27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

63. mál, landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég virðist svei mér hafa komið við kviku í hæstv. ráðh. þegar ég fæ svo veigamikil og stórbrotin svör við litlu frv. sem þingheimur nú hlýddi á. Það er hvorki meira né minna en byrjað á eldhúsumr. um stöðu mála í Alþfl. og dregur ráðh. þar auðvitað kvenþjóðina inn. En úr því að hann nefnir það, þá gerðist það aðallega að það er komin kona í eitt af 6 efstu forustusætum Alþfl., en hingað til hefur engin kvenmaður komist í sambærileg 6 sæti hjá Framsfl. Við erum örlítið lengra komnir í þeim efnum þó að við Halldór höfum náttúrlega alltaf seilst eftir fylgi kvenna og megi ekki á milli sjá hvor meira reynir.

Á eftir þessu kom hann með heilmikla sjónvarpsgagnrýni og fór þar auðvitað þveröfugt með hlutina, sagði að ég hefði boðað frv. um fóstureyðingar. Það er vitleysa því að til er mikið frv. um fóstureyðingar sem síðasta stjórn bar fram. Ég benti á þetta mál sem dæmi um það, hvað verkefni við stjórnmál hefðu breyst og væru breytileg. En af hverju ráðh. er með þennan langa inngang sem kemur ekkert við stjórn Rifshafnar, það veit hann líklega einn.

Þegar hann svo kom að málinu byrjaði hann á að segja frá því að hann væri í raun og veru þeirrar skoðunar að það ætti að setja ein lög um allar landshafnir og hafa samræmi í því hvernig stjórn þeirra væri. Þetta var það sem var bitastætt í ræðu hæstv. ráðh., og með þessari yfirlýsingu lýsir hann því yfir að hann sé efnislega sammála mér, En hann er svo mikill stjórnmálamaður, að því er virðist, að það er útilokað fyrir hann að taka afstöðu til svona máls eftir efni þess, heldur hlýtur allt að fara eftir persónulegum og flokkslegum aðstæðum. Þannig dæmir hann allt málið. Af því að hann er hræddur við tvo eða þrjá einstaklinga sem sitja í þessari n., þá hikar hann við að leggja fram frv. um skipulagsbreytingu á þremur stórum landshöfnum sem hann er sjálfur sannfærður um að væri til bóta. Mér finnst lítil reisn yfir ráðh. að skýra Alþ. og þjóðinni frá því að svona persónuleg mál skuli verða til þess að hann þori ekki að framfylgja sannfæringu sinni í máli sem undir hann heyrir. Satt að segja verður ráðh. sér til skammar ef hann í raun og veru hefur þessa skoðun, sem ég tel vera skynsamlega, og þorir ekki að framkvæma hana af ótta við þá menn sem sitja í Rifshafnarstjórn eins og sakir standa.

Ég vil taka það fram að ég vil vísa frá sem algerlega óþörfu og óviðeigandi öllu tali um „slátrun“ á mönnum í sambandi við þetta. Það gæti farið svo að hæstv. ráðh. fengi, ef maður notar hans eigin orð, að „slátra“ einum 3–5 nm. ef hann skyldi nú skipta um þá alla, því að einhver ástæða hlýtur að vera fyrir því að hann er svona viðkvæmur fyrir því að hann kynni að missa þetta stórkostlega vald.

Mér hefur verið mætavel kunnugt um, hverjir hafa verið í þessari stjórn, og þ. á m. að í henni hafa setið heimamenn, tilnefndir af ráðh., flestir ágætismenn. En mér er líka tjáð að þeir líti ekki svo á að þeim beri að gefa skýrslur um störf þessarar n. í hreppsnefndinni. Og í raun og veru ber þeim ekki formlega skylda til þess. Þeir eru ekki settir í stjórn hafnarinnar sem fulltrúar hreppsins eða hreppsyfirvalda. Þeir eru þar settir sem verðugir og góðir einstaklingar og hafa vafalaust unnið vel sem slíkir.

Ég held að við getum látið allar vangaveltur um Alþfl. og framtíð hans liggja á milli hluta í sambandi við þetta mál. En ég vil aðeins að lokum skýra frá því að ég flyt þetta frv. samkv. ósk manna heima á Hellissandi og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst samkv. ósk flokksmanna minna, þeirra sem stóðu að því að ég er þrátt fyrir allt enn hér og er búinn að vera hér nokkurn veginn jafnlengi og hæstv. ráðh. Ég skora á hann að hætta að hugsa um einstaklinga eða líta á þetta sem bitlinga eða eitthvað slíkt, sem ekki megi snerta við, afgreiða þetta mál eftir þeirri sannfæringu sem hann lýsti, og flytja frv. um samræmi milli landshafnanna, sem vel mætti vera í einum lögum er kæmu þá í staðinn fyrir þrenn.