14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti, Ég skal ekki lengja þessar umr. En varðandi þá till. okkar að orða aðeins skýrar að það fjármagn, sem á að greiða til vegna ónýtra eldri skipa, fari í gegnum Fiskveiðasjóð er í sjálfu sér ekki mikilvægt mál, ég tek undir það með ráðh. En okkur þótti rétt að kveða skýrar á í því efni og eðlilegast að Fiskveiðasjóður sæi um slíka hluti. Hins vegar treysti ég hæstv. ráðh. til þess að búa svo um þau mál að það verði gert á sanngjarnan máta, enda hefur hann látið þess getið í framsöguræðu 1 Nd., að hann muni fela Fiskveiðasjóði þetta verkefni og treysti ég því að það verði gert. En okkur þótti réttara að það væri kveðið á um það í lögunum sjálfum. Hæstv. ráðh. gat þess að það hefði verið bætt eða gefið eftir eða greitt til loðnuverksmiðjanna 36 millj. Ég vil taka það fram að hér er ekki um að ræða að greiða neitt til neins. Hér er um það að ræða á hvern hátt skuli tekin afstaða til þess hvernig gengismunur skuli tekinn af hráefni. Það hefur aldrei verið gert áður. Það er vissulega í flestum tilfellum eitthvert hráefni í frystihúsum landsins, það hefur aldrei verið gert að reikna gengismun á þetta hráefni, það er í fyrsta skipti nú sem það er gert, varðandi loðnuverksmiðjur, og það skiptir að sjálfsögðu gífurlegu máli að þarna sé tekin rétt stefna. Það er sem sagt um það að ræða að reikna þennan gengismun á skynsamlegan hátt og rökstuddan og það hefur sem sagt ekki verið rökstutt í mín eyru hvernig þessi tala er réttmæt, 80 millj. kr. Það er talað um að sé gefið eftir, það er talað um að það sé greitt til þeirra. Hér er ekki um það að ræða, heldur að marka þarna stefnu. Það dettur sjálfsagt engum í hug í framtíðinni að fara enn þá lengra og fara niður í bátana og reikna gengismun á það hráefnismagn sem var í bátunum, ég reikna með að allur flotinn hafi legið við bryggjur fullur af loðnu þegar þetta varð. Þegar slík stefnubreyting verður, að reikna gengismun á hráefnismagn, þá hefur það gífurlega þýðingu að gera það vandvirknislega og á skynsamlegan máta. Það er þá nefnt, að það var ekki lagt útflutningsgjald á loðnuverksmiðjur. Hér er ekki heldur um það að ræða að taka tillit til þess. Það, sem um er að ræða, er að þetta verði reiknað skynsamlega og verksmiðjum verði ekki mismunað eftir því hversu mikið hráefnismagn þær hafa í þróm sínum. Það er það sem um er að ræða. Það er ekki verið að tala hér um útflutningsgjöld eða önnur gjöld sem ekki eru lögð á verksmiðjurnar, það er aðeins um það að ræða að reikna þetta á rökstuddan hátt. Það má vel vera að það vanti fjármagn til þess að standa undir öðrum sjóðum. Og ég hefði flutt um það till. að lækka einhvern af þessum liðum í 1. gr. ef ég hefði fengið um það gögn hvað vantaði mikið fjármagn. Það var upplýst og hæstv. ráðh. gat þess að með þessum afurðum, sem verða til af loðnu sem var í þróm, með þeirri upphæð var ekki reiknað í þessari tölu. Og nú er ráðgert að taka 80 millj. af þessum aðilum, þannig að verðfallið, sem getið var um, er þá a.m.k. sem svarar því ef vantar til þess fjármagn. En ég er vissulega tilbúinn að endurskoða þá afstöðu mína, verði lögð fram gögn sem sanna að það muni vanta verulegt fjármagn í þennan sjóð. Og ef það er staðreynd að það vanti jafnvel í dag fjármagn í þennan sjóð, þá þætti mér rétt að taka þessar upphæðir til endurskoðunar. Það er sem sagt ekki spurning hér um það hvort það er vel gert við verksmiðjur, hvort það er vel gert við einn eða neinn, það er aðeins um það að ræða að móta þarna skynsamlega stefnu, því að væntanlega gæti komið að því í framtíðinni að slíkt yrði gert aftur.