14.05.1975
Efri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4108 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg, það er 15. maí. Málinu var vísað til n. skömmu fyrir jól og þá rætt á tveimur fundum n., en afgreiðslu þá frestað vegna óska um að senda málið til umsagnar Framkvæmdastofnunar, Seðlabanka Íslands og viðskiptabankanna. Umsagnir þessara aðila bárust svo um, eftir að þing kom saman að nýju eftir þinghlé.

Þessi fjáröflunarleið hefur nú verið notuð um alllangt skeið hér á landi, en síðustu árin hefur það verið fyrst og fremst til öflunar fjármagns til vegagerðar, fyrst til þess að ljúka við hringveginn á Skeiðarársandi, en síðan við lagningu Djúpvegarins. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að halda áfram á þessari sömu braut og hv. Alþ. hefur nú farið síðustu árin.

Í lögum um fjáröflun til vegagerðar, sem sett voru á s.l. sumri, er gert ráð fyrir heimild til þess að halda áfram að gefa út happdrættisskuldabréf í því skyni að afla fjár til hringvegar um landið. Það sem liggur til grundvallar þessu er að Alþ. vill leggja áherslu á þann áfanga sem það telur vera næstan í vegagerð, þ.e.a.s. eftir að tengingu er lokið á Skeiðarársandi. Það er annars vegar að halda áfram gerð vega með bundnu slitlagi, eins og þegar hefur verið byrjað á, og hins vegar að byggja jafnframt upp þá kafla hringvegarins sem helst er hætta á að lokist, svo að reynt sé að tryggja eins og unnt er að hægt verði að halda honum opnum allt árið. Um nauðsyn þessara verkefna munu ekki vera mikið skiptar skoðanir.

Í nál. fjh.- og viðskn. er bent á að það sé eðlilegt að líta á hringveginn sem eina heild og því sé að sumu leyti ekki rétt að taka út einstaka kafla hans. En þar sem það mun verða veitt til hans á næstu árum meira fjármagn en aflað verður á þennan hátt, þá ætti að vera hægt að ráðstafa því í þá kafla sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frv. eftir því sem ástæða þykir til.

Í n. kom hins vegar fram sú skoðun að það væri þörf á að athuga kosti og galla þessarar aðferðar við fjármagnsútvegun, a.m.k. áður en farið væri út í það að nota þessa fjáröflunarleið til annarra hluta, þar sem hún hefur tvímælalaust sína kosti og galla. Það sem einkum er rætt um í því sambandi er verðtryggingin og svo vextir í formi happdrættisvinninga. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að vexti megi greiða bæði í formi happdrættisvinninga og á venjulegan hátt, og það kom fram í n. að það væri eðlilegt að nota þá heimild. Það hefur nokkuð verið rætt um það að verðtrygging valdi því að þarna sé verið að binda stóra bagga fyrir framtíðina, en sú stefna virðist nú eiga vaxandi fylgi að fagna að taka upp verðtryggingu lána almennt í nokkrum mæli, þannig að þetta hefur þá ekki orðið eins mikla sérstöðu og áður.

Eins og ég sagði áðan er heimild í lögum um fjáröflun til vegagerðar um útgáfu happdrættisskuldabréfa til fjáröflunar til hringvegar. Með þessu frv. má því segja að Alþ. sé fyrst og fremst að lýsa því yfir í hvað ríkum mæli það vilji að þessi heimild sé notuð á næstu fjórum árum, til ársins 1979, án þess þó að það sé í þessu frv. bundið um of við hvert ár þar sem það hlýtur að fara að einhverju leyti eftir ástandi í þjóðfélaginu að öðru leyti hversu langt verður gengið. Í þeirri vegáætlun, sem liggur fyrir Alþ. er gert ráð fyrir að aflað sé 300 millj. kr. á þennan hátt.

Fjh: og viðskn. mælir með samþykkt frv. eins og það kom frá hv. Nd. Ragnar Arnalds og Jón G. Sólnes voru fjarstaddir afgreiðslu málsins, en Albert Guðmundsson skrifar undir nál. með fyrirvara sem hann væntanlega gerir nánari grein fyrir hér í umr.