13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3291)

239. mál, afnotaréttur þéttbýlisbúa af sumarbústaðalöndum

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins fá tækifæri til að þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessarar till. og jafnframt hæstv. landbrh. fyrir orð hans og stuðning við þetta mál. Það gleður mig að heyra að nokkuð skuli hafa verið að þessu unnið. Þessi hugmynd kom fram á síðasta þingi og till. var þá ekki útrædd, en væntanlega verður hún nú samþ. á þessu þingi. Ég held að þetta sé mál sem landsmenn allir eigi að geta sameinast um, en það ber til þess nauðsyn að setja um þetta fastar reglur í lögum, að ég hygg og síðan þá reglugerðarákvæði jafnvel líka, og gjarnan mætti sú löggjöf fjalla um nokkru víðara svið þ.e.a.s. um umgengisreglur, umgengnisrétt á landssvæði, óbyggðu landssvæði. Það þarf nauðsynlega að koma þar á föstum reglum vegna þess að hætt er við vaxandi árekstrum milli þeirra, sem um landið vilja ferðast, og hinna, sem telja sig hafa afnota eða eignarrétt á landinu. Brýna nauðsyn ber til þess að leitast við að sætta sjónarmið manna í þessu efni og koma í veg fyrir árekstra sem ella er hætt við að gætu orðið en ekki þurfa að verða. Ég held þess vegna að það sé eðlilegt að sérstök löggjöf verði um þetta sett og treysti því að hæstv. landbrh. beiti sér fyrir því að frv. að henni verði tilbúið nú í haust og þá gjarnan nokkuð víðtækari en eingöngu um þessi sumarbústaðalönd, afnotarétt af þeim og hvernig þeim málum verði fyrir komið, eins og ég áður gat um.