14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3345)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég er búinn að ræða efnislega þetta frv., bæði í þessari d. og eins í Nd., svo að ég ætla aðeins að segja hér örfá orð.

Ég þakka n. fyrir afgreiðslu málsins og sömuleiðis hv. 1. landsk. þm. sem talaði fyrir minni hl. n. Hann talaði af skilningi um margt. Okkur greinir á um leiðir eins og gerist og gengur. Þeir í minni hl. vilja fara aðra leið í þessum efnum. Við hinir stöndum aftur að því eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Út af því sem hann sagði og raunar fleiri þm. úr sjútvn. varðandi þá staði sem eiga svo að segja eingöngu afkomu sína undir söltun fisks, þá skal ég fúslega játa að hér er auðvitað um mjög hátt útflutningsgjald að ræða sem er sjálfsagt að reyna að taka tillit til, þó að það verði með öðrum hætti en hv. minni hl. leggur til að gert verði. Það er a.m.k. ákveðin stefna mín að vilja halda sem mest niðri verðlagi á smæsta fiskinum og sýna á þann hátt að stjórnvöld og forustumenn þessa atvinnuvegar vilja stefna að því að minnka sem allra mest smáfiskadráp. Við erum að fara út í útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur. Við höfum haldið því fram, bæði hér heima og eins í viðræðum við aðrar þjóðir, að við viljum aukna friðun fiskstofna og viljum stuðla að því að íslendingar hætti smáfiskadrápi, og sömuleiðis gerum við kröfur til þess að erlendar þjóðir, sem veiða á Íslandsmiðum drepi ekki smáfisk. Hinu verður ekki neitað að á einstaka stöðum þar sem litlir bátar eru sem geta ekki sótt nema tiltölulega skammt, þar verður auðvitað alltaf nokkuð um minni fisk að ræða á tilteknum svæðum. Þetta sjónarmið vil ég hafa í huga, en þá með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, þó að ég telji æskilegt eins og raunar flestir að stefna að því að minnka og helst að hætta með öllu smáfiskadrápi.

Eins og ég sagði við 1. umr. urðu þau mistök að n. héldu ekki sameiginlega fundi. Hins vegar er það ekkert leyndarmál að fulltrúar stjórnarflokkanna í báðum sjútvn. héldu marga fundi um þetta mál áður en frv. var lagt fram. Þetta eru erfið mál og flókin og það eru auðvitað mjög misjafnar skoðanir eins og eru í raun og veru hjá atvinnugreininni í heild. Því taldi ég vist að um þetta mál næðist full samstaða. En nú hafa tveir þm. flutt hér brtt., tvær brtt. Önnur brtt. er ekki stór, heldur er það upphaf d-liðar 1. gr.: „til Fiskveiðasjóðs Íslands til að bæta“, en í gr. er „til að bæta eigendum fiskiskipa“. Ég er með fyrir framan mig drög að þessu frv. sem allir sjútvn.- menn stjórnarflokkanna fengu í hendur 10. apríl með þessu orðalagi sem er núna í frv., og mér finnst ekki ástæða til að fara að breyta þessu og senda frv. til Nd. þegar það er yfirlýst af mér sem sjútvrh. að ég ætlaði mér og ætla að hafa þann hátt á að óska eftir því við Fiskveiðasjóð að hann semji reglugerð í sambandi við úthlutun á þessu fé. Hér er aðeins um byrjunarframlag að ræða og vantar mjög mikið inn í. Það vantar auðvitað að skapa einhvern tekjustofn því að 50 millj. eyðast ef ekkert kemur á móti. Þetta hefði ég haldið að ætti að duga. Ég vil líka segja að það getur eitthvað komið fyrir að Fiskveiðasjóður vilji síður hafa með þessa úthlutun að gera. Þá verður að reyna einhverjar aðrar leiðir. En þetta er mín skoðun í sambandi við þetta mál og því er ég andvígur þessari tillögu.

Hin tillagan, sem liggur fyrir á sama þskj., er auðvitað mun stærri og veigameiri því að ef hún væri samþ., þá mundi það kosta um 30 millj. kr. hærri upphæð til síldarverksmiðjanna. En ég tel að með þeirri breyt., sem gerð var á ákvæði til bráðabirgða við 3. lið í Nd. hafi verið komið svo mjög til móts við verksmiðjurnar. Er samkvæmt því orðalagi heimilt að greiða þeim til viðbótar allt að 30 millj. kr. Ræða hv. síðasta ræðumanns breytir ekki skoðun minni í þessum efnum.

Ég vil bæta aðeins við þessa ræðu. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hann sagði, en ég vil bæta því við að loðnuframleiðendur, loðnumjölsverksmiðjurnar eiga engin viðbótarútflutningsgjöld að greiða samkv. þessu frv. og það kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1. okt. á næsta hausti, svo að þarna er komið allmjög til móts við verksmiðjurnar. Sömuleiðis vil ég geta þess að í sambandi við síðustu verðákvörðun á loðnu, síðasta tímabilið, þá eru ætlaðar 25 millj. kr. til þess að halda loðnuveiðunum áfram, sem er helmingur af þeim 50 millj. sem hér eru lagðar til samkv. 1. gr. g-lið. Þetta gerði ég í samráði við ríkisstj. til þess að ná samkomulagi í Verðlagsráðinu og þannig að veiðarnar héldu lengur áfram, þannig að nýtingartími verksmiðjanna væri betri. Ég hygg því að það sé búið að gera allvel við eigendur loðnuverksmiðjanna í þessum efnum. Þetta verða menn að hafa í huga.

Það er rétt, að það var ekki tekin inn í áætlunina sú loðna sem var í þrónum. En verðfall hefur orðið mikið, það er sjáanlegt á öllu að við erum með þessu frv. óbreyttu búin að stefna í þá átt að okkur kemur til með að vanta fjármagn til þess að standa undir ákveðnum sjóðum þar sem tekjur hafa brugðist. Þar bendi ég á að á Olíusjóðinn kemur til með að vanta enn meira, þó að hér sé ekki lagt til að taka nema 80 millj. kr. til þess að standa undir halla Olíusjóðsins fram að gengisbreytingu. En þó hef ég enn meiri og stærri áhyggjur af Tryggingasjóði fiskiskipa. Þar er reiknað með að taka 100 millj. kr. í þessu augnamiði. Það er sennilega ekki nema um þriðjungur af því sem vantar, og það er reiknað með því að greiðslustaða þess sjóðs verði um sex mánuði á eftir þrátt fyrir þessar 100 millj. kr. Sú greiðslustaða má ekki skekkjast meira, það kemur þá út yfir útgerðina í sambandi við greiðslu tjóna því að tryggingafélögin geta auðvitað tafið og verða að tefja greiðslu tjóna þegar iðgjöldin koma ekki fyrr en eftir kannske 6 og upp í 10 mánuði. En tjónin láta ekki á sér standa.

Miðað við þær upplýsingar, sem Þjóðhagsstofnunin gaf um lauslega athugun á hráefnisbirgðum loðnuverksmiðja frá 16, febr. er talið, samkv. upplýsingum loðnunefndar að hér sé um 80 þús. tonn að ræða. Gengismunurinn er brúttó upp á 140 millj. kr., en skilaverðsgengismunur er að frádregnum gjöldum 116 millj. kr. Ef við tökum með hið endurmetna hráefnisverð, þá eru það 80 millj. kr. Mismunur á því yrði 30 millj. kr. sem ég taldi eðlilegt og gekk inn á við sjútvn. Nd. að yrði greitt með þeim hætti. Þá hefði ég talið og tel að sé vel gert við framleiðendur á loðnumjöli og loðnulýsi.

Það er því minn ákveðni vilji að þessi till. verði felld. Ég tel að það sé teflt á mjög tæpt vað að samþykkja þessa till. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að ég er andvigur till. minni hl. n., alveg eins og ég sagði í Nd., því að þetta er nákvæmlega það sama sem hér er flutt og var þar fellt.