13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3983 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

182. mál, breytingar á íslenskum rithætti

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að heyra svar hæstv. ráðh., en mér skilst á þeim sem hér hafa talað að það hafi verið magurt mjög. Ég gat þess við umræður um fram komið frv. frá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni að ég hefði beitt mér fyrir því að leitað yrði álits hinna færustu lögfræðinga um það hvort sú ályktunartillaga, sem samþykkt var hér á hinu háa Alþ. í fyrravor, hlyti ekki að hafa lagagildi þar sem ekki er að finna neinn lagabókstaf um íslenska stafsetningu. Hvort sem úrskurðurinn verður á þá lund að ályktunin hafi lagagildi eða ekki, þá getur hann ekki orðið á annan veg en þann, að sú ályktun hlýtur að ganga fyrir auglýsingu frá menntmrn. um íslenskrar ritreglur.

Ég ætla ekki að orðlengja nú um þetta mál, en hv. þm. Magnús T. Ólafsson lagði lykkju á leið sína og vildi mótmæla svigurmælum sem hefðu komið fram í grg. með þáltill . sem ég ásamt fleirum hv. þm. hyggst flytja. Ég vænti þess að nú á næstu mínútum muni verða útbýtt hér í Sþ. þessari þáltill. og til þess að mönnum gefist kostur á að ræða þetta og vegna hinnar brýnu nauðsynjar sem er á því að ekki dragist úr hömlu að taka ákvörðun um þetta mikilsverða mál, þá leyfi ég mér að vænta þess fastlega að hæstv. forseti gefi færi á því að sú till. komi hér fyrir til afgreiðslu áður en þingi lýkur nú.