13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4061 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

239. mál, afnotaréttur þéttbýlisbúa af sumarbústaðalöndum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir efni þessarar till. og ég er, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, á sama hátt þakklátur fyrir hans undirtektir við málið. En ég vil benda á það hér að mér sýnist, að þótt sú úrlausn sé góðra gjalda verð, sem hér er áformað að gera og væntanlega verður samþ., þá er þetta mál miklu stærra og í sambandi við það mjög nauðsynlegt að setja heildarlög um sumarbústaði yfirleitt, ekki einungis um að setja upp sumarbústaðahverfi á ríkisjörðum, heldur alhliða löggjöf um sumarbústaði. Og þegar maður hugleiðir þessa þörf sem ég veit að alþm. almennt eru hér sammála um að sé fyrir hendi, þá hlýtur það jafnframt að koma í hugann að skipulagning á löndum dreifbýlisins er nauðsynjamál nú orðið og þyrfti að taka þetta málefni allt í einu til athugunar og semja lög um skipulagningu þess eins og þéttbýlissvæða.

Ég vildi aðeins við þessa umr., fyrst tækifæri gafst, benda á þetta nauðsynjamál.