14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3346)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru örfá orð aðeins, enda er ég allt of illa að mér í sjávarútvegsmálum yfirleitt til þess að ég hætti mér út á þann hála ís að fara náið þar út í. Ég vil þó taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi gagnrýni á sjóðakerfi sjávarútvegsins yfirleitt. Það væri gott ef um það gæti náðst samkomulag milli þeirra aðila sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta að skipulagi þess kerfis yrði komið í annað og hagfelldara form, a.m.k. á þann hátt, að allt venjulegt fólk, jafnvel menn sem eru eins illa að sér og ég er í þessum efnum, gæti skilið eitthvað smávegis í því kerfi.

Ég þarf ekki að taka það fram að ég styð brtt. minni hl. og tek undir þá gagnrýni sem þar hefur komið fram. Mér heyrðist ekki hæstv sjútvrh. og hv. frsm. vera alveg sammála um hana, því að hæstv. sjútvrh. talaði um aðrar skoðanir minni hl. en hv. frsm. talaði um sýndarmennsku. Ekki veit ég hvort er réttara. (Gripið fram í.) „Nema hvort tveggja sé“, segir fulltrúi úr minni hl. Gæti verið, já.

Ég vildi svo aðeins gera grein fyrir afstöðu minni varðandi þá brtt. sem hér er á þskj. 731, þ.e.a.s. síðari lið hennar, till. nr. 2. Ég varð fljótlega, eins og fleiri, var við gagnrýni frá loðnuverksmiðjunum, sérstaklega eystra, varðandi það hvernig þessu fé yrði ráðstafað og hvernig með það yrði farið. Þessar verksmiðjur eru, eins og allir vita, ýmist í eigu ríkisins eða í félagslegri eign og því eðlilegt að maður taki nokkurt tillit til þeirra. Ég tel að þessum aðilum sé of mikið mismunað ef frv. verður samþykkt óbreytt, þrátt fyrir þær breyt. sem á frv. hafa verið gerðar í Nd. Og ég tel, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson rakti hér allnákvæmlega áðan, að það sé ekki búið nógu vel að þeim verksmiðjum sem áttu mjög mikið magn af loðnu í sínum þróm þegar þessar ráðstafanir gengu í gildi. Og ég tek það fram af þessum ástæðum að ég mun styðja síðari lið brtt. á þskj. 731 og tel þar mjög hóflega gengið í sanngirnisátt gagnvart þessum aðilum.