13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4013 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

346. mál, utanríkismál 1975

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt þinginu um utanríkismál. Hún var vel gerð og samviskusamlega, svo langt sem hún nær. Ég kemst þó ekki hjá því að hefja mál mitt á því að gera nokkrar aths. við málsmeðferð og formsatriði í sambandi við skýrslu þessa.

Það er mjög þakkarvert að hæstv. utanrrh. hefur fylgt því fordæmi, sem fyrirrennari hans í embætti, Emil Jónsson, gaf fyrir tæpum áratug, að utanrrh. gæfu skýrslu um mál sin til Alþ. Fyrir 15–20 árum hefði þetta verið óhugsandi, og er mikil framför að þetta skuli nú gerast og vera talinn sjálfsagður hlutur. Hitt er þó galli á göfugu þingi að nú, eins og nokkrum sinnum fyrr, kemur þessi skýrsla fram ákaflega seint á þingi og hún er rædd í þeirri viku þingstarfa sem síst skyldi, síðustu vikunni, þegar hér ríkir að vanda upplausn, — raunar ekki að vanda því að svo langt sem mitt minni nær hér á Alþ. hafa önnur eins upplausn og annað eins stjórnleysi á störfum Alþ. sem nú tíðkast aldrei komið fyrir.

Þetta hefur þá galla í för með sér að ómögulegt er að gera slíkri skýrslu og því sem hún fjallar um, utanríkismálum þjóðarinnar, þau skil sem þyrfti að gera. Um þessi mál er ég algjörlega sammála hv. síðasta ræðumanni, en hann kom að þessu einhvers staðar framarlega í heljarslóðarræðu sinni, ef einhverjir viðstaddir muna svo langt aftur í tímann.

Það nær ekki nema broti af tilgangi þess að gefa skýrslu um utanríkismál að gera það svo seint sem nú er orðið, ekki aðeins vegna þingsins sjálfs. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði í ræðu sinni, að þm. eru óhjákvæmilega mjög uppteknir þessa síðustu viku af ýmsum innlendum vandamálum sem verður að leysa fyrir næstu helgi. Hitt tel ég þó öllu mikilvægara, að umr. um mál eins og utanríkismál, og það ættu raunar að gilda um flest mál sem fyrir þingið eru lögð, eru ekki aðeins til þess að þm. geti deilt um þau og rætt hverjir við aðra, heldur eiga hér að fara fram umr. sem allir landsmenn, er einhvern áhuga hafa á, eiga að geta fylgst með til þess að kynnast viðhorfum þeirra, sem hér sitja, til þessara mála og geta fengið upplýsingar til þess að gera sér sjálfir grein fyrir því hvernig þessi mál standa. Við alþm. erum oft ákærðir fyrir það, að við séum eingöngu að hugsa um að auglýsa sjálfa okkur þegar við nefnum fjölmiðla. En það er ekkert hégómamál að einu verulegu umr. Alþ. um utanríkismál skuli vera troðið inn í síðustu þingvikuna þegar allt er fullt af öðrum pólitískum fréttum, þannig að þessum málum verða aldrei gerð sómasamleg skil í fréttum. Það er ekki vansalaust af þeim sem stjórna þingstörfum, — og nú bið ég minn ágæta vin, hæstv. forseta þingsins, velvirðingar, — að haga þannig málum að besta tíma dagsins skuli vera eytt í ótímabundnar fsp., margar hverjar nauðsynlegar og ágætar, en ekki tímabundnar, en þessi eina umr. þingsins um utanríkismál skuli vera sett á síðdegi eftir kl. 5. Vitum við þó að umr., sem fara fram síðdegis um það leyti, að ég tali nú ekki um kvöldin, geta aldrei fengið sómasamlega meðferð fjölmiðla eins og almennar umr. um utanríkismál hljóta að eiga heimtingu á, enda var það svo t.d. í hinum öflugu ríkisfjölmiðlum nú í fundarhléinu að þar var í fréttatímum eytt löngum tíma í að ræða um fsp. um tiltölulega staðbundin innanlandsmál, sem ég ber fulla virðingu fyrir og hafa þýðingu á sínum stað, en þar var nálega ekki eitt orð um utanríkismálin, um þriggja kortera skýrslu utanrrh. um stöðu þjóðarinnar í heiminum eða viðhorf hennar til umheimsins, hvað þá um hina gagnmerku hálfs annars tíma ræðu sem talsmaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins flutti, að ég ekki nefni það, að talsmenn þriggja af 5 þingflokkum fá að tala yfir áhugasömum og ágætum sálum sem vilja hlusta á þá í salnum fram eftir nóttu. En ef að líkum lætur fer þetta ekki lengra en inn á segulbandið og verður einhvern tíma eftir dúk og disk prentað, þannig að það getur e.t.v. talist til sögulegra skjala með tímanum, en hefur ekki þá þýðingu sem umræður á Alþ. um utanríkismál eiga að hafa varðandi þau mál á meðan þau eru að gerast og á meðan stefna um þau er í mótun.

Annað formsatriði, sem ég gagnrýni harðlega varðandi þessa skýrslu, er að hún nær yfir allt of langt tímabil, og þetta er auðvitað nátengt því hversu seint hún kemur fram. Í þessari skýrslu er talað um ráðstefnuna í Garacas sem var fyrir 8–10 mánuðum og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem var fyrir 6–8 mánuðum. Þetta eru ágæt og nauðsynleg viðfangsefni. en ég hygg að hæstv. utanrrh. hafi sjálfur í ræðu sinni í kvöld notað þau orð, að a.m.k. önnur þessi frásögn hefði nú nánast sögulegt gildi, enda lagði hann hana til hliðar, taldi ekki ástæðu til að eyða tíma í að lesa hana, en las síðustu fréttir um þau mál. Hefði raunar verið miklu eðlilegra að þessi skýrsla hefði verið rædd fyrir löngu og við hefðum nú fengið að eyða kvöldstund í að heyra síðustu fréttir frá Genfarráðstefnunni og gefa þinginu einhverja hugmynd um, hvað þar gerðist í raun og veru, áður en það fer heim á laugardag. Hjól sögunnar snúast svo hratt að það er ekki hægt að bjóða upp á það að ræða utanríkismál á grundvelli frásagna af viðburðum sem gerðust fyrir 6–10 mánuðum. Það hefur svo margt gerst í millitíðinni og ef menn ætla sér að hafa þær umr. á einhverju sviði, sem hefur þýðingu fyrir samtíðina eða næstu framtíð, þá verður að gera einhverja breytingu á þessu.

Ég skal nú víkja að efnisatriðum málsins. Tel ég skylt að byrja á að ítreka það, sem fram hefur komið áður af Alþfl. hálfu, að flokkurinn er í nokkrum grundvallaratriðum samþykkur utanríkismálastefnu núv. ríkisstj. Flokkurinn er samþykkur því að byggja utanríkismál Íslands að miklu leyti á þátttöku í Sameinuðu þjóðunum, í trú á vaxandi mátt þeirra samtaka, þó að sá vöxtur sé hægur, og þær hljóti að verða meginvettvangur okkar í samskiptum við umheiminn. Í öðru lagi erum við sammála núv. ríkisstj. um að íslendingar eigi að ástunda mjög náin samskipti við Norðurlöndin í utanríkismálum og líta á það sem eitt af grundvallaratriðum í utanríkismálum. Ég fagna því að hæstv. ráðh. kom að því í skýrslunni að samskipti okkar við Norðurlöndin á sviði utanríkismála eru allt annað en sú veislugleði sem almenningur hefur tilhneigingu til þess að tengja við norrænt samstarf. Á sviði utanríkismálanna er samstarf okkar við Norðurlöndin raunverulegt og hefur verulega þýðingu fyrir okkur. Við erum þar ekki ein af smæstu einingum veraldarinnar, heldur hluti af stærri heild sem með samstöðu sinni er, eins og hæstv. ráðh. segir í skýrslunni, miklu sterkari en hin einstöku lönd gætu verið. Við erum að lokum sammála því að Ísland verði að halda áfram þátttöku í Atlantshafsbandalaginn og halda uppi varnarsamstarfi þangað til samkomulag næst um annað varnarkerfi í Evrópu og á Norður-Atlantshafi sem við getum talið betra og traustara en það sem fyrir er.

Eftir að hafa lýst yfir samstöðu um þessi grundvallaratriði kem ég að því að ég hef margvíslegar aths. og gagnrýni fram að færa um hin og þessi atriði í skýrslu hæstv. utanrrh., sum þeirra jafnvel stefnuatriði. Skal ég nú koma að nokkrum þeirra þó að hvorki sé tími, aðstaða né ástæða til þess að fara mjög ítarlega út í þau öll.

Hæstv. ráðh. byrjar skýrslu sína á því að tala almennt um stöðu heimsmála og setur þar á oddinn hina bættu sambúð á milli risaveldanna í austri og vestri sem hefur mjög sett svip sinn á alþjóðastjórnmál nú undanfarið. Hann flytur þennan boðskap ómengaðan eins og sanntrúaður kristniboði, og skal ég í sjálfu sér ekki lasta það á neinn hátt vegna þess að það hlýtur að vera von okkar eins og allra smáþjóða að þessi stórveldi geti komið sér nógu vel saman til þess að tryggja að aldrei komi til kjarnorkustyrjaldar þeirra í milli. Engu að síður hefðu gjarnan mátt fylgja skýrslunni einhverjar vangaveltur um það að þessi bætta sambúð hefur ekki verið snurðulaus með öllu. Að vísu halda hinir annáluðu gestgjafar hæstv. ráðh. 9 austurvegi, sem svo fagurlega var lýst hér fyrr í kvöld, sér mjög fast við hugmyndina um „detente“, eins og það er kallað, en það er ekki hægt að líta fram hjá því að miklar breyt. hafa orðið hjá hinum aðilanum, vestan við okkur í Bandaríkjunum, og höfundur þessarar vináttuhreyfingar þeim megin, utanrrh. Bandaríkjanna, hefur ekki þá stöðu, völd eða þann almenna stuðning sem hann hafði fyrir hálfu eða einu ári. Þannig er margt í raun og veru óvíst um framvindu þessara mála.

Langstærsti viðburður utanríkismála á undanförnum mánuðum er það sem gerst hefur í Indókína. Um þetta er ekki hægt að deila og það er fávísi ein að halda fram að viðburðir eins og þeir, sem gerst hafa í Suðvestur-Asíu, hafi ekki áhrif á alla jörðina og nokkur þjóð, jafnvel smáþjóð á eylandi í Atlantshafi, geti látið eins og hún sjái ekki það sem þar hefur gerst nú hinar síðustu vikur.

Það hafa verið skiptar skoðanir í sambandi við 30 ára borgarastríðið í Indókína. En ég hygg að nálega allir hljóti þó að fagna því að þessum þriggja áratuga hildarleik skuli vera lokið. Eftir að honum er lokið hljótum við að viðurkenna þau úrslit, sem þar hafa orðið, og taka því á þann eina hátt sem hægt er fyrir þjóð eins og okkur, að viðurkenna hina nýju ríkisstj. í Saigon. Ég verð að taka undir það með hv. 3. þm. Reykn. að mér finnst blaðsíðan, þar sem fjallað er um Indókína og viðhorf okkar til hinnar nýju stjórnar í Saigon, vera véfréttarleg og næsta furðuleg. Ég get ekki betur séð en að þarna hafi fengið ráðið einhver diplómatísk brögð sem hafa klætt málið í þennan skrýtna búning að því er okkur áhugamönnum finnst. Ég skal ekki fullyrða að þessi afstaða geti ekki staðist. Mundi ég segja, vegna þess að ég treysti bæði hæstv. ráðh. og ráðgjöfum hans, að vafalaust standist þetta eftir diplómatískum kokkabókum. En það er ekki sama hvernig stjórnarskipti verða, en þegar þau verða með óvenjulegum hætti, t.d. að loknu löngu borgarastríði, þá mun það vera algengust venja að þjóðir láti í ljós viðhorf sitt fyrr eða síðar með beinni yfirlýsingu. Rauðu Khmerarnir voru varla komnir inn í höfuðborg Kambódíu þegar forseti Frakklands viðurkenndi þá sem löglega stjórn landsins. Það hafa orðið á öðrum stöðum byltingar sem náðu fram að ganga, en stórveldi hafa streist gegn í áratugi að viðurkenna byltingarstjórnina. Ég hygg að það hafi verið 14-15 ár frá því að rússnesku byltingunni lauk þangað til Roosevelt Bandaríkjaforseti braut odd af oflæti landa sinna og viðurkenndi sovétstjórnina, og ég er satt að segja ekki víss um að Bandaríkjastjórnin í Washington sé búin að viðurkenna Castro-stjórnina á Kúbu, formlega enn þá.

Það er því augljóst, þegar hvert ríkið á fætur öðru hefur gefið út yfirlýsingar um að það viðurkenndi hina nýju stjórn í Saigon, að það hefði verið miklu hreinlegra að gefa út viðurkenningu, en ekki að vera með þetta diplómatíska klúður um að ef þeir nái valdi á sendiráðinu í Bonn, að þá skuli þeir náðarsamlegast taka á móti honum og veita viðurkenningu. Þetta finnst mér vera hálfkæringur sem sæmi okkur ekki. Við eigum hreinlega að segja það sem við viljum segja í þessu máli og senda skeyti um viðurkenningu á þessari stjórn, segja henni að hún geti sent sendiherra hingað þegar henni þóknast, því að diplómatískt samband okkar við Suður-Víetnam muni halda áfram eftir stjórnarskiptin.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða hvern kafla í skýrslunni enda yrði það allt of langt mál. Ég kem næst örlítið að þeim kafla, sem er um Sameinuðu þjóðirnar, og vil þá fyrst og fremst benda á að sá kafli er að lengd og umfangi ekki í neinu samræmi eða samhengi við aðra kafla skýrslunnar. Það, sem gerist á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hefur ekki svo mikla þýðingu í alþjóðamálum að það sé þess virði að helga því 1/3 hluta af þessari skýrslu, sem á að fjalla um öll utanríkismál okkar. Þetta þýðir ekki að ég vanmeti Allsherjarþingið. Það hefði að minni hyggju verið ástæða til að það væri gefin sérstök skýrsla um það, ekki síst vegna þess að þetta er nálega eini vettvangur alþjóðamála þar sem íslendingar þurfa að kasta atkv. sínu og beinlínis segja álit sitt á málefnum sem oft á tíðum eru tengd fjarlægum löndum og skipta okkur ekki beinlínis hagsmunalega máli, heldur aðeins hugsjónalega. Ég ætla ekki að fara í gegnum þessa skýrslu, en ég las hana með mikilli athygli. Mér þótti í fyrsta lagi merkilegt að samstaða Norðurlandanna á sviði Allsherjarþingsins virðist vera að leysast upp því að það er varla getið um tvær atkvgr. í röð í þessari skýrslu þar sem Norðurlöndin skiptast á sama hátt í afstöðu sinni.

Ég get að vissu leyti tekið undir það að við íslendingar þurfum að gæta okkar á því að vera ekki of fylgispakir við aðra nágranna okkar þó að ég telji og viti raunar af reynslu að hið norræna samstarf á sviði Sameinuðu þjóðanna er mjög náið og okkur mjög gagnlegt. Til skamms tíma hafa Norðurlandaþjóðirnar verið ákaflega róttækar í málefnum þriðja heimsins og þá voru ríkisstj. hér á Íslandi með töluverðum rétti ákærðar um að fylgja ekki hinum norrænu bræðrum eftir, heldur hafa tilhneigingu til þess að fylgja stórveldum í nágrenni okkar. Nú virðast hinar norrænu þjóðir bæði vera að sundrast og eitthvað að linast í málunum, og skapar það okkur að sjálfsögðu einhvern vanda. En ég tel að við eigum að halda áfram að hafa afstöðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem byggist á því að við erum nýsjálfstæð þjóð, m.ö.o. við erum í flokki þjóða sem hafa lotið nýlendustjórn öldum saman, en erum nýlega búnir að fá frelsi okkar. Við unum ekki því skipulagi sem er á veröldinni um það bil sem við fáum fullt frelsi. Ég þarf ekki að nefna annað en landhelgismálið eitt því til sönnunar. Við erum því þjóð sem krefst breytinga á alþjóðamálum, og við verðum því að hafa hugrekki til að skipa okkur að jafnaði í flokk annarra þjóða sem smám saman eru að vinna að slíkum breytingum. Ég er ekki byltingarsinni, en vil þó ekki mæla með því að við setjum formlegar diplómatískar reglur — það er nóg til af þeim — sem leiðarvísi fyrir okkur að öllu leyti. Einhvern tíma verður að brjóta hefðir ef á að breyta því ástandi sem verið hefur. Það var raunar gert þó að umdeilanlegt sé varðandi Palestínu-araba á þessu Allsherjarþingi. Hv. ræðumaður Alþb. kvartaði undan þeim tón sem væri í þeim kafla. Ef ég hefði fundið þann tón hefði ég tekið undir umkvartanir hans. Mér þótti hitt athyglisverðara, að í þessum kafla kemur í fyrsta skipti, a.m.k. í opinberum skjölum um íslensk utanríkismál, fram viðurkenning á tilveru Palestínu-araba og að þeir séu staðreynd sem verður að taka tillit til. Við íslendingar höfum haft ákaflega sterka tilhneigingu til þess að sýna samúð með gyðingum í baráttu þeirra og styðja þá. Þetta hefur bæði verið vegna þess að það sköpuðust af ýmsum ástæðum nokkur tengsl milli forustumanna hér og þar suður frá. Stöfuðu þau m.a. af því að þeir voru að reyna að brjótast út úr einangrun og ná persónulegum samböndum eða pólitískum við aðrar þjóðir og leituðu þá mjög til Norðurlanda. Þetta er allt eðlilegt og ég hef ítrustu samúð með Ísrael. Það verður að tryggja tilverurétt þess, en það verður líka að finna mannlega og eðlilega lausn á málefnum araba. Mér fannst, þegar ég las þennan kafla, það vera athyglisverðast við hann hversu mikill skilningur kemur þó fram á málefnum Palestínuaraba enda þótt íslendingar hafi verið í þeim fámenna hópi sem greiddi atkv. á móti því að Arafat fengi að tala. Það má deila um þingsköp. Eigum við að leyfa forsetum Alþýðusambandsins og atvinnurekenda eða eigum við að leyfa kvenfélagasamtökunum að senda fólk inn á Alþ. og flytja ávarp til alþm. úr þessum stól? Eða eigum við ekki að gera það? Ég er hræddur um að það gætu orðið töluverðar umr. um það hvort þessi braut væri æskileg eða ekki.

Það eru svona hugmyndir sem eru rökstuðningur fyrir því að vera á móti því að Palestínuarabar fengju að mæta á Allsherjarþinginu sem áheyrnarfulltrúar, og ég verð að játa að mér finnst vera sterk rök á móti því, ekki þeirra vegna, heldur vegna fordæmisins. En meiri hlutinn kaus að brjóta hefðir og gera þetta, og ég er frekar þeirrar skoðunar að það muni hjálpa til við lausn þessara mála þegar fram í sækir að Allsherjarþingið tók þó þessa afstöðu, þó að gegn atkv. Íslands væri.

Það er freistandi að ræða um kafla skýrslunnar um hafréttarmálin og fiskveiðilögsögu Íslands. En í raun og veru er það allt of stórt mál til að taka sem kafla í öðru máli og það hlýtur að njóta hjá okkur þeirrar algeru sérstöðu að við getum ekki látið það vera undirlið undir almennu yfirliti um utanríkismál. Hæstv. utanrrh. gat ekki heldur skilað skýrslu um utanríkismál án þess að nefna þessi mál. Hafréttarráðstefnan í Genf, sem nýlega er lokið, er það stórt mál að við gætum rætt hana í alla nótt og fulltrúar þingflokkanna, sem þar hafa verið, eru sumir hverjir komnir heim, sitja hér og hafa frá mörgu að segja. Ég mun tímans vegna leiða þetta hjá mér þó að það sé freistandi að hefja umr. um þessi mál, en það mundi á þessu stigi taka of mikinn tíma og ég tel það vera skyldu ríkisstj., sem hún mun sjálfsagt gegna í samráði við alla flokka, að ákveða hvenær og hvernig hlutur Alþ. kemur til í sambandi við framhaldsaðgerðir okkar.

Ég kem næst að kafla þeim sem heitir Öryggismál og er á bls. 21 í skýrslunni. Undir þessu stóra orði er nálega eingöngu talað um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og vísað í nýgert varnarsamkomulag með fáorðri skýringu á þá lund að viðræður embættismanna um framkvæmd samkomulagsins gangi eins og gert hefur verið ráð fyrir.

Ég tel að þetta sé algerlega ófullnægjandi skýrsla um málið þegar þess er gætt að það er nú alllangur tími liðinn síðan þetta samkomulag var gert og hér er um að ræða einu skýrslu ríkisstj. til Alþ. um utanríkismál sem fær almenna umr. Það er að vísu rétt að umr. almennings eða barátta um þessi mál hefur verið í lágmarki nú undanfarið og kann að vera freistandi frá hendi ráðamanna í ríkisstj. að reyna að vekja ekki upp drauginn. Engu að síður get ég ekki að því gert að mér finnst að í þessari skýrslu hefðum við átt að fá nákvæmari frásagnir af því hvernig framkvæmd eða viðræður um framkvæmd varnarmála ganga, hvað er verið að ræða um, hvað á að gera og hvers er að vænta á þessu sviði á næstunni. Það eru draumórar ef einhver heldur að þetta mál sé útdautt, því er víðs fjarri, það geri ég mér alveg eins ljóst og þeir hernámsandstæðingar sem hér hafa talað. Ég tel því að það sé ekki rétt að sofa á þessu máli þó að minna sé um það rætt en var t.d. fyrir kosningar. Við hefðum gjarnan þurft að fá miklu ítarlegri frásögn um hvað þarna er að gerast, hvernig þetta samkomulag, sem gert var, verður framkvæmt vegna þess að það var satt að segja að mörgu leyti losaralegt og erfitt jafnvel fyrir þá, sem líta á það frekar vinsamlegum augum, að gera sér ljóst hvernig framvinda þeirra mála yrði. Við skulum vona að það verði ítarlegar um þetta rætt í næstu skýrslu og hún komi fyrir maímánuð á næsta ári.

Þá tel ég að það sé allt of þröngur skilningur hjá hæstv. utanrrh. að fella undir „öryggismál“ eingöngu varnarmál Íslands vegna þess að öryggismál Íslands verðum við að skoða í miklu stærri sjóndeildarhring heldur en Reykjanesið og Hornafjörðurinn gefa okkur. Það hafa orðið stórkostlegar breytingar í heimsmálum nú á síðustu vikum og þessar breytingar hafa áhrif um alla jörðina. Atburðirnir í Suðaustur-Asíu, þróun mála varðandi Efnahagsbandalagið í Evrópu, breytt viðhorf í Bandaríkjunum eftir það sem þar hefur gengið yfir undanfarið, allt þetta eru stórviðburðir í sögunni sem hljóta að draga slóða á eftir sér, og það er fásinna ein ef menn halda að við hér uppi á Íslandi getum horft á allt þetta sem eitthvert fjarlægt stjörnufyrirbrigði sem komi okkur ekkert við. Þess vegna tel ég að tal um öryggismál Íslands í dag ætti að snúast í fyrsta lagi um það sem snertir okkur hér heima á hólmanum og í næsta nágrenni okkar og í öðru lagi hver staða okkar er í þessum heimi sem er að taka stöðugum og stórum breytingum. Hvaða áhrif hafa þessar breytingar? Hvaða áhrif hefur bergmálið frá Suðaustur-Asíu yfir Bandaríkin, á Vestur-Evrópu og norðanvert Atlantshaf? Hvaða áhrif hefur bergmálið frá Suðaustur-Asíu þegar það kemur hina leiðina, yfir meginlandið mikla og síðast Sovétríkin og hér út á Atlantshaf? Þessar spurningar finnst mér að við hefðum átt að leggja fram eða hæstv. ráðh. hefði átt að minnast á, til þess að við gætum gert okkur grein fyrir því hvað er fram undan. Er veröldin, sem við höfum búið í, að breytast þannig að við verðum að taka tillit til þess? Eða halda menn að við lifum enn þá í sama kaldastríðsheiminum eins og var þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið?

Næsti kaflinn er um Norðurlandasamvinnu og fer vel á því að hann komi í beinu framhaldi af því sem ég nú hef sagt um íslensk viðhorf til öryggismála í heiminum. Kafli hæstv. ráðh. um Norðurlandasamvinnu er ágætur svo langt sem hann nær. Hann byrjar á almennum orðum sem við þekkjum vel, en kemur síðan að því að gefa okkur í skyn að þátttaka okkar í norrænu samstarfi hafi allt aðra og miklu meiri þýðingu fyrir okkur í raunhæfri framkvæmd utanríkismála en flestir gera sér grein fyrir. Þetta er alveg rétt. Með tvo karlmenn og tvær þrjár stúlkur hjá Sameinuðu þjóðunum í New York gætum við aldrei nokkurn tíma staðið sómasamlega í stöðu okkar sem þátttakandi í bandalagi Sameinuðu þjóðanna ef við hefðum ekki hið norræna samstarf, sem þýðir að við eigum aðgang að upplýsingum frá fjórum öðrum þjóðum á sameiginlegum vettvangi og fáum að vita hvað er að gerast þar sem við getum ekki fylgst með nema rétt yfir þingtímann á haustin, ef það tekst þá á þeim tíma. Það er okkur ómetanlegur stuðningur að geta fylgst með því hvernig Norðurlöndin bregðast við og ætla sér að greiða atkvæði. Þetta megum við ekki vanmeta. Og það sem stendur í skýrslu hæstv. ráðh. um vangaveltur ýmissa ríkra stórvelda um þróun Allsherjarþingsins hygg ég að hafi af hans hálfu ekki verið skrifað af neinni vanvirðu við þriðja heiminn, heldur hafi hann verið að lýsa þar pólitískri staðreynd. Við getum ekki tekið afstöðu með hinum fáu ríku þjóðum í þeim efnum, en það er alveg eins nauðsynlegt fyrir okkur eins og vanþróuðu ríkin, þessi 77, sem eru orðin yfir 100, að gera okkur grein fyrir því að það er hugsanlegt að Allsherjarþingið geti orðið algjörlega þýðingar- og áhrifalaust. Eitt af því, sem oft hefur komið til greina þar, er gagnrýni einmitt á það sem kallað er ,,mini-state“, örsmá ríki eins og Ísland sem eru eins og brot úr einni stórborg, að þessi ríki skuli hafa eitt atkvæði á Allsherjarþinginu til jafns við stórveldin. Þetta er ekki nýtt mál þó að deilur um það séu að magnast, og við þurfum að fylgjast vel með þeim einmitt vegna þess að það hafa komið fram ýmsar hugmyndir um að það sé fráleitt að 215 þús. manns á Íslandi skuli hafa eitt atkvæði en 8 eða 9 hundruð millj. kínverja skuli aðeins hafa eitt atkvæði líka. Þetta mál er þess eðlis að það getur orðið úr þessu hreyfing sem verður til þess að smáríkjunum verði skákað til hliðar, ekki af peningalega ríkum þjóðum, heldur af hinum, sem eru bæði peningalega rík og hafa fólksfjölda. Þetta mál hefur átt sér nokkurn aðdraganda, en virðist hafa soðið dálítið upp úr og orðið að pólitísku deilumáli sem ég tel alls ekki óviðeigandi að hæstv. utanrrh. bendi okkur á, því að við erum að verulegu leyti aðilar að málinu og ef gagnsóknin gegn þróun Allsherjarþingsins verður að alvöru, þá verðum við meðal þeirra sem verða skornir.

Í sambandi við Norðurlandasamvinnu og öryggismál sakna ég þess að það er eins og vanti framhald, sem er pláss fyrir á síðunni. Það gæti a.m.k. byrjað kafli sem mér finnst að ætli að vera um það sem hefur gerst á Norðurlöndum undanfarna mánuði. Mér finnst að við á Alþingi íslendinga ættum ekki að ræða um utanríkismál eða norræna samvinnu í ramma utanríkismála án þess að nefna að það hafa orðið nýjar umr., sem í raun og veru eru pólitískar sviptingar, á Norðurlöndum undanfarna mánuði. Á vissan hátt má segja að þetta hafi byrjað á sviðinu í Þjóðleikhúsinu hér í Reykjavík þegar Norðurlandaþing sat hér og einn kornungur finnskur þingmaður kastaði þar sprengju er leiddi til þess að sjálfur forsrh. Finnlands varð að taka málið upp. Það, sem virðist vera að gerast, er að frá finnum kemur vaxandi gagnrýni á hin Norðurlöndin fyrir þeirra utanríkismálastefnu, á dani fyrir það að vera að sökkva niður í Efnahagsbandalagið, á norðmenn fyrir nýja olíupólitík, á svía fyrir að bjóða Atlantshafsbandalaginu orrustuflugvélar til sölu. Af kurteisi vorum við ekki nefndir, en við getum rétt ímyndað okkur hvað við mundum fá að heyra.

Í þessu sambandi hafa finnar vakið máls á nýjan leik á Kekkonen-tillögunum um að Norðurlöndin verði öll að kjarnorkulausu svæði. Þetta er stórt mál sem við höfum þekkt lengi, kom upp fyrir nokkrum árum, hjaðnaði, en er nú komið upp fyrir tilstilli finna á nýjan leik.

Samtímis því, sem þetta gerist innan Norðurlandanna, gera blöð í Sovétríkjunum sér ákaflega tíðrætt um pólitíska stöðu á Norðurlöndum og bólar jafnvel á þeirri hugmynd að Sovétríkin eigi rétt á að taka þátt í norrænu samstarfi. Ég held að það sé ekki hægt að túlka þessa viðburði öðruvísi en sem diplómatíska sókn Sovétríkjanna gagnvart Norðurlöndunum, enda gerir enginn blaðamaður, sem um þetta skrifar erlendis, neitt minna úr þessu, og í sannleika sagt getum við ekki leitt það hjá okkur. Við höfum orðið varir við þessa sókn hér uppi á Íslandi. Hér hafa sovéskar skipakomur verið miklu tíðari en áður og ýmiss konar starfsemi er aukin. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég ætla mér ekki að tala um þetta af neinni móðursýki og vara menn við að gera það. Ég tel að vissum blöðum hér á landi hætti mjög til þess að tala þannig að það er ekki bjóðandi af málgögnum ríkisstjórnar, og ég er ekki með þessu að taka afstöðu með þeim. En ég bið menn um að líta á þetta sem staðreyndir. Ég bið menn um að íhuga að þegar stórveldi hafa aðstöðu til að gera slíka hluti, það er alveg sama hver í hlut á, þá gera þau það. Við verðum að taka því eins og staðreyndum, en ekki eins og árás á okkur, sem það er í sjálfu sér ekki. Stórveldi reyna alltaf að auka áhrif sin og breiða úr sér, það held ég að sé sögulegt lögmál. Ef það er einhver veikur punktur landfræðilega eða pólitískt í kringum þau, þá sækja þau gjarnan í þá átt.

Ég tel að þessi diplómatíska sókn Sovétríkjanna, sem hefur áhrif á mat manna á öryggismálum um öll Norðurlönd og allt Norður-Atlantshaf, byggist aðallega á tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi á því að Sovétríkin eru búin að byggja upp stórfelldan herflota, kaupskipaflota og fiskiflota, sem er á hafinu allt í kringum okkur, og jafnvel vel metnir norskir sérfræðingar tala um það að Norður-Atlantshafið frá Íslandi og norður úr sé að verða sovéskt áhrifasvæði. Þetta er ekki nýtt, þetta höfum við heyrt undanfarin tvö ár, og það er engin ástæða til að hneykslast á því. Ég tel að það eina, sem er merkilegt við þessa þróun, sé að það skyldi ekki gerast miklu fyrr. Sovétríkin voru þriðja stærsta flotaveldi heims þegar á tímum keisaranna 1890. Líklega er fávisku Stalíns að kenna að þetta gerðist ekki 20–30 árum fyrr. En við verðum að gera okkur grein fyrir þessu með jafnaðargeði og með því að reyna að meta þetta skynsamlega, taka því sem er, af því að við verðum að sigla skútu okkar í gegnum þá sjóa sem fram undan eru. Við ráðum því ekki hvernig sjólagið verður.

Umr. þær, sem hafa siglt í kjölfar funda Norðurlandaráðs hér í Reykjavík s.l. vor, eru mjög athyglisverðar og ég tel það skyldu okkar íslendinga bæði að fylgjast vel með þessu og reyna að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif þær breytingar, sem eru að verða, kunni bæði í næstu framtíð og í lengri framtíð að hafa á viðhorf okkar, lífsbaráttu, sjálfstæði og utanríkismál, og sambúð okkar við aðrar þjóðir.

Herra forseti. Ég hef nú gerst helst til langorður um þessi mál. en hér er um vítt svið að ræða þar sem má taka nálega hverja síðu og gera að margra klukkutíma umr., ef menn vilja. Ég vil að lokum leggja á það áherslu að í utanríkismálum bíða okkar íslendinga í næstu framtíð stórbrotin verkefni, líklega þau stærstu sem við höfum nokkurn tíma tekist á við. Þar á ég við útfærslu fiskveiði- og efnahagslögsögu íslendinga í 200 mílur eða að miðlinum til næstu landa. Enn þá virðist ekki vera tímahært að hefja ítarlegar umræður um þetta mál hér á Alþ. Ríkisstj. og landhelgisnefnd, þar sem allir flokkar eiga sæti, er rétt að fá fyrstu skýrslur frá Genfarfundunum, og ég vænti þess að ég brjóti engan trúnað þó að ég skýri frá því að hæstv. forsrh. sagði við okkur á fundi í þessari n. í dag að hann gerði ráð fyrir mjög tíðum fundum nú á næstunni til að ræða allar hliðar þessa máls og að komast að niðurstöðum um það hvernig við ætlum á því að halda. Spurningarnar, sem geta ráðið miklu um sambúð okkar við önnur lönd, um okkar utanríkismál, eru, hvernig við munum halda á þessu máli, og ekki síður, hvernig aðrar þjóðir muni bregðast við aðgerðum okkar. Um það vitum við í rauninni sáralítið í dag. En ég vona að við munum á næstu vikum, bæði fram að ákvörðun og ekki síður eftir að ákvörðun hefur verið tekin um útfærsluna, fá nánari fregnir um það. En mér segir svo hugur um að þá munum við þurfa að taka á öllu því sem við eigum til og standa saman, eins og við höfum best gert áður í landhelgismálum, til þess að lýðveldið okkar komist farsællega í gegnum það mál.

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Valdajafnvægi, öryggismál, orkumál, efnahagsmál, auðlindamál, allt er þetta að taka stökkbreytingum. Sífellt verðum við að fylgjast með þessum málum, meta hvað af því, sem er að gerast, hefur þýðingu fyrir okkur, hvað ekki. Við verðum að halda vöku okkar, gæta frelsis okkar, vinsamlegrar og friðsamlegrar sambúðar við allar þjóðir, sem er grundvallaratriði í utanríkisstefnu okkar. En við skulum minnast þess að í utanríkismálum er enginn endir, aðeins áfangar.