14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

284. mál, lán vegna Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Með lagafrv. því, sem hér liggur fyrir, er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að taka erlent lán að jafnvirði 1 260 millj. kr. Til lántöku þessarar er stofnað til að greiða þann hluta af skuld ríkissjóðs á viðskiptareikningi við Seðlabankann sem til hafði orðið í árslok 1974 vegna skulda Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins við ríkissjóð. Síðar á þessu þingi, þ.e.a.s. n.k. föstudag, mun verða lagður fram A-hluti ríkisreiknings fyrir árið 1974. Af honum má sjá að skuld ríkissjóðs á viðskiptareikningi í Seðlabankanum nam 2.9 milljörðum kr. um s.l. áramót. Af þessari fjárhæð er tæplega helmingurinn vegna tveggja fyrirtækja, þ.e. 931 millj. kr. skuld sem til varð á s.l. ári vegna rekstrar og framkvæmda Rafmagnsveitna ríkisins umfram fjárhagsáætlun og 326 millj. kr. lausaskuldir Vegagerðar ríkisins sem safnast höfðu upp á undanförnum árum án þess að frá þeim væri gengið á formlegan hátt. Til þess að ríkissjóður gæti staðið undir þessum skuldbindingum endurlánaði Seðlabankinn ríkissjóði fé af svokölluðu olíuláni sem tekið var hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á s.l. ári. Frá þessum skuldum þarf að ganga og til þess er leitað heimildar Alþ. með frv. þessu.

Ég vil svo, hæstv. forseti, leggja til að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.