14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Vinnubrögðin hér á síðustu dögum þingsins eru ákaflega ruglingsleg og undarleg, eins og oft vill verða þegar þingi lýkur, og ekki laust við að einstakir hæstv. ráðh. noti þetta tækifæri til þess að ýta á eftir málum á annarlegan og óeðlilegan hátt. Því máli gegnir um þetta frv. til l. um Viðlagatryggingu Íslands. Það var lagt fram á þingi fyrir tiltölulega fáum dögum og Ed. Alþ. fékk ekkert ráðrúm til þess að ræða það við neina sérfræðinga eða senda það neitt til umsagnar. Henni var fyrirskipað að afgreiða málið án nokkurra slíkra vinnubragða og það var gert í Ed.

Ég fór þess á leit við form. heilbr.- og trn. í Nd., hv. þm. Jón Skaftason, að þegar málið kæmi til umr. hjá okkur yrðu kvaddir til tveir sérfróðir menn, form. Viðlagasjóðs, Helgi Bergs, og Erlendur Lárusson tryggingastærðfræðingur sem er formaður Tryggingaeftirlits ríkisins. Og hv. þm. Jón Skaftason var svo vinsamlegur að hann varð við þessari beiðni og þessir tveir sérfróðu menn mættu á fundi n. og gerðu grein fyrir mati sínu á frv. Það var að sjálfsögðu mat þeirra, eins og er mat okkar allra hv. alþm., að mikil nauðsyn sé að setja á laggirnar stofnun af þessu tagi, um það er enginn ágreiningur. Hins vegar gerðu þeir athugasemdir við að ég hygg aðra hverja grein frv. og bentu þar á atriði sem voru þess eðlis að allir nm. töldu einsætt að það yrði að gera breytingar á þeim. Þegar þessir tveir sérfræðingar voru búnir að gera grein fyrir sinu máli komu fram óskir um það í n, að einn eða fleiri af höfundum frv. kæmu á næsta fund til þess að ræða einmitt þessar athugasemdir svo að við nm. gætum kynnst mati sérfræðinga frá báðum hliðum, ef þarna væri um að ræða ágreiningsatriði. En þá gerðust þau tíðindi að það komu fyrirmæli frá hæstv. ríkisstj. um að ekki mætti breyta einum einasta stafkrók í þessu frv. Það mátti ekki gerast að frv. færi aftur til Ed., það skipti engu máli hvers konar breyting það var. Þetta eru vinnubrögð sem ég vil mótmæla algjörlega. Með þessu er verið að sýna Alþ. alveg staka óvirðingu, gera Alþ. að ómerkilegri afgreiðslustofnun. Og satt að segja er það furðulegt að þessi hæstv. ráðh., sem hefur ekki komið því í verk á tveimur mánuðum að svara einfaldri fyrirspurn sem Nd. Alþ. heimilaði að hann svaraði, skuli teljast þess umkominn að skipa alþm. fyrir um vinnubrögð af þessu tagi. Ég er alveg undrandi á því að alþm. skuli sætta sig við slíkar fyrirskipanir frá ráðh.

Ég skal láta getið nokkurra þeirra athugasemda sem fram komu frá þessum sérfróðu mönnum sem ég var að greina frá hér áðan, til þess að menn átti sig á um hvað er hér að ræða.

Það var bent á það í sambandi við 4. gr. að það er talað um að vátryggja skuli gegn beinu tjóni af völdum eftirtalinna náttúruhamfara:

eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Þessi trygging er ekki látin ná til ofviðra og skýrt með því að erfitt sé að skilgreina hvað ofviðri er. En ég held að það sé engan veginn neitt erfitt að skilgreina það. Ég held að það sé mjög auðvelt í samráði við Veðurstofu Íslands og í sambandi við þann mælakost, sem nú er kominn upp víðs vegar um land, að skilgreina slíkt, og ég held að í tryggingu af þessu tagi eigi ofviðri alveg tvímælalaust heima.

Í 5. gr. eru ákvæði sem vert er að vekja alveg sérstaka athygli á. Þar stendur: „Tryggingarskyldan nær einnig til lausafjár.“ Tryggingin er látin ná til húseigna og lausafjár. Eins og menn vita er brunatrygging af húseignum skyldutrygging, en komið er undir mati hvers um sig, hvernig hann tryggir lausafé sitt. Sumir tryggja lausafé sitt sómasamlega, aðrir vantryggja það mjög stórlega eins og menn vita. Ef þessi gr. stæði eins og hún er þarna mundi það gerast, t.a.m. í sambandi við atburði eins og þá sem gerðust í Vestmannaeyjum, að t.a.m. annar hver íbúi fengi lausafjármuni sína bætta sæmilega að fullu, en annar hver íbúi ekki, Dettur nokkrum manni í hug að þannig sé hægt að standa að þegar um náttúruhamfarir er að ræða eða um hamfarir eins og t.d. í Neskaupstað í sambandi við snjóflóð, að þetta fari eftir því hvort menn hafa haft framsýni eða framtak í sér til þess að tryggja lausafjármuni á eðlilegan hátt eða ekki? Ég tel að þessi athugasemd eigi greinilega fullan rétt á sér.

Það komu fram aths. við 8. gr. um það hversu fljótt þessi sjóður ætti að vaxa. Það er vafalaust álitamál hvernig á það ber að líta og hefði verið eðlilegt að menn hefðu fengið eitthvert ráðrúm til að gera það upp við sig. Ég skal ekki fara að rekja röksemdirnar fyrir því að sjóðurinn vaxi örar en þarna er gert ráð fyrir. Það voru veigamiklar röksemdir, en það hefði vafalaust átt að koma með röksemdir þar á móti.

Í 9. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Telji vátryggður að gerst hafi bótaskyldur tjónsatburður skal hann tilkynna það vátryggingarfélagi því, er selt hefur honum vátrygginguna, svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi innan 30 daga frá því að atburðurinn gerðist. Geri hann það ekki er niður fallinn allur réttur hans til bóta.“

Ég tel ákaflega hæpið að setja ákvæði af þessu tagi um að rétturinn falli niður ef hann sé ekki tilkynntur formlega innan 30 daga. Ef um er að ræða meiri háttar náttúruhamfarir þar sem um er að ræða almenna ringulreið og hugur manna er bundinn við allt annað en ýmislegt slíkt, þá getur það áreiðanlega misfarist hjá fólki að tilkynna á formlegan hátt um slíkt innan 30 daga. Ég tel að við eigum ekki að hafa slík ákvæði í lögum sem geta leitt til þess að fólk, sem getur verið miður sín af mörgum ástæðum í sambandi við náttúruhamfarirnar, hafi ekki komið því í verk að fullnægja þessum formlegu kröfum.

Í 10. gr. er búin til ný n. sem ber hið merkilega nafn hamfaranefnd. Það er kannske ekki alveg út í hött að n., sem tengd er hæstv. ráðh. Matthíasi Bjarnasyni, geti borið nafnið hamfaranefnd. En í 14. gr. er svo önnur n. Hún heitir uppgjörsnefnd. Þarna er sem sé um tvær n. að ræða, 3 menn í hvorri og 3 varamenn í hvorri, 12 menn. Er nokkur ástæða til þess að hafa tvær n. í þessu? Er ekki miklu einfaldara að hafa bara eina nefnd, hvort sem menn kalla hana uppgjörsnefnd eða hamfaranefnd. Það skiptir ekki máli, En mér finnst þarna verið að búa til skriffinnskukerfi sem er algjörlega ástæðulaust. Mér finnst að þarna eigi að vera um eina og sömu nefnd að ræða.

Það kom fram í þessum athugasemdum að mönnum fyndist að tryggingafélögin ættu að bera einhverja ábyrgð, einhverja sjálfsáhættu, í þessu sambandi. Það er líka atriði sem ég tel að ástæða sé til þess að gefa gaum.

Í 13. gr. frv. er ákvæði sem er algjörlega fráleitt og brýtur í bága við eðlileg tryggingasjónarmið og heilbrigða skynsemi. Segir svo í 13. gr.: „Heimilt er að lækka eða synja alveg um bætur: a) þegar hús, sem tjón verður á, er reist á stað sem almennt var vitað fyrir fram að var hættulegur með tilliti til snjóflóða, skriðufalla eða vatnsflóða“ og einnig „þegar styrkleiki húss, byggingarlag og byggingarhættir eru óforsvaranlegir miðað við þær aðstæður, sem algengar eru á byggingarstað, og ljóst er að tjón hefur orðið meira af þessum sökum.“

Þarna á að synja um bætur. En auðvitað er ekki hægt að hafa þennan hátt á. Slíkum húsum verður að synja um tryggingu. Það verður að synja þeim um tryggingu. Það er ekki hægt að bjóða upp á það að fólk borgi iðgjald árum saman af slíkum fasteignum, en síðan verði það fyrir tjóni og fólkið fer og ætlar að sækja bætur sínar, en þá er því neitað um þær. Ef þarna á að vera um einhverja slíka undantekningu að ræða, þá verður hún að ná þannig til að þetta fólk borgi ekki tryggingu. Fyrst það fær ekki að njóta tryggingarinnar á það ekki að greiða til hennar. Það liggur í hlutarins eðli. Um þetta voru allir nm. að sjálfsögðu sammála og það eru firn mikil ef það má ekki breyta ákvæði eins og þessu.

Í sambandi við 17. gr., þar stendur: „Bótaskylda Viðlagatryggingar Íslands vegna hvers tjónsatburðar takmarkast við 5 0/00 af heildarvátryggingarfjárhæð í upphafi hvers árs. Nemi heildarfjárhæð bótaskyldra tjóna vegna eins tjónsatburðar hærri fjárhæð skal hlutur allra tjónþola skerðast í sama hlutfalli.“

Þetta held ég að sé illframkvæmanlegt og ástæða til þess að kanna nánar hvernig á þessu skuli haldið.

18. gr. ber það með sér að ákvæði hennar eru ekki miðuð við stórslys ein og þau sem því miður hafa yfir okkur dunið á seinustu árum, og ég tel það einnig hæpið að trygging af þessu tagi geti ekki tekið til slíkra stóratburða.

Í 21. gr. er ákvæði um það að Viðlagatrygging Íslands eigi að taka við eignum og skuldum Viðlagasjóðs hinn 1. jan. 1977. Mér sýnist það vera einsætt að Viðlagatrygging Íslands á þegar í stað að taka við störfum af Viðlagasjóði. Viðlagasjóður kemur sem betur fer til með að eiga allverulegar eignir. Þó að rekstrarfjárstaðan sé erfið, þá á hann allverulegar eignir. Og mér finnst einsætt að þessi nýja stofnun taki við störfum Viðlagasjóðs um leið og hún tekur til starfa. Og alla vega þarf að fella úr gildi þegar í stað 6. gr. laga nr. 5 frá 28. febr. nú í vetur, gr., sem við erum nýbúnir að samþ. hér á hinu háa Alþ., en þar segir að Viðlagasjóður verði að bæta tjón sem verða af öðrum ástæðum en þeim sem okkur er kunnugt, þ.e. eldgosin í Vestmannaeyjum og snjóflóðin á Neskaupstað, þ.e.a.s. við erum áður á þessu þingi búnir að fela Viðlagasjóði slíkt verkefni. Það er auðvitað algjörlega fráleitt að verkefni af þessu tagi séu höfð í tveimur sjóðum og lágmarksnauðsyn að þetta ákvæði verði fellt úr lögunum um Viðlagasjóð.

Þetta eru þau atriði sem sérfræðingarnir gagnrýndu við okkur, og ég hygg að þm. allir hljóti að geta orðið sammála um að þarna er vikið að svo veigamiklum þáttum að það er ótækt með öllu að ætlast til þess að þetta frv. verði afgr. á þennan hátt á þessu þingi án þess að það megi breyta stafkrók. Ég er alveg sannfærður um að hv. heilbr.- og trn., sem hefur unnið myndarlega í allan vetur, mundi treysta sér til þess að sníða verstu agnúana af þessu frv. á tiltölulega skömmum tíma eftir þær ábendingar sem komið hafa ef hún fengi leyfi til þess. En hún hefur ekki fengið slíkt leyfi hingað til og því vil ég skírskota til hv. alþm. hvort þeir telji vinnubrögð af þessu tagi eðlileg.

Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að hér er um að ræða algera nauðsyn sem allir þm. hljóta að vera sammála um. Hins vegar breytir það ákaflega litlu hvort við samþ. þetta frv. núna eða á þinginu í haust og látum endurskoða það í sumar með tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Ég held að það skipti meira máli, að þessi trygging, sem við erum þarna að koma á laggirnar, verði traust og standi undir verkefnum sínum, en að reynt sé að hraða þessu í gegnum þingið á ákaflega óeðlilegan hátt.