14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega um þetta mál, en ég vildi gera eina stutta aths. sem ég kom á framfæri við n., en sé að hún hefur ekki séð sér fært að taka til greina.

Það hefur verið unnið að því að undanförnu og verður unnið að því í framtíðinni að fækka þeim gjöldum sem eru lögð á, og reynt að sameina þau. Hér fáum við nýtt gjald, iðnaðarmálagjald, sem er lagt á sama gjaldstofn og iðnlánasjóðsgjald. Að mínum dómi hefði verið mun einfaldara að sameina þetta gjald iðnlánasjóðsgjaldinu — iðnlánasjóðsgjald er 0.5% — og þessir aðilar fengju þá 1/6 hluta af því gjaldi. Eftir því sem fleiri gjöld eru lögð á þeim mun meiri skriffinnska, þeim mun meiri útreikningar. Það þarf nýjan dálk í allar skattskrár, það þarf nýjan reit á alla skattseðla til fyrirtækja og einstaklinga með rekstur. Ég hefði talið að það færi betur á því, þegar slík smágjöld eru lögð á, að hugað sé að því að sameina þau við önnur gjöld sem eru reiknuð af sama gjaldstofni.

Ég vildi biðja hæstv. ráðh. að taka þetta til athugunar því að ég veit að allir alþm. hljóta að vera sammála um að okkur beri að stuðla að því að það sé sparnaður í opinberum rekstri.