14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að skýra afstöðu mína sem stjórnarmanns í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, kosinn af Alþ. Ég er þar nýliði og ég hlaut að taka verulegt mið af hinum reyndari og eldri mönnum þar og alveg sérstaklega þeim sem geta með réttu bent á að þessi sjóður er stofnaður á sínum tíma, 1955, með samkomulagi milli atvinnurekenda og launþegasamtakanna. Þegar fulltrúar þessara aðila lögðu til ákveðnar ákvarðanir í þessu, þá fannst mér sem nýliða, að það sæti ekki á mér að vera að setja mig á háan hest. Ég er hins vegar ákaflega hlynntur þeirri hugmynd sem þarna kemur fram, en sem stjórnarmaður í þessari stofnun, án þess að Alþ. hafi fyrir fram gefið mér skipun um það af því að ég er þaðan kosinn, þá tel ég samt að þetta sé í verkahring annarra. Ég bendi á að það eru miklu fleiri konur sem eiga vissulega rétt á því sem hér er farið fram á, og ég vil nú bæta við, þar sem alltaf er verið að tala um fæðingarorlof og án þess að draga nokkuð úr því sem þar er haldið fram, að þær konur, sem taka að sér kornabörn, eiga líka að mínum dómi vissan rétt til þess að geta verið samvistum við sín börn nokkrar vikur eða mánuði á eftir. Og í kringum okkur er jafnvel talin nauðsyn að konur séu samvistum við börn sín allt að 9 mánuði eftir fæðingu eða að þær taki þau að sér.

Ég held hér hafi, herra forseti, verið minnst sérstaklega á sveitakonurnar. Ég viðurkenni að þær geti verið samvistum við sín börn fremur en þær konur sem þurfa að vinna í þéttbýlinu úti við. En það getur verið erfitt samt sem áður fyrir þær að leysa þetta mál þarna án aðstoðar. Og vissulega er það eitt af grundvallaratriðum í bættri félagsmálaþjónustu okkar að gera konum auðveldara að vera heima og stunda sín börn, ekki aðeins nokkrar vikur, heldur nokkra mánuði eftir fæðingu.

Það var álit fulltrúa launþegasamtakanna og atvinnurekenda í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að þetta væri ekki samkv. því samkomulagi sem gert var 1955. Við þá hefur ekki verið talað um þetta, má vera að það hafi verið mistök, en ég lýsi því hins vegar yfir að þó að þetta sé sterkur sjóður, þá er hans handbæra fé ákaflega takmarkað. Stjórnin var að gera rammaáætlun um úthlutun til fiskveiðanna, þar með fiskiðnaðarins, til sveitarfélaganna, þar eru fyrst og fremst hafnir, vatnsveitur og hitaveitur, til iðnaðarins, verslunar og orlofsheimila alþýðusamtakanna. Við höfum hins vegar ekki þorað, nánast ekki þorað að úthluta nema sáralitlu til þessa af ótta við það að ef til atvinnuleysis kæmi, þá streyma milljónatugir út á viku og þá þýðir ekkert fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð að eiga góð verðbréf og tryggingar í fasteignum. Hann verður að eiga handbært fé. Það er þetta sem ég aðeins vil vara við, að þegar lagðar eru á sjóðinn nýjar skuldbindingar sem ég held að raunverulega fáir séu sammála um hvað muni í felast, en er á vissan hátt réttmætt að komist í framkvæmd, hverjir sem eiga að greiða þær, þá þurfi að hugsa dæmið til enda. Ég tek fram að það er ekki búið að lofa neinum af þessum lánveitingum, en þessi hugsun á skiptingu þessa innan við 240 millj. lánsfjármöguleika, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur, hlyti að raska þeim ramma sem þar var hugsaður til skiptingar. Látum það vera út af fyrir sig. En það getur hins vegar leitt af sér vissa erfiðleika annars staðar sem menn sjá ekki fyrir í dag. Og ég er sannfærður um að enginn úr stjórn sjóðsins getur í dag treyst sér til þess að segja að meira að segja þessi rammi fái staðist því að samkv. grundvallarreglum þessa sjóðs verður hann að standa undir greiðslum ef til atvinnuleysisbóta kemur. Það er nr. 1. Nr. 2 og það sem ætti að vera aðalhlutverkið er að vera fyrirbyggjandi fyrir atvinnuleysi og að því hefur sjóðurinn, að mér skilst, miðað starfsemi sína til þessa og reynt að haga sínum lánveitingum samkv. því.

Ég vildi aðeins, herra forseti, vekja athygli á þessu við 1. umr. Þetta var einróma afstaða stjórnar sjóðsins, af ótta við að ástandið væri þannig í dag að það væri vissara að fara að öllu með gát. Ég mundi telja allt annað mál ef þetta þyrfti ekki að taka gildi á þessu ári þannig að það væri hægt að skapa möguleika til þess að hafa lengri tíma til þess að átta sig á því að þarna væri komið nýtt viðfangsefni. En ég tek það fram að ef það er vilji Alþ. að Atvinnuleysistryggingasjóður taki þetta að sér, þá bregð ég ekki fæti fyrir framgang málsins.