13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

346. mál, utanríkismál 1975

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég mun nú, eins og venja hefur verið undanfarin ár og ákveðið er í málefnasamningi ríkisstj., gefa Alþ. skýrslu um utanríkismál bæði á sviði alþjóðamála og eins að því er varðar tvíhliða og marghliða samskipti Íslands við aðrar þjóðir.

Það sem einkennt hefur þróunina í alþjóðamálum eru áframhaldandi tilraunir stórveldanna til þess að draga úr spennu í heiminum. Bandaríkin og Sovétríkin halda áfram tilraunum sínum til að draga úr spennu. Æðstu menn þessara stórvelda hafa hist í Vladivostok og viðræður um afvopnunarmál þeirra á milli halda áfram. Í Genf er rætt um takmarkanir á framleiðslu og útbreiðslu langdrægra vopna og í Vínarborg fara fram samningaviðræður milli austurs og vesturs um jafnan og gagnkvæman samdrátt þeirra afla í Mið-Evrópu. Mál þessi eru afar flókin svo hægt miðar áfram, en ég álít að þessar viðræður séu mjög mikilvægur líður í þeirri viðleitni að koma á samkomulagi um raunverulega afvopnun í heiminum. Þótt árangur hafi náðst, er ennþá óvíst um margt.

Alvarlegt ástand hefur ríkt undanfarið 11/2 ár á sviði efnahagsmála í heiminum. Erfiðleikar þessir hafa fyrst og fremst orðið vegna orkukreppunnar sem skapaðist þegar olíuframleiðendur í Mið-Austurlöndum gripu til hins svonefnda olíuvopns og hækkuðu verð á olíu. Þessi ákvörðun þeirra bitnaði ekki einungis á iðnþróuðu löndunum, heldur urðu afleiðingar hennar mun alvarlegri fyrir þróunarlöndin. Allur hagvöxtur í þessum löndum og aðstoð til þeirra urðu nær að engu vegna verðhækkana, en ástandið þar er þannig, að þau þola ekki slíkar sveiflur.

Augljóst er því að efnahagsmálin og sérstaklega erfiðleikar þróunarlandanna verða meira og meira á dagskrá hjá flestum eða öllum alþjóðastofnunum. Sjöunda auka-allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sem saman kemur í byrjun september, mun t.d. fjalla eingöngu um þessi mál.

Skipan mála innan Sameinuðu þjóðanna hefur vakið nokkurn ugg manna á meðal. Eru það einkum hópskiptingarnar sem orðið hafa með þeim afleiðingum að stærri hópurinn knýr í gegn samþykktir sem oft á tíðum þykja fljótfærnislega unnar og jafnvel brjóta í bága við sáttmála Sameinuðu þjóðanna eða er í ósamræmi við anda hans, eins og t.d. þegar vafasamar túlkanir á fundarsköpum Allsherjarþingsins eru notaðar til að útiloka aðildarríkin frá fullri þátttöku í störfum þess.

Sérstökum áhyggjum veldur einnig ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og á Kýpur, og loks er nú lokið í Víetnam hernaðarátökum sem staðið hafa nær samfleytt í 35 ár. Verður síðar fjallað um einstök framangreind atriði auk fleiri þátta utanríkis- og alþjóðamála.

Annar áfangi ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu með þátttöku Bandaríkjanna og Kanada heldur áfram í Genf og undirbýr þriðja og lokaáfangann. Þótt hægt hafi gengið hafa umræður þær, sem fram hafa farið bæði á fundum og utan funda, þó m.a. haft það gott í för með sér að nú má segja með töluverðum rétti að flest mál liggi ljós fyrir. Gangur ráðstefnunnar héðan af mun því byggjast nær eingöngu á samkomulagsvilja og veltur endanlegur árangur á því hvort hann reynist mikill eða lítill. Þótt samkomulag hafi náðst á ráðstefnunni um ýmis atriði, þá eru því miður enn þá óbrúuð bil. Ég leyfi mér samt sem áður að álíta að það, sem þegar hefur áunnist, gefi góðar vonir um að hægt verði að ljúka þessum áfanga innan skamms svo að lokafundur ráðstefnunnar geti komið saman með þátttöku æðstu manna hlutaðeigandi ríkja sem allra fyrst. Stefnt er að því að halda lokafundinn í Helsingfors í júlímánuði í sumar, en þá verða liðin rétt tvö ár síðan hún formlega hófst.

Tilraunir utanrrh. Bandaríkjanna til að finna lausn á deilumálum landanna fyrir botni Miðjarðarhafs hafa nú farið út um þúfur, a.m.k. um sinn. Hann reyndi að fara skref fyrir skref leiðina, eins og það var kallað, vinna að lausn eins þáttar þessara flóknu deilumála í einu þannig að grundvöllur samkomulags væri fundinn áður en komið væri saman að nýju í Genf og heildarsamkomulag gert.

Við höfum stutt á alþjóðavettvangi allar tilraunir til að koma á samkomulagi á þessu svæði og styðjum að sjálfsögðu að Genfarráðstefnan verði kölluð saman sem fyrst með þátttöku allra hlutaðeigandi aðila.

Það er álit mitt að nauðsynlegt sé að framkvæma samþykkt Sameinuðu þjóðanna varðandi þessi mál og réttlátur og varanlegur friður í þessum heimshluta hlýtur að byggjast á að fullt tillit sé tekið til allra aðstæðna sem máli skipta, þ. á m. lögmætra réttinda palestínumanna og að tilveruréttur allra ríkja á svæðinu verði virtur.

Fyrir atbeina Sameinuðu þjóðanna sátu fulltrúar þjóðarbrotanna tveggja á Kýpur nýlega ráðstefnu í Vínarborg. Undirnefndir á vegum þessarar ráðstefnu starfa nú áfram að lausn vandamálanna.

Ísland mun styðja allar tilraunir Sameinuðu þjóðanna og aðalritara þeirra til að finna réttláta lausn sem báðir aðilar geta unað við. Slík lausn verður að byggjast á fullu tilliti til sjálfstæðis, fullveldis og óskertra yfirráða Kýpurlýðveldisins yfir landssvæði sínu.

Nú virðist lokið hernaðarátökum í Indó-Kína. Segja má að styrjöld og hörmungar hafi hrjáð þjóðirnar á þessu svæði í nærfellt 35 ár.

Það er von mín að takast megi að koma á varanlegum friði svo að endurbyggingarstarfið geti hafist sem allra fyrst. Ríkisstj. hefur ákveðið að veita 1 millj. 500 þús. kr. til mannúðar og líknarstarfsemi á vegum Alþjóða Rauða krossins í Indó-Kina.

Það er skoðun mín að þar sem Ísland hefur stjórnmálasamband við löglega ríkisstj. í Suður-Víetnam er ekki nauðsynlegt að viðurkenna formlega bráðabirgðabyltingarstjórnina.

Ef sú ríkisstj., sem tekur við stjórn af hernaðaryfirvöldum, óskar að skipta um sendiherra á Íslandi munum við að sjálfsögðu veita nýjum sendiherra viðurkenningu. Nýlega var leitað álits Íslands á því hvort nýja stjórnin í Suður-Víetnam ætti að fá aðild að Alþjóðaveðurmálastofnuninni og studdum við það að sjálfsögðu.

Senn verða liðin 30 ár frá því að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður í San Francisco, hinn 26. júní 1945, en samtökin tóku formlega til starfa þá um haustið eins og kunnugt er — og rúmu ári síðar gerðist Ísland aðili. Mörg hnjóðsyrði hafa fallið í garð samtakanna á þessu árabili, en þegar grannt er skoðað munu þó flestir vera sammála um að án slíkra samtaka væri heimurinn verr settur. Sameinuðu þjóðirnar hafa löngum átt erfitt uppdráttar við gæslu friðar og öryggis í heiminum, sem er meginhlutverk þeirra. Þó vil ég halda að með töluðum orðum á vettvangi samtakanna eða fyrir þeirra tilstilli hafi oftar en sannað verður óyggjandi tekist að hindra að vopnin væru látin tala. Þá má eigi heldur gera of lítið úr starfi samtakanna til að vinna bug á hungri og fátækt og auka frelsi og velmegun. En á öllum þessum sviðum er því miður enn þá gífurlega margt óunnið og gerir það miklar kröfur til þeirra þjóða allra sem að samtökunum standa.

29. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stóð yfir í New York frá 17. sept. til 18. des. s.l., eða um 3 mánaða skeið eins og venja er orðin. Ég sótti þingið í byrjun og flutti þar ræðu í almennum umræðum hinn 30. sept. Þar leitaðist ég við að gera grein fyrir afstöðu okkar til helstu alþjóðamála, en notaði jafnframt tækifærið til þess að fjalla allítarlega um hafréttarmálin og ryðja frekari braut sjónarmiðum okkar á því sviði. Þar sem ræðan var birt hérlendis þegar eftir að hún hafði verið flutt þykir mér ekki ástæða til að rekja hana nánar hér.

Þetta þing Sameinuðu þjóðanna var eitt hið gustmesta um langt skeið. Það bar glögg merki þeirrar breytingar á valdahlutfölum sem fylgt hefur fjölgun aðildarríkja úr 51, sem þau voru í byrjun, í 138, sem þau eru orðin nú, en 3 ný aðildarríki bættust í hópinn að þessu sinni, Bangladesh, Grenada, og Ginea Bissau. Kurt Waldheim framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lét svo ummælt í lok þingsins að Sameinuðu þjóðirnar væru fyrst og fremst stjórnmálaleg samtök sem endurspegla og taka mið af pólitískum straumum og breytingum í heiminum. Slíkt hefur aldrei gerst á eins áberandi hátt og á 29. Allsherjarþinginu. Ég hygg að framkvæmdastjórinn hafi þarna mikið til síns máls. Hin nýrri ríki samtakanna virtust sér nú meira meðvitandi en áður um það vald sem hin mikla fjölgun þeirra innan samtakanna hefur lagt þeim í hendur. Þessu valdi var nú beitt meira en margir töldu góðu hófi gegna. Var sú valdbeiting á vissan hátt bergmál og bar keim af undanfarandi baráttu Arabaríkja á sviði olíumálanna, enda hittist nú svo á að þingforsetinn var úr þeirra hópi.

Meðal hörðustu deilumála þingsins, þar sem þessarar nýju valdbeitingar gætti á mest áberandi hátt, voru tvímælalaust Palestínumálið og Suður-Afríkumálið. En nú eins og stundum áður var einnig deilt hart um Kóreu, Kambódíu og Kýpur. Palestínumálið olli bitrustum deilum. Jarðvegur fyrir hagstæða afgreiðslu þess frá sjónarmiði Arabaríkjanna var nú betri en nokkru sinni fyrr og því máske skiljanlegt að þau létu til skarar skríða. Pólitísk áhrif þessara landa höfðu aukist gífurlega á skömmum tíma vegna samvinnu olíuframleiðslulandanna um framleiðslutakmarkanir og verðhækkanir á olíu til þeirra ríkja sem þau töldu sér ekki vinsamleg, en þær aðgerðir sýndu að þeim var full alvara að nota olíuvopnið til hins ítrasta. Þá voru Arabalöndin orðin stórveldi á fjármálasviðinu vegna olíugróðans og voru orðin aflögufær um lánsfjármagn í stórum stíl. Aðstaða Arabalandanna styrktist einnig pólitískt eftir að þeim tókst á fundi sínum í Rabat í okt. 1974 að ná samkomulagi um frelsishreyfingu Palestínuaraba (PLO) sem hinn eina lögmæta fulltrúa Palestínu-þjóðarinnar.

Fyrir forgöngu Arabaríkjanna var samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. á þinginu að bjóða frelsishreyfingu Palestínu-araba sem fulltrúa Palestínuþjóðarinnar, að taka þátt í afgreiðslu Palestínumálsins á sjálfu þinginu. Einungis 4 ríki greiddu atkv. gegn þessari ákvörðun, en Ísland og Danmörk voru í hópi 20 ríkja sem sátu hjá. Finnland, Noregur og Svíþjóð greiddu atkv. með. Sú afstaða byggðist einkum á því að það hefur verið viðtekin regla hjá Sameinuðu þjóðunum að aðeins fulltrúar aðildarríkja hafi heimild til að ávarpa Allsherjarþingið eða taka þátt í umræðum þar og því varhugavert fordæmi að brjóta þá reglu. Yasser Arafat, leiðtogi PLO, ávarpaði síðan þingið 14. nóv. og talaði hálfan annan klukkutíma. Hefur ræða hans verið túlkuð á ýmsa vegu, en varla þykir fara hjá því að út úr henni megi lesa það að markmið PLO sé að stofna Palestínuríki á landsvæði sem nú er Ísrael. Fulltrúi Ísraels talaði síðar sama dag og var mjög harðorður í garð PLO og Arafats. Samkv. úrskurði þingforseta, sem hlaut staðfestingu þingsins með 75 atkv., var Ísrael síðan útilokað frá frekari umr. um málið. Öll Norðurlönd voru í hópi 25 ríkja sem greiddu atkv. gegn úrskurðinum, en 18 ríki sátu hjá.

Í lok mjög einhliða umr. um Palestínumálið voru samþ. tvær till.: Önnur almennt um réttindi Palestínu-araba í Palestínu, þ. á m. rétt til sjálfsákvörðunar, sjálfstæðis og fullveldis, auk þess sem í till. var lýst yfir viðurkenningu á rétti þeirra til að hverfa aftur til fyrri heimkynna og eigna og neyta til þess allra tiltækra ráða í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvorki var beint né óbeint í till. vikið að tilverurétti Ísraels. Þótti mörgum þannig vera enn aukin óvissan í hinum viðkvæmu deilumálum fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki síst þegar tekið var tillit til vaxandi harðýðgi í málinu. Áður hefur verið kappkostað að gæta jafnvægis í ályktunum Sameinuðu þjóðanna um þetta vandleysta deilumál, en allar tilraunir nú til þess að fá till. breytt í jafnvægisátt voru árangurslausar. Fór því svo að 37 ríki, þ. á m. Danmörk, Finnland og Svíþjóð, töldu sig knúin til að sitja hjá og 8 ríki, þ. á m. Ísland og Noregur, til að greiða atkv. gegn henni, en till. hlaut samþykki 89 ríkja.

Ég hafði þegar í ræðu minni við almennu umr. lagt áherslu á það að lausn deilunnar í Mið-Austurlöndum yrði að fela í sér tillit til réttinda Palestínu-araba. Að lokinni atkvgr. um framangreinda till. var þessi afstaða áréttuð enn frekar af fastafulltrúa Íslands. Hann lýsti því yfir á þinginu í grg. fyrir mótatkv. Íslands gegn till. að þá afstöðu bæri á engan hátt að túlka sem synjun á lögmætum réttindum Palestínu-þjóðarinnar, heldur væri hún grundvölluð á þeirri sannfæringu að sérhver till., sem Sameinuðu þjóðirnar létu frá sér fara um málefni Palestínu, ætti ekki eingöngu að fjalla um réttindi og hagsmuni Palestínu-araba, heldur um réttindi og hagsmuni allra íbúa á svæðinu. Lausn vandamálanna í Austurlöndum nær yrði að grundvallast á ályktunum Öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 og staðfesta yrði réttindi allra ríkja á svæðinu, þ. á m. ísraelsmanna, til að lífa í friði öruggra og viðurkenndra landamæra.

Hin till. var um að veita frelsishreyfingu Palestínu-araba (PLO) áheyrnarfulltrúastöðu hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland, Noregur og Danmörk voru meðal 17 ríkja, sem greiddu atkv. gegn þeirri till., og Svíþjóð eitt af þeim 19, sem sátu hjá, en Finnland á hópi 95 ríkja sem studdu þessa ákvörðun. Til þessa hefur aðeins ríkjum og samtökum fullvalda ríkja verið veitt áheyrnarfulltrúastaða hjá Sameinuðu þjóðunum. Þeir sem ekki greiddu till. atkv. töldu að hér væri farið inn á nýja og hættulega braut. Var talið að ákvörðun sem þessi gæti dregið dilk á eftir sér með tilliti til annarra frelsishreyfinga sem tilkall gera til viðurkenningar.

Afgreiðsla Palestínumálsins varð þannig Arabaríkjunum og frelsishreyfingu Palestínu-araba mjög í vil. Reynslan ein mun skera úr um hvaða áhrif þetta kann að hafa. Að því er frelsishreyfingu Palestínu-araba snertir ber að vona að hún reynist verðug þeirrar auknu viðurkenningar sem henni hefur hlotnast og að hún komi fram af fullri ábyrgð við áframhaldandi tilraunir til lausnar deilumálanna í þessum hrjáða heimshluta.

Hitt málið, sem umdeildast var hvað beitingu forseta- og meirihlutavalds snertir var ákvörðunin um að meina Suður-Afríku að taka þátt í störfum 29. Allsherjarþingsins. Löng og bitur umr. átti sér stað um það mál. Öll Norðurlöndin voru meðal 22 ríkja sem greiddu atkv. gegn þessari ráðstöfun, 19 sátu hjá, en úrskurður þingforseta um þetta var staðfestur með 91 atkv. Slík réttindasvipting er ekki samkv. stofnskrá Sameinuðu þjóðanna á valdi Allsherjarþingsins, heldur þarf til að koma atbeini Öryggisráðsins. Í stjórnmálalegu tiIliti er ráðstöfun af þessu tagi einnig mjög umdeilanleg svo að ekki sé meira sagt, og samræmist ekki þeim skoðunum sem Norðurlönd hafa aðhyllst um sem viðtækasta aðild að samtökum Sameinuðu þjóðanna. Að sjálfsögðu á framangreind afstaða til brottvísunar fulltrúa Suður-Afríku af Allsherjarþinginu ekkert skylt við stuðning við kynþáttastefnu þarlendra stjórnvalda, enda gefst við meðferð málsins tækifæri til þess að árétta eindregna andstöðu Norðurlandanna allra við þá stefnu sem Suður-Afríkustjórn hefur fylgt í þeim málum langa hríð. En hér er raunar ástæða til að geta þess, að nú þykir örla í eilítið meiri samkomulagsvilja Suður-Afríkustjórnar í þeim málum — og ber vissulega að vona að það leiði til umtalsverðra úrbóta sem allra fyrst.

Ég skal nú víkja í fáum orðum að Kóreu, Kambódíu og Kýpur.

Í Kóreumálinu var samþ. ályktun sem ísland studdi, þar sem ríkin tvö í landinu voru hvött til að halda áfram viðræðum í því skyni að þau verði sameinuð með friðsamlegum hætti. Einnig var í ályktuninni gert ráð fyrir að Öryggisráðið fjallaði um það hvort rétt væri að leysa upp herstjórn Sameinuðu þjóðanna í Kóreu. Um þetta síðarnefnda atriði vildu norður-kóreumenn að gengið yrði feti framar, þ.e.a.s. að þingið slægi því föstu að draga bæri til baka allt erlent herlið frá Suður-Kóreu sem þar er undir fána Sameinuðu þjóðanna. Háðu norður-kóreumenn og stuðningsríki þeirra harða baráttu fyrir því máli. Með hliðsjón af því mikilvæga hlutverki, sem lið Sameinuðu þjóðanna hefur gegnt við friðargæslu í landinu, er vandséð hvernig brottflutningur þess gæti bætt ástandið. Einn mikilvægasti þáttur Kóreudeilunnar nú er að sjálfsögðu sá að reyna að koma í veg fyrir að þar brjótist fram vopnuð átök á ný. Mikil nauðsyn er jafnframt á að samningaviðræðum ríkjanna verði haldið áfram, en því miður eru horfur á því efni ekki góðar eins og sakir standa.

Í Kambódíumálinu var deilt um tvennt, hvort lýsa ætti yfir viðurkenningu á útlagastjórn Nordom Síbanouks sem löglegri stjórn Kambódíu og veita þeirri ríkisstjórn fyrirsvar landsins hjá Sameinuðu þjóðunum og reka um leið fulltrúa stjórnar Lon Nol — eða samþykkja ályktun þar sem deiluaðilar í landinu væru hvattir til að hefja víðræður í þeim tilgangi að reyna að finna friðsamlega lausn á Kambódíuvandamálinu þar sem fullt tillit væri tekið til vilja þjóðarinnar. Í till. um síðari leiðina var jafnframt gert ráð fyrir að fela framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að veita aðstoð sína til þess að markmiði hennar yrði náð. Þessi síðari kostur hlaut stuðning 66 ríkja, en 54 voru á móti, 24 ríki sátu hjá, þ. á m. Ísland og önnur Norðurlönd nema Danmörk sem greiddi atkv. með. Fulltrúar stjórnar Lon Nol héldu þannig sætum sínum á þinginu, en öllum er kunnugt nú hvað er að gerast heima fyrir ilandi þeirra þessa dagana.

Í slæmu ástandi á Kýpur, sem hófst með stjórnarbyltingunni þar í júlí 1974, kom einnig til kasta Allsherjarþingsins. Samkomulag um vopnahlé hafði verið undirritað 30. júlí, en það dugði illa og var margsinnis brotið. Þingið samþ. ályktun þar sem öll ríki voru hvött til að virða fullveldi og sjálfstæði Kýpur og forðast íhlutun og árásir á landið. Hvatt var til þess að allt erlent herlið hyrfi hið bráðasta brott frá eynni og að samningaviðræður færu fram með aðstoð Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var beðinn að halda áfram aðstoð við íbúa landsins og skorað var á öll ríki að leggja af mörkum til þeirrar aðstoðar. Þótt varanleg lausn á Kýpurvandamálunum eigi enn langt í land hefur öldurnar lægt og tækifæri skapast til viðræðna milli þjóðarbrotanna, ekki aðeins um mannúðarmál, heldur einnig um stjórnmálaleg samskipti. Þessum viðræðum er stöðugt haldið áfram með aðstoð sérstaks fulltrúa framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á Kýpur og er hér glöggt dæmi um mikilvægt hlutverk samtakanna á sviði friðargæslu.

Eftir 6. sérstaka Allsherjarþingið, Mannfjöldaráðstefnuna og Matvælaráðstefnuna, var eðlilegt að Allsherjarþingið nú fjallaði í ríkum mæli um hin mjög alvarlegu vandamál, sem skapast hafa, og þann glundroða sem ríkir á sviði efnahagsog félagsmála í heiminum. Samkomulag varð um nokkrar merkar ákvarðanir varðandi þessi vandamál, svo sem stofnun Alþjóðamatvælaráðsins, en um önnur vandamál, einkum efnahagslegs eðlis, urðu hatrammar deilur. Samþ. var að vísu einnig sáttmáli um efnahagsleg réttindi og skyldur ríkja, en því miður skorti töluvert á að nægur samkomulagsandi ríkti við frágang á efni hans og orðalagi. Upphaf þessa sáttmála má rekja til 3. viðskipta- og þróunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í maí 1972. Þar var ákveðið að setja á fót vinnuhóp 31 ríkis, sem síðar var fjölgað í 40 ríki, til að gera uppkast að sáttmála um efnahagsleg réttindi og skyldur þjóða. Um tíma á árinu 1974 þóttu líkur benda til samkomulags, en síðar dró í sundur með iðnvæddum ríkjum og hinum vanþróuðu. Einkum ollu ágreiningi ákvæði um þjóðnýtingu erlendra eigna og skaðabótagreiðslur í því sambandi svo og ákvæði um vísitölukerfi er tengdi verðlagningu hráefnis og útflutnings vanþróuðu ríkjanna. Lítið þokaðist því í átt til samkomulags á sjálfu Allsherjarþinginu og töldu því margir hyggilegt að ætla rýmri tíma til þess að ljúka gerð sáttmálans, þar sem raunhæft gildi hans væri að verulegu leyti komið undir því að flest eða öll ríkustu og áhrifamestu aðildarríkin gengju til fylgis við hann. Hinn nýi meiri hl. innan samtakanna kaus hins vegar að leiða málið til lykta nú og var sáttmálinn því samþ. á þinginu og hlaut að vísu yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Ísland, Finnland og Svíþjóð voru meðal þeirra ríkja sem greiddu atkv. með honum.

Auk þeirra mála, sem ég hef nú getið, fjallaði Allsherjarþingið um marga hefðbundna dagskrárliði, t.d. á sviði afvopnunar, félagsmála, kynþáttamála og nýlendumála. Léttara var yfir umræðum um nýlendumálin nú en oft áður vegna stefnubreytingar portúgala og ákvörðun nýrra ráðamanna í því landi um að veita nýlendum landsins í Afríku frelsi. Ætla má að þrotlaust starf að þessum málum innan vébanda Sameinuðu þjóðanna eigi sinn þátt í þessari þróun. Fækkar nú þeim löndum sem ekki hafa hlotið sjálfstæði.

Sú beiting meirihlutavalds á þinginu, sem ég hef vikið að, skapaði óneitanlega spennu er mjög gætti í störfum þess lengst af. En undir lokin gerðist það svo að þessi breyttu viðhorf innan samtakanna urðu sérstakt umræðuefni. Tókust um málið allsnarpar deilur. Hygg ég að þær hafi orðið til þess að hreinsa nokkuð andrúmsloftið. Er því ekki útilokað að aftur muni komast á meira jafnvægi í störfum samtakanna, enda er heillavænlegur árangur af þeim mjög kominn undir því að samkomulagsvilji sé ráðandi.

Ég skal ekki gera störf síðasta Allsherjarþings að frekara umræðuefni, enda hef ég nú þegar varið til þeirra ríflegri tíma en áður. Fulltrúar þingflokkanna sátu þingið eins og undanfarin ár. Síðustu vikur Allsherjarþinganna eru þar miklar annir þegar nefndir eru að ljúka afgreiðslu mála og þau eru tekin til lokaafgreiðslu á fullskipuðum fundum Allsherjarþingsins sjálfs. Mér er kunnugt um að í hópi fulltrúa þingflokkanna hafa heyrst raddir um að æskilegt væri að þeir væru ekki eins bundnir við setu á nefndarfundum og þingfundum og nú er raunin, heldur hefðu frjálsari aðstöðu til að kynna sér þingmál og alþjóðamálefni. Hefur í þessu sambandi verið bent á að t.d. þm. í sendinefndum hinna Norðurlandanna hafi rýmri aðstöðu að þessu leyti. Ég tel að þetta sjónarmið eigi við nokkur rök að styðjast. En meðan utanríkisþjónustunni er ekki sköpuð aðstaða til að hafa við þingstörfin fleiri fulltrúa en verið hefur er óhjákvæmilegt að slíkar fundarsetukvaðir fylgi þátttöku þingflokkanna í störfum Allsherjarþingsins, þar sem hinar 7 föstu þingnefndir sitja tíðum að störfum samtímis auk alls kyns funda ríkja og annarra sem sinna þarf. Ég er hins vegar fús til að íhuga fyrirkomulag þessara mála nánar með fulltrúum þingflokkanna ef þess væri óskað.

Burtséð frá Allsherjarþinginu vildi ég í sambandi við Sameinuðu þjóðirnar geta hér um samstarf Íslands við Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, áframhaldandi setu Íslands í Auðlindanefnd samtakanna og víkja að Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Samkv. yfirstandandi áætlun um samstarf Íslands og Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem nær yfir árin 1972–1976, fær Ísland að jafnaði 200 þús. dala framlag á ári frá Þróunarstofnuninni, eða sem svarar um 30 millj. kr. á ári á núv. gengi, þ.e. nálægt 150 millj. kr. á tímabilinu öllu. Innan ramma þessarar áætlunar hefur verið unnið að yfir 20 verkefnum á margvíslegum sviðum þjóðlífsins, þ. á m. málmleit, ferðamálum, útflutningsstarfsemi iðnaðarins, lax- og silungsrannsóknum, fiskvinnslurannsóknum, nýtingu og vernd beitilanda, loftmynda- og kortagerð, ylrækt, endurskipulagningu og margs konar framförum á sviði iðnaðar og þannig mætti fleira telja. Hygg ég nú að u.þ.b. hálfnuðu tímabilinu sé farinn að koma í ljós ýmis árangur þessarar starfsemi. Það er gagnlegt fyrir Ísland að geta þannig notið sérfræðiaðstoðar og leiðbeininga frá og fyrir milligöngu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. En því er ekki að leyna að hinar háu meðaltekjur á mann hérlendis gera það að nokkru samviskuspursmáli að þiggja frá stofnuninni meira fé en við sjálfir leggjum til hennar. Á fjárlögum þessa árs nemur okkar skerfur til Þróunarstofnunarinnar 9.6 millj. kr. Ég tel að við þurfum að stefna að því að árlegt framlag okkar hækki svo að það sem fyrst svari til þess sem við hljótum frá stofnuninni, enda er henni fyrst og fremst ætlað að ráðstafa fé sínu til hinna svonefndu þróunarríkja.

Ísland var endurkjörið í Auðlindanefnd Sameinuðu þjóðanna frá 1. jan. 1975 til næstu 4 ára. Nefndin gegnir því hlutverki að gera till. til Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna um stefnumörkun varðandi nýtingu og varðveislu náttúruauðlinda. Nefndin heldur fundi annað hvert ár og hún kom nýverið saman í Tókíó. Þar var samþ. till. frá Íslandi, Indlandi, Ítalíu, Japan og Kenýa þar sem m.a. var bent á mikilvægi jarðhitans sem orkugjafa og lagt til að hinn nýstofnaði Háskóli Sameinuðu þjóðanna annist rannsóknir og gengist fyrir hagnýtri fræðslu á þessu sviði.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur nú verið settur á fót, rektor verið kjörinn og skólanum valinn staður í Tókíó. En jafnframt var gert ráð fyrir að hann gæti staðið að starfsemi viðar um heim. Er nú unnið að frekari undirbúningi að starfsemi skólans. Ef skólinn lætur jarðorkumál til sín taka kemur fyllilega til álita að starfsemi skólans á því sviði verði valinn staður hér á landi. Sömuleiðis hefur verið ræddur sá möguleiki að hérlendis fari fram vísinda- og raunsóknastarfsemi í haf- og fiskifræðum á vegum skólans. Þessi mál þurfa nú nánari athugunar við af Íslands hálfu, en að sjálfsögðu veltur einnig mikið á því hvernig fer um fjármögnun til starfsemi skólans. Nýlega svaraði menntmrh. fsp. hér á Alþ. um þetta mál og vísa ég til þess að öðru leyti.

Kaflann um hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna ætla ég ekki að lesa. Þessi kafli er ritaður fyrir 10 dögum og er að mestu leyti sögulegs eðlis og þm. þekkja hann. Ég mun sleppa að lesa hann, en vísa til skýrslunnar. Um hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna vil ég því aðeins segja þetta: Fundum hafréttarráðstefnunnar í Genf lauk hinn 9. maí. Ákveðið var að næsti fundur verði haldinn í New York frá 29. mars til 21. maí 1976 og að á þeim fundi verði ákveðið hvort nauðsynlegt verði að halda fleiri fundi áður en til undirritunar kemur. Á fundinum í Genf var gengið frá uppkasti nefndarformanna að heildartexta alþjóðasamnings um hafréttarmál sem lagður verður til grundvallar við framhald málsins. Textinn er í þrem köflum, þ.e. 1. kafli í 75 gr. um alþjóða hafsbotnssvæðið, 2. kafli í 137 gr. um lögsögu ríkja, þ. á m. um allt að 12 mílna landhelgi, sund, landgrunn, efnahagslögsögu allt að 200 mílum og fiskveiðar á úthafinu, og 3. kaflinn í 81 gr. um mengun og vísindalegar rannsóknir. Ég mun gera ráðstafanir til þess á utanrmn.- fundi, sem haldinn verður á morgun, — og gerði raunar ráðstafanir til þess í dag á landhelgisnefndarfundi sem haldinn var áðan, — að útbýta miðkaflanum úr þessum ályktunum, þeim kafla sem mest varðar okkar mál.

Í gr. um efnahagslögsöguna eru m.a. þau ákvæði að strandríkið sjálft skuli ákveða leyfilegan hámarksafla innan efnahagslögsögunnar svo og möguleika sína til að hagnýta aflamagnið. Enda þótt hér sé um að ræða frv. að heildarsamningi er ljóst að mikilvægum áfanga hefur verið náð.

Ég hleyp þá yfir kaflann um hafréttarráðstefnuna, eins og áðan sagði, og hef lesturinn að nýju á bls. 20 um fiskveiðilögsöguna.

Ríkisstj. hefur sem kunnugt er á stefnuskrá sinni útfærslu fiskveiðitakmarkanna í 200 mílur fyrir árslok 1975. Hafa margvísleg tækifæri verið notuð til kynningar á þessari ákvörðun meðal annarra þjóða og til þess að ávinna henni skilning og stuðning. Nánari ákvörðun um útfærsludag mun verða tekin síðar. Í febr. s.l. áttu sér stað í Reykjavík viðræður við fulltrúa landsstjórnar Færeyja um fiskveiðiréttindi færeyinga við Ísland. Staðfesting á niðurstöðum viðræðnanna var til meðferðar hér á Alþ. fyrir fáum dögum og skal ég því ekki fjölyrða um málið hér, heldur einungis láta þess getið að nú var í fyrsta sinn sett hámark á aflamark færeyinga hér við land, 20 þús. smálestir, en það er svipað og afli þeirra hefur verið allra síðustu árin. Færeyingar hafa um langt skeið notið sérstöðu til fiskveiða við Ísland, enda hygg ég að allir stjórnmálaflokkar og reyndar þjóðin öll eða því sem næst a.m.k. hafi verið þeirri ráðstöfun sammála af ástæðum sem óþarfi er að rekja hér. Slíkrar sérstöðu njóta færeyingar enn um sinn samkv. hinu nýja samkomulagi sem gerir ráð fyrir áframhaldandi handfæra-, línu- og togveiðum þeirra innan hinna almennu fiskveiðimarka hér við land — með nokkrum takmörkunum vegna friðunarráðstafana og af tilliti til íslenskra sjómanna, auk aflahámarksins er ég nefndi. Því er ekki að leyna að færeyingar kusu að hafa hér enn þá rýmri réttindi, einkum að vera án aflahámarks, en þó hygg ég að þeir eftir atvikum uni vel hinu nýja samkomulagi.

Ákveðið var að hið nýja samkomulag við færeyinga skyldi gilda til 13. nóv. n.k. Það er stefna ríkisstj. að hafa alla samninga um réttindi erlendra fiskiskipa til veiða innan fiskveiðimarkanna lausa á þeim degi, þ.e. um leið og fiskveiðisamkomulagið við breta rennur út. Í samræmi við þetta hefur nú einnig norska sendiherranum í Reykjavík verið tilkynnt uppsögn samkomulagsins milli Íslands og Noregs frá 10. júlí 1973, sem heimilaði norskum skipum takmarkaðar fiskveiðar innan 50 mílna markanna. Í samkomulaginu var ákvæði um að hvor aðili um sig gæti fellt það úr gildi með 6 mánaða fyrirvara. Miðast uppsögnin af Íslands hálfu við áðurnefndan dag, 13. nóv. n.k.

Árið 1974 voru 25 ár liðin frá undirritun Atlantshafssáttmálans og stofnun Atlantshafsbandalagsins. Í því tilefni var vorfundur utanrrh. bandalagsins haldinn í Ottawa í júnímánuði s.l. Á fundi þessum var gengið frá og samþ. yfirlýsing um samband Atlantshafsríkjanna. Yfirlýsingin var síðar undirrituð á fundi æðstu manna í Brussel í júlímánuði. Ég tel rétt að lesa hér upp síðustu gr. í þessari yfirlýsingu, en þar koma skýrt fram markmið bandalagsins og meðlimaríkja þess:

„Nú á þessu ári, þegar 25 ár eru liðin frá því að Norður-Atlantshafssamningurinn var undirritaður, lýsa aðildarríki bandalagsins enn á ný yfir stuðningi sínum við þau markmið og þær hugsjónir sem sá samningur byggist á. Aðildarríki bandalagsins líta til framtíðarinnar af öryggi og eru þess fullviss að þjóðir þær, sem lönd þeirra byggja, búa yfir þeirri lífsorku og sköpunarmætti sem gera mun þeim kleift að ráða fram úr þeim vandamálum er þær standa frammi fyrir. Þau lýsa yfir þeirri staðföstu ályktun sinni að Norður-Atlantsbandalagið muni hér eftir sem hingað til gegna sínu ómissandi hlutverki við að skapa þann varanlega frið sem þau eru ákveðin í að koma á og viðhalda um ókomin ár.“

Alþ. hefur þegar verið gerð grein fyrir samkomulagi ríkisstj. við stjórn Bandaríkjanna um varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og hafa farið fram umr. um það hér á hv. Alþ. svo að ég mun því ekki dvelja við það atriði. En þess má geta að viðræður embættismanna um framkvæmd samkomulagsins ganga eins og ráð var fyrir gert.

Norræn samvinna skipar nú sem áður háan sess í samskiptum okkar við önnur lönd. Þetta kemur m.a. fram í tíðum norrænum viðræðum um hin margvíslegustu málefni og sífellt fleiri samningagerðum á ýmsum hagnýtum sviðum. Af meiri háttar norrænum skoðanaskiptum er skemmst að minnast þings Norðurlandaráðs hér í Reykjavík, auk hinna reglubundnu ráðherrafunda. Og á samningasviði er nú síðast að geta Norðurlandasamnings um bætur vegna veikinda, meðgöngu og barnsburðar sem undirritaður var í Kaupmannahöfn nýlega.

Norðurlönd hafa komið ár sinni vel fyrir borð með nokkuð mismunandi hætti í milliríkjasamskiptum, en þau eru einhuga að því er viðvíkur eflingu norræns samstarfs. Mismunandi fyrirkomulag á samskiptum þeirra við önnur ríki er að sjálfsögðu fyrst og fremst sprottið af viðleitni Norðurlanda hvers um sig til að gæta sem best eigin hagsmuna, en um leið hefur þessi fjölbreytni á vissan hátt orðið þeim sem heild styrkur. Og með hinu nána samstarfi sín í milli um alþjóðamál hefur þeim oft tekist að hafa áhrif til farsællar þróunar langt umfram það sem ætla mætti um ekki fjölmennari ríki. Þess er að vænta að norrænt samstarf haldi áfram að eflast og dafna.

Starfsemi Evrópuráðsins og þátttaka Íslands í henni var með svipuðum hætti á árinu 1974 og áður var.

Þær urðu helstar breytingar á starfsemi og rekstri Evrópuráðsins að nýr aðalframkvæmdastjóri tók þar við störfum. Er það Þjóðverjinn Georg Kahn-Ackermann úr hópi sósíaldemókrata. Átti hann um árabil sæti á þjóðþingi Sambandslýðveldisins Þýskalands sem þingmaður úr flokki sósíaldemókrata og var jafnframt lengi einn af fulltrúum Vestur-Þýskalands á Evrópuþinginu.

Hann hlaut kosningu til þessa embættis á maífundi Evrópuráðsins og tók við störfum í september.

Hinn nýi aðalframkvæmdastjóri hefur að undanförnu heimsótt ýmis aðildarríki Evrópuráðsins. Eins og venja mun vera, þegar nýr maður tekur við því embætti, mun hann hafa í hyggju að ljúka við þær heimsóknir á þessu ári. Hefur hann m.a. boðað komu sína hingað til Íslands einhvern tíma á þessu ári, er enn ekki ákveðið nánar hvenær það kann að verða.

Á stjórnmálasviðinu má það til tíðinda teljast, að því er Evrópuráðið varðar, að eftir að stjórnarskiptin urðu í Grikklandi, þegar herforingjastjórninni var velt af stóli og ný og lýðræðislegri stjórn tók við völdum, þóttu stjórnarhættir þar í landi hafa breyst í nægilega lýðræðislegt horf aftur, þannig að unnt væri að veita Grikklandi á nýjan leik fulla aðild að Evrópuráðinu. Gerðist það á fundi ráðherranefndarinnar í París á s.l. hausti, en áður hafði Evrópuráðsþingið gert samþykkt um að veita Grikklandi aðild að ráðinu á nýjan leik.

Evrópuráðið lét Kýpurdeiluna mjög til sín taka, einkum eftir að átök hörðnuðu þar á árinu. M.a. beitti Evrópuráðið sér fyrir fjársöfnun til aðstoðar flóttafólki á Kýpur og lagði Ísland nokkra fjárhæð, 800 þús. kr., í söfnun þessa.

Í Mannréttindadómstól Evrópu á nú sæti af Íslands hálfu prófessor Þór Vilhjálmsson, en fulltrúi Íslands í Mannréttindanefndinni er dr. Gaukur Jörundsson prófessor.

Fulltrúar Íslands, aðallega frá ýmsum rn. stjórnarráðs og sérstofnunum ríkisins, sóttu fundi á árinu í ýmsum hinna fjölmörgu nefnda sem á vegum Evrópuráðsins starfa að athugunum og skoðanaskiptum á fjölmörgum sviðum stjórnsýslunnar. Fulltrúar þeir, sem slíka fundi sóttu, voru m.a. frá dóms- og kirkjumrn., heilbr.- og trmrn., félmrn., menntmrn., viðskrn., samgrn. og fleiri stofnunum. Er ekki fjarri lagi að fjöldi þeirra nefndarfunda, sem íslenskir embættismenn hafa tekið þátt í, séu a.m.k. 40–50 að tölu og fóru þeir fram ýmist í Strasbourg eða einhverju aðildarríkjanna. Skal það tekið fram að Evrópuráðið greiðir öll fargjöld og dvalarkostnað þeirra fulltrúa sem af Íslands hálfu hafa sótt fundi þessa.

Fríverslunarsamningur Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu tók gildi 1. apríl 1973. Verndartollar á iðnaðarvörum frá aðildarríkjum bandalagsins hafa síðan verið lækkaðir þrívegis, fyrst um 30% við gildistöku samningsins, síðan um 10% 1. jan. 1974 og loks um 10% í ársbyrjun 1975. Umsamin tollalækkunaráætlun gagnvart Efnahagsbandalaginu er hin sama og í samningnum við EFTA, en samkv. henni er gert ráð fyrir að verndartollar á iðnaðarvörum lækki hérlendis gagnvart aðildarríkjum þessara samtaka á tímabilinu fram til 1. jan. 1980 og verði þá að fullu afnumdir. Við framkvæmd tollalækkananna hefur þess jafnframt verið gætt að tollamismunurinn milli EBE og EFTA-landa annars vegar og landa utan þessara samtaka hins vegar aukist ekki frá því sem hann var við upphaf tollalækkananna.

Að því er snertir tollfríðindi fyrir íslenskar iðnaðarvörur sem fluttar eru út til Efnahagsbandalagsins, þá hafa tollar á þeim lækkað þrívegis, samtals um 60%, í samræmi við ákvæði fríverslunarsamningsins. Hins vegar hafa umsamin tollfríðindi fyrir íslenskar sjávarafurðir enn ekki komið til framkvæmda vegna þess ákvæðis í samningnum að gildistaka þeirra sé bundin því skilyrði að viðunandi lausn náist fyrir aðildarríki Efnahagsbandalagsins á sviði fiskveiðiréttinda. Þar sem þjóðverjar hafa ekki enn náð samkomulagi, þá hafa þeir lagst gegn því að ákvæði samningsins um tollfríðindi fyrir sjávarafurðir taki gildi. Þar af leiðandi hefur samningurinn ekki enn haft verulega þýðingu fyrir útflutninginn í heild. Tollar á sjávarafurðum í gömlu efnahagsbandalagslöndunum hafa því ekki enn þá lækkað eins og samningurinn kveður á um og af sömu sökum hafa tollar verið lagðir að nýju á sjávarafurðir, eins og t.d. frysta rækju, freðfiskflök og lagmeti, í Bretlandi og Danmörku frá 1. jan. 1974, sem fara hækkandi í áföngum fram til 1. júlí 1977, þegar þeir verða hinir sömu og ytri tollar Efnahagsbandalagsins. Vörur þessar urðu tollfrjálsar í Bretlandi og Danmörku við aðild okkar að EFTA 1. mars 1970. Við þetta bætist svo að vestur-þjóðverjar settu óformlegt löndunarbann á ísfisk í okt. 1974. Þeirri aðgerð var mótmælt af Íslands hálfu í GATT svo og í OECD og enn fremur við Efnahagsbandalagið.

Á reglulegum fundi með Efnahagsbandalaginu, þar sem fjallað er um framkvæmd fríverslunarsamningsins, hefur af Íslands hálfu verið lýst óánægju með að jafnvægi það, sem samningurinn gerir ráð fyrir milli kvaða og hagsbóta samningsaðilanna, sé alls ekki fyrir hendi meðan fríðindi fyrir sjávarafurðirnar koma ekki til framkvæmda.

Ráðherraráð EFTA hefur látið málið til sín taka er það samþykkti á fundi sínum í nóv. 1974 að lýsa áhyggjum sínum yfir því að fríverslunarsamningur Íslands við Efnahagsbandalagið væri ekki að fullu kominn til framkvæmda. EFTA-ríkin áréttuðu þessa afstöðu með reglulegum viðræðum sínum við bandalagið í des. s.l.

Framkvæmd áætlunar um lækkun verndartolla á vörum frá EFTA-löndum er nú hálfnuð, en tollfrelsi fyrir íslenskar vörur í EFTA-löndum fékkst þegar við aðild að samtökunum 1. mars 1970. Meginverkefni samtakanna er samræming á framkvæmd fríverslunarsamninga aðildarríkjanna við Efnahagsbandalagið. Þá fer og fram athugun á því hvort heppilegt sé og á hvern hátt auka megi samráð aðildarríkjanna um efnahags- og viðskiptamál á alþjóðavettvangi.

Sökum þess hversu þýðingarmikil utanríkisviðskiptin eru fyrir efnahag okkar, þá hlýtur það að vera okkur hagsmunamál að alþjóðleg viðskipti séu sem frjálslegust. Þess vegna er rík ástæða að taka þátt í alþjóðasamstarfi á vegum GATT sem hefur afnám hindrana á viðskiptum þjóða í milli að markmiði. Á ráðherrafundi GATT í Tókíó í sept. 1973 var ákveðið að hefja nýjar viðræður um frekara afnám hindrana á viðskiptum. Viðræður þessar virðast nú vera að komast á nokkurt skrið, enda hafa bæði Bandaríkin og Efnahagsbandalagið markað stefnu sína í þeim í höfuðdráttum. Upphaflega var gert ráð fyrir að þessum viðræðum yrði lokið á árinu 1975, en vafalítið eiga þær eftir að taka nokkru lengri tíma.

Ég hef sótt fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna vor og haust og einnig hina reglubundnu NATO-fundi í apríl og desember, eins og venja er til. Enn fremur sótti ég Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að vanda.

Ég tel þátttöku í þessum fundum mjög gagnlega, ekki einungis vegna mála þeirra sem fjallað er um, heldur einnig vegna persónulegra kynna við starfsbræður mína sem þar þróast og nauðsynleg eru á þessum tímum snöggra breytinga og aukinna samskipta.

Í febrúar þáði ég og kona mín boð um opinbera heimsókn til Sovétríkjanna. Sú ferð átti sér að vísu ekki stað fyrr en í apríl, en við dvöldumst þar ásamt ráðuneytisstjóra utanrrn. í 9 daga. Móttökur allar voru með ágætum og tel ég að ferðin hafi verið til gagns fyrir samskipti Íslands og Sovétríkjanna. Ég bauð André Gromyko utanrrh. Sovétríkjanna — fyrir hönd ríkisstj. Íslands — að koma í opinbera heimsókn til Íslands þegar tækifæri gæfist.

Ég hef eins og áður leitast við að hafa náið samband við utanrmn. Alþ. Ég hef setið flesta fundi nefndarinnar og gert henni grein fyrir gangi utanríkismála og skýrt afstöðu ríkisstj. til þeirra. Vil ég bera fram þakkir mínar til nefndarinnar fyrir samstarfið, svo og þakkir til þeirra þm. sem sæti áttu á þingi Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. — Ég hef þá lokið að lesa þessa skýrslu.