13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4032 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

346. mál, utanríkismál 1975

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil hef ja mál mitt með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu um utanríkismál. Áður en ég vík að henni efnislega vildi ég fara nokkrum orðum um hugtakið „sjálfstæð utanríkisstefna“.

Einn hv. ræðumaður talaði um það áðan að hæstv. utanrrh. hefði vikið frá hinni — eins og hann mun hafa átt við — sjálfstæðu utanríkisstefnu vinstri stjórnarinnar. Það er mikill misskilningur hjá viðkomandi hv. alþm. ef hann heldur að hugtakið sjálfstæð utanríkisstefna hafi átt eitthvað frekar við í tíð vinstri stjórnarinnar en í tíð annarra ríkisstjórna á Íslandi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Allt frá þeim tíma hafa íslendingar rekið sjálfstæða stefnu í utanríkismálum.

Í hverju er sjálfstæð utanríkisstefna fólgin? Í stuttu máli má segja að fyrir sjálfstætt og fullvalda ríki hljóti sjálfstæð utanríkisstefna að vera fólgin í því að viðkomandi þjóð ráði sjálf sjálfstætt og óháð stefnumörkun og framkvæmd utanríkismála, geti hagað málum sínum á þessu sviði eins og best hentar viðkomandi ríki í samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Á grundvelli sjálfstæðrar utanríkisstefnu ákveður þjóðin og forráðamenn hennar síðan tilhögun nánari samskipta við aðrar þjóðir, svo sem á sviði efnahags- og viðskiptamála, öryggis- og varnarmála, stjórn- og menningarmála o.s.frv. Við framkvæmd hinnar sjálfstæðu stefnu hafa stjórnmálamennirnir sér við hlið innlenda fagmenn og ráðgjafa í utanríkisrn., sendiráðum erlendis og í viðskrn. Í þessar stöður hafa valist margir hæfir menn á síðustu áratugum, góðir íslendingar sem ásamt til þess völdum stjórnmálamönnum eru útverðir þjóðarinnar í framkvæmd utanríkismála á grundvelli þeirrar stefnu sem Alþ. og þjóðin ákveður á hverjum tíma.

Meðal frjálsra þjóða hlýtur árangur sjálfstæðrar utanríkisstefnu að takmarkast af gagnkvæmum rétti aðila, þ.e.a.s. ríkja, til frjálsra og óþvingaðra samninga í þessum efnum. Tillitssemi, heiðarleiki og gagnkvæm virðing fyrir rétti annarra hlýtur á þessu sviði mannlegra samskipta sem öðrum að vera það leiðarljós í mótun á framkvæmd sjálfstæðrar utanríkisstefnu sem íslendingar keppa að. Segja má, að höfundur íslenskrar, sjálfstæðrar utanríkisstefnu á framangreindum grundvelli hafi verið Bjarni Benediktsson Í utanrrh.-tíð Bjarna Benediktssonar á árunum 1974–1953 var mótuð sú stefna sem skapað hefur virðingu meðal frjálsra þjóða fyrir Íslandi og íslendingum. Þá voru gerðir samningar á sviði efnahags-, viðskipta- og öryggismála, svo að nokkuð sé nefnt, er byggðust á gagnkvæmum hagsmunum og raunsæi á því hvað kæmi íslensku þjóðinni best. Árangur þessara jákvæðu stefnu er sérhverjum íslendingi augljós. Íslendingar hafa búið við frið og öryggi samfara mikilli velmegun í þrjá áratugi, eins og aðrar vestrænar bræðraþjóðir okkar hafa gert. Þessu verður ekki á móti mælt. Þá má vekja athygli á því, að á grundvelli gagnkvæmra samninga vestrænna ríkja hefur ríkt fullt ferðafrelsi fyrir þegna þessara ríkja, menningarsamskipti hafa verið frjáls og óþvinguð og unnið hefur verið að afnámi viðskiptatálmana, svo að nokkuð sé nefnt.

Því miður hefur þessi ekki orðið þróun mála víða annars staðar í heiminum og er nærtækt dæmi að benda til þeirra þjóða sem búa í Austur-Evrópu. Utanríkisstefna vestrænna þjóða og íslendinga hefur miðað að auknu frelsi á sem flestum sviðum og stórauknum samskiptum þjóða og einstaklinga Þetta er sjálfstæð utanríkisstefna friðar og öryggis, manneskjulegra samskipta fólks í vestrænum ríkjum, — stefna sem er laus við „dogma“, öfga eða útskúfunarkenningar. Þetta er sjálfstæð stefna er stefnir að aukinni mannlegri reisn og friðsamlegri sambúð ríkja í milli á grundvelli gagnkvæmra hagsmuna. En vert er að minnast aðvörunarorða Bjarna heitins Benediktssonar er hann sagði: „Sá sem ekki vill vera sjálfstæður og leggja nokkuð af mörkum til þess, ýmist einn eða í samvinnu við aðra, hann getur ekki til lengdar haldið sjálfstæði sínu.“ Fyrir frjálst fólk er vill byggja á lýðræði og frjálsum samningum, hlýtur tillitssemi og virðing fyrir hagsmunum gagnaðilans að ráða miklu um endanleg úrslít mála og samskipta. Á það jafnt við á sviði utanríkismála sem á öðrum sviðum mannlegra samskipta.

Utanríkisstefna núv. ríkisstj. er áframhald þeirrar stefnu um tryggingu friðar og öryggis á norðurhveli jarðar og frjálsra samskipta þjóða sem mörkuð var af vestrænum ríkjum um og eftir 1950, en að sjálfsögðu með þeim óhjákvæmilegu breytingum sem þróun tímans og breyttar aðstæður hafa krafist Þetta er sú stefna í utanríkismálum sem alþýða manna, íslenska þjóðin, hefur aðhyllst og mun aðhyllast um ókomna framtíð, hvað sem líður ókvæðisorðum örfárra manna um vestrænar þjóðir og það þjóðskipulag, sem þær búa við og eru reiðubúnar til að verja fyrir utanaðkomandi hættum.

Vil ég þá víkja nokkuð að skýrslu hæstv. ráðh. Hér hefur verið talað um m.a. af hv. 5. landsk þm., Svövu Jakobsdóttur, að nýverið hefðu verið gerðir, eins og hún orðaði það, „hagkvæmir viðskiptasamningar við Sovétríkin.“ Eigi skal því á móti mælt að þessir samningar geti verið íslendingum hagkvæmir, en einmitt vegna þessara orða vaknar sú spurning hvers vegna ekki er í skýrslunni fjallað nánar um þann þátt mála sem heitir „viðskiptamál“. Ég er ekki að gagnrýna þann kafla sem slíkan í skýrslunni, heldur finnst mér full ástæða til í framtíðinni að þessi hluti í skýrslu utanrrh. verði ítarlegri. Það hefði verið mjög fróðlegt fyrir þingheim og þjóðina alla, ef í skýrslunni hefði verið ítarlegt yfirlit yfir viðskipti Íslands við einstök ríki og einstök viðskiptasvæði ásamt mati hæstv. utanrrh. á þýðingu og gildi þessara viðskipta fyrir íslenskan þjóðarbúskap.

Ég þekki nokkuð til utanríkisviðskipta. Það er ekki einhlítt að miða viðskiptin við tonn eða magn, heldur er það verðmætið á bak við magnið, þ.e.a.s nettóverðmætið, sem þjóðin fær til baka, sem skiptir mestu máli svo að ekki sé talað um kaupmátt þess gjaldmiðils sem útflutningsvaran lætur okkur í té. Þá hefði verið mjög þýðingarmikið einmitt nú og mikils um vert að heyra eða lesa í skýrslunni spár hæstv. ráðh. um hvernig þróa ber utanríkisviðskiptin í nánustu framtíð með sérstöku tilliti til ákveðnari stefnumörkunar ef Vestur-Evrópa verður áfram jafnlokað markaðssvæði fyrir mikilvægar útflutningsafurðir og hún hefur verið síðustu árin. Við stöndum frammi fyrir því að færa út efnahagslögsöguna í 200 mílur og má þess vegna jafnvel búast við, miðað við fyrri reynslu vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur, að það geti orðið enn erfiðara að ná hagstæðum viðskiptasamböndum aftur í Vestur-Evrópu. Þess vegna hlýtur að vera óhjákvæmilegt að stefnumörkun verði ákveðin varðandi utanríkisviðskipti íslendinga og þær mikilvægu afurðir sem við þurfum að selja og þá helst til þeirra markaða sem gefa mestan árangur.

Þeir, sem eitthvað hafa t.d. kynnst viðskiptum við Austur-Evrópuríkin, gera sér e.t.v. betur grein fyrir því en þeir, sem einkum hafa stundað hin frjálsu viðskipti í vestri, að í utanríkismálum austrænna þjóða skipta viðskiptamálin mjög miklu máli. Þau eru afar mikilvæg, og það er ekkert leyndarmál að af hálfu þessara svokölluðu skipulögðu sósíalistísku ríkja eru viðskiptamálin raunverulega hluti af þeirra stjórnmála- og utanríkispólitík. Það er mjög þýðingarmikið fyrir smáþjóð að gera sér fullkomlega grein fyrir þessu bæði í samskiptum sínum við slík ríki sem og auðvitað í samskiptum sínum við öll önnur ríki.

Vert er að vekja athygli á því, að íslendingar þurfa að vera sérstaklega vel á verði nú vegna þess að margir óttast að erfiðleikar geti orðið miklir á þeim mörkuðum sem við höfum oft getað notað við og við í Vestur-Evrópu. Það hlýtur þess vegna að verða að leggja mikla áherslu á það að stefna íslendinga í utanríkismálum og utanríkisverslun sé opin og sveigjanleg. Það hlýtur einnig að vera mjög mikilvægt að forðast það að þjóðin verði um of háð einu eða fáum stórveldum eða stórum ríkjum í tvíhliða og mjög bindandi samningum. Á þetta auðvitað einkum við þar sem tvíhliða samningar eru notaðir sem pólitískt tæki af hálfu þeirrar þjóðar eða þjóða sem við þurfum að eiga stórviðskipti við. Þessi hætta er ekki eins fyrir hendi gagnvart viðskiptum við þær þjóðir sem reka frjáls viðskipti, en þó ber einnig að hafa þetta í huga gagnvart þeim. Þá hljótum við íslendingar að leggja aukna áherslu á að ástunda viðskipti við þær þjóðir sem gefa íslendingum sem mest svigrúm til að annast framkvæmd mála sjálfir á mörkuðunum erlendis. Reynslan hefur sýnt og sannað að samskipti íslendinga við slíkar þjóðir, þ.e.a.s. þjóðir sem bjóða þann möguleika að við getum sjálfir fylgt eftir okkar sölumálum úti á mörkuðunum, hafa skilað íslensku þjóðinni langsamlega mestu í aðra hönd bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Ber að hlúa að slíkum viðskiptum.

Ég vil svo að lokum þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög gott samstarf í utanrmn. og ég vænti góðs af frekari samstarfi við hæstv. ráðh. á þessu sviði í þeim anda góðvildar og vinsemdar sem mér finnst hafa einkennt störf hans í sambandi við utanríkismál.