13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

345. mál, framkvæmd grunnskólalaga

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 4. þm. Reykv. vil ég svara á þessa leið:

Reglugerðarnefnd sú, sem starfað hefur að þessu máli síðan í fyrra, skilaði reglugerðaruppkasti 5. þ.m. Hún undirbýr nú kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Ekki er hægt að tilgreina útgáfudag þessarar reglugerðar nákvæmlega að svo stöddu, en það er unnið fullum fetum að þessu máli. Hér þarf bæði að ákvarða um aðgerðir á næsta skólaári og svo um framtíðarskipan, og í raun og veru hefur þessi nefnd unnið miklu víðtækara starf en það eitt að undirbúa téða reglugerð. Þetta mál er ákaflega umfangsmikið og vandasamt. Sem dæmi um það, sem nú er í bígerð á vegum menntmrn. í meira og minna samstarfi við áhugafélögin, skal ég nefna eftirfarandi:

Að koma upp greiningarstöð er meti þarfir barnanna og möguleika til úrbóta og veiti leiðbeiningar fyrir foreldra og skóla. Vísir að slíku starfi er raunar þegar til. en það hefur ekki verið skipulega útfært.

Að leysa húsnæðisvandamálin, t.d. skólans fyrir fjölfötluð börn sem núna er rekinn í Kjarvalshúsi á Seltjarnarnesi við þröngan kost. Hér er um að ræða húsnæðisþörf, bæði fyrir næsta skólaár og svo að því er framtíðina varðar vitanlega, og fleiri mál af því tagi, þ.e.a.s. varðandi húsnæðismál fyrir þessa starfsemi, liggja fyrir til meðferðar og úrlausnar. Þau eru þó nú á síðustu missirum umfangsminni en þau voru í hugum manna fyrir nokkrum árum, vil ég segja, því að nú er meginstefnan sú að sem allra flestir geti sem allra lengst numið og starfað innan skólakerfisins sjálfs án þess að þurfa að fara á sérstofnanir. En samt sem áður er þörfin mikil.

Ákveðið hefur verið að gera sérstakt átak til að leysa sérkennslumálin á tilteknu landssvæði næsta vetur með samræmdum aðgerðum, þ.e. með könnun á þörfinni, með námskeiði í leshjálp og annarri hjálp fyrir börn með sérþarfir, fyrir kennara frá stærstu skólunum á svæðinu, með stofnun deildar við einn heimavistarskóla fyrir þau börn á svæðinu, sem ekki geta notið kennslu í almennum skólabekkjum grunnskólans, og loks með því að hjálpa til þess að þeir einstaklingar, sem verst eru á vegi staddir, en geta þó notið tilsagnar, geti dvalist um stund a.m.k. við Höfðaskólann hér í Reykjavík þar sem völ er á hæfustu kennurum sem við höfum á að skipa j dag.

Ég vil skjóta því hér inn að þetta svæðisbundna átak er í raun og veru byrjun á framkvæmd viðkomandi ákvæða grunnskólalaganna að því er landsbyggðina varðar. Þessi framkvæmdaáætlun nær til Austurlands, og Styrktarfélag vangefinna á Austurlandi á sinn góða þátt í því að þetta er nú komið á rekspöl sem byrjun á framkvæmdum á landsbyggðinni. En eins og gefur að skilja er ekki unnt að taka fyrir allt landið í einu á þennan hátt, m.a. vegna skorts á sérþjálfuðu fólki og svo af fjárhagsástæðum. Verðum við því, m.a. af þessu tvennu að innleiða þetta smátt og smátt.

Þá vil ég geta þess að það er fyrirhugað að ráða sérstakan fulltrúa að rn. til þess að annast fyrirgreiðslu varðandi sérkennslumálin.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, er aðeins nokkur dæmi um þau verkefni sem nú er unnið að á vegum menntmrn. á þessu viðkvæma, vandasama og yfirgripsmikla sviði. Mér fannst rétt að láta þessar upplýsingar fylgja með beinum svörum við fsp. hv. 4. þm. Reykv.