14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef rökstuddan grun um að hæstv. iðnrh. hafi ekki verið miklu ánægðari með það en ég hversu seint þetta frv. kom fram og hvernig málið var raunverulega í pottinn búið. Það þóttist ég skilja á máli hans á fundi með okkur í iðnn., að hann hefði gjarnan viljað að allt þetta hefði verið betra. Ég þarf víst að kveða skýrar að orði um það en ég gerði í fyrri ræðu minni að ég er alls ekki viss um að þetta mál sé slæmt, en ég tel aftur á móti að iðan. hafi ekki gefist nægur tími til þess að fjalla um þetta mál og kynna sér það. Ég er þeirrar skoðunar eða a.m.k. hef ekki verið sannfærður um annað en að réttara væri að fresta málinu til haustþings, eins og ég sagði fyrr, þannig að n. gefist tími til að kynna sér þetta mál.

Ég ítreka það að ég er alls ekki viss um, ég hef ekki fengið tækifæri til þess að kanna það, að þetta mál sé slæmt. Það kann vel að vera að málið sé raunverulega þess eðlis að ég vildi styðja það. Hitt þykir mér dálítið tortryggilegt, að ekki skuli liggja fyrir samþykkt frá aðalfundi Landssambands iðnaðarmanna þar sem mælt er með gjaldi á borð við þetta.

Allsherjaratkvgr. fór ekki fram meðal bænda á sínum tíma um samsvarandi gjald af landbúnaðarvörum, en ég man ekki betur en að tillaga þar að lútandi væri samþykkt með miklum meiri hl. atkvæða á aðalfundi Stéttarsambands bænda þannig að fyllilega eru þessi mál ekki sambærileg. Ég segi sem svo að ég treysti mér ekki til þess að lýsa yfir því að ég telji þetta frv. rangt og að ég sé efnislega á móti því, en ég tel rangt að afgr. það nú með þessum flýti. Vegna málsmeðferðarinnar mun ég því greiða atkv. gegn því á þessu þingi.