og tillögugerð um hugsanlegar úrbætur á þessu sviði.

Annarri spurningu vil ég svara þannig, að þetta viljum við gera með því að leita réttlætis almennt í úthlutunum, en alveg sérstaklega með því að setja ljós ákvæði í væntanlega reglugerð. Svo er það auðvitað á valdi okkar allra þm. sem og annarra borgara að veita almennt og öflugt aðhald þeim er starfa að úthlutun listamannalauna hverju sinni.

Varðandi 3. spurninguna vil ég minna á þetta: Í gær voru afgr. á Alþ. lög um Launasjóð rithöfunda. Reglugerð hefur að sjálfsögðu ekki enn þá verið sett um framkvæmd þessara laga og hlýtur að taka sinn tíma að undirbúa hana, en ég álit að slíka reglugerð þurfi að undirbúa vandlega. Ég treysti mér því ekki til þess á þessu stigi að tjá mig nánar um hugsanleg ákvæði sem tekin kynnu að verða upp í þessa reglugerð.

E.t.v. þykir hv. fyrirspyrjanda þessi svör ekki nógu ljós, en þetta eru þau svör sem ég tel mig geta gefið á þessu stigi málsins.