13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

228. mál, fjáraukalög 1971

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft fjáraukalög fyrir árið 1972 til athugunar. Frv. ber það með sér að viðbótarútgjöld við það, sem ákveðið var í 2. gr. fjárlaga fyrir það ár, hafa reynst 1 milljarður 914 millj. 275 þús. kr. Verulegur hluti af þessum umframgreiðslum stafar af tiltölulega fáum málaflokkum, sem ekki hefur verið komist hjá að greiða að mati ríkisstj. Eru þar stærstu liðir, eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. fyrir frv. til vegagerðar rúmlega 629 millj., vegna aukinna niðurgreiðslna á búvöru 495 millj., vaxtagjöld fóru fram úr áætlun fjárlaga um 238 millj. kr. og greiðslur til landhelgisgæslu fóru 195 millj. kr. fram úr fjárlögum. Samtals eru umframgreiðslur samkv. þessum liðum um 1 milljarður 560 millj. kr.

Endurskoðendur ríkisreikninga hafa gert ýmsar fyrirspurnir varðandi útgjöld ríkisins eins og venja er og fengið svör við þeim sem þeir hafa talið fullnægjandi,

N. hefur borið niðurstöðutölur frv. saman við ríkisreikning og ekkert fundið athugavert og leggur því til að frv. verði samþ.