14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4105 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það mun rétt, eins og síðasti ræðumaður sagði, að hér er hreyft réttlætismáli út af fyrir sig sem slíku, en ef við lítum á grg. stendur í 1. málsgr.:

„Allir viðurkenna nú á dögum að þriggja mánaða fæðingarorlof hið minnsta sé nauðsynlegt til að tryggja heilsu nýfædds barns og móður þess.“

Hvers vegna er þá verið að leggja til að aðeins hluta af þeim konum, sem fæða börn, sé tryggt þetta sem frv. gerir ráð fyrir? Hvers vegna er verið að leggja það til þá? Ég verð að segja það að ég tel miklu eðlilegra, ef þetta er viðurkennd staðreynd í dag í þjóðfélaginu, að stytta þá tímann úr 90 dögum í 2 mánuði t.d. og veita þetta öllum konum. Ég gagnrýndi það hér í vetur að við værum hér æ ofan í æ með frv. sem við kölluðum réttarbót, en það væri í raun og veru verið að mismuna þegnum þjóðfélagsins æ ofan í æ með því að veita aðeins vissum hluta þegnanna aukinn rétt. Þá erum við í eðli sinu að mismuna þegnunum. Og ég vil spyrja þá sem harðast tala fyrir þessu frv., hér stendur í 1. gr., það er reyndar ein málsgr. aðalfrv. og svo um gildistöku: „Þá skulu þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, njóta atvinnuleysisbóta í 90 daga.“ En kona sjómannsins? Er það ekki vinna fyrir hana að vera ein á heimilinu með mörg börn og maðurinn langdvölum í burtu? Hvað er meiri vinna? Mætti maður líka minna á vinnu bóndakonunnar sem tekur yfirleitt í dag, þrátt fyrir mjög mikla tæknivæðingu í búskapnum, mikinn þátt í framleiðslunni, og er það ekki lífsnauðsynleg réttarbót fyrir þá konu að fá 60 daga í staðinn fyrir ekki neitt? Ef kostnaðurinn er, eins og hér hefur komið fram, um eða yfir 100 millj. á þessar 700 konur, haldið þið að þjóðfélagið kikni þá undna því að veita öllum konum, sem eftir eru, fæðingarorlof í 2 mánuði og viðurkenna það sem sæmilegan áfanga og lögin taki gildi 1. jan. 1976? Ætli það sé ekki meiri sómi í því fyrir hv. þm.? Ég trúi því ekki að þetta verði afgr. eins og það liggur fyrir núna til 1. umr. hér í Ed. Ég trúi því ekki, og ég beini því til síðasta ræðumanns, sem er form. í heilbr.- og trn. að hann athugi þennan möguleika mjög vel og þá getum við tryggt á komandi hausti nægilegt fjármagn fyrir allar konur sem njóta ekki fulls fæðingarorlofs í dag, þ.e.a.s. þær konur sem eru ekki í þjónustu hins opinbera, fæðingarorlof í 2 mánuði, og það eru miklu sómasamlegri vinnubrögð en að rétta sumum konum, þó að þær séu vel að því komnar út af fyrir sig, þennan áfanga og gleyma öllum hinum. Það hlýtur að vera miklu geðfelldara fyrir alla landsmenn eða alla hv. alþm.

Það á ekkert að blanda hér inn í hvað Atvinnuleysistryggingasjóður er í sjálfu sér. Þó að hann sé í þessu frv. sem tekjuöflunarleið til þess að borga fyrir þessar konur, þá eru æðimargir sem gera tilkall til þessa sjóðs og réttinda sem hann veitir. Og hvað um fátæka heimilið ef hann hefði ekki nægilegt fjármagn í atvinnuleysi? Hvað um fátæka heimilið ef það finnur til öryggisleysis? Skapar það ekki vanlíðan með einu eða öðru móti, — ég er hræddur um það og það og það mikla vanlíðan að það gæti orðið alvarlegt mál fyrir það heimili, bæði foreldrana og börnin, ef fyrirvinna heimilisins hefur ekki nægilegt að bíta og brenna? Hér er ekkert smámál á ferðinni, að tryggja ekki nægilegar tekjur samtímis því sem við leggjum á sjóðinn miklar kvaðir.

Það er svo um mörg góð mál að það vill enginn vera á móti þeim, jafnvel þó að þau leysi ekki nema hluta af vandanum, en kunni að skapa verulega aukinn vanda um leið og við föllumst á svona einfalda lausn, — vanda, sem er alls ekki eftirsóknarvert að búa til — öðru nær.

Ég vildi aðeins, herra forseti, vekja athygli á þessu í upphafi þessa máls, þar sem það er orðið það áliðið þingtímans og e.t.v. á að keyra það í gegn óbreytt. Ég er mjög óánægður með slík vinnubrögð og legg eindregið til að n. athugi gaumgæfilega hvað það muni kosta að veita öllum konum fæðingarorlof í 2 mánuði og hvað það væri mikið álag fyrir tryggingakerfið hjá okkur að takast slíkt á hendur. E.t.v. mætti skipta byrðinni eftir fleiri leiðum á fleiri bök. En ég vil eindregið mælast til þess að þessi leið sé rækilega athuguð því að frv., eins og það liggur fyrir núna, veitir vissum konum að vísu mikilvæg og eftirsóknarverð réttindi, en forsenda þess er, eins og segir í grg., 1. málsgr., að tryggja heilsu nýfædds barns og móður þess og það er mat allra manna að það sé nauðsyn. Það á ekki að skilja neinn hóp eftir, heldur verður þá að ná 3 mánaða orlofinu — við skulum segja í tveimur áföngum. Það eru að mínu mati skynsamlegri vinnubrögð en að afgr. þetta mál nú í skyndi.