14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það hefur nú gerst sem enginn bjóst raunar við að hæstv. ráðh., sem er ráðh. yfir þessum málum sem verið er að ræða, er kominn í salinn aftur. En með því að hann er nú aldrei þessu vant að hlusta á umr. um sín mál, þá langar mig til að segja um þetta mál örfá orð og þarf ekki að vera langorður vegna þess að hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, gerði grein fyrir þeim aths. sem Helgi Bergs og Erlendur Lárusson komu á framfæri við nefndina.

Þetta frv. hefur verið nokkuð til umr. í stjórn Viðlagasjóðs. Stjórnin bjóst reyndar við því að það yrði sent Viðlagasjóði til umsagnar og var þess vegna búin að ræða frv. nokkuð og þær aths., sem hv. 3. þm. Reykv. gerði hér grein fyrir frá Helga Bergs, voru niðurstöður okkar stjórnarmanna í Viðlagasjóði varðandi þetta frv.

Ég hygg að flestir ef ekki allir alþm. séu samþykkir því að þetta frv. fái afgreiðslu og ég er alveg viss um að það er engin hætta á því að þetta frv. dagi uppi þótt það fari nú aftur til n. til nánari skoðunar og verstu agnúarnir verði sniðnir af. Ég er viss um að allir hv. þm. í mínum flokki og væntanlega þm. stjórnarflokkanna muni leggjast á eitt og hjálpa til að þetta frv. hljóti afgreiðslu nú þegar á þessu þingi, ef tillit verður tekið til þeirra aths. sem borist hafa um frv. frá hæfum mönnum.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti hér ákaflega sérkennilega ræðu áðan. (Gripið fram í: Auðvitað.) Og það er reyndar ekki fyrsta ræða hans sem er dálítið öðruvísi en almennir þm. halda og þá ekki aðeins fyrir sérstakan málflutning, heldur fyrir einstaklega furðulegar skoðanir og merkilegar fullyrðingar.

Þessi hv. þm. talar um að það sé ekki verið að hraða þessu máli óeðlilega í gegnum þingið. Það sér hver maður að það er verið að þræla þessu áfram nú á síðustu annadögum þingsins og það er hreinlega bannað að gera við það nokkrar aths. Ef þetta er ekki óeðlileg meðferð, þá er ekki til óeðlileg meðferð á lagafrv. Það gefur auga leið og það er alveg sama hversu margir færu hérna í stólinn og segðu að þetta væri eðlilegt, það er óeðlilegt samt.

Í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar nefnir hann Helga Bergs bankastjóra, það sé ekki svo merkilegt að kalla á fund n. bankastjóra til þess að gefa leiðbeiningar um meðferð slíks máls. Helgi Bergs kemur ekki á þennan fund sem bankastjóri Landsbankans, heldur sem formaður stjórnar Viðlagasjóðs, og hefur meiri reynslu í meðferð slíkra mála en nokkur maður hefur vegna þess að hann hefur glímt við þessi erfiðu verkefni, sem Viðlagasjóður hefur átt að annast, allt frá því að eldgosið hófst í Vestmannaeyjum. Þar er ekki á ferðinni bankastjóri Landsbankans, þar er einfaldlega á ferðinni forstöðumaður stofnunar sem hefur einmitt verið að fjalla um mál sem eru náskyld þessu frv., formaður stofnunar sem á að falla síðan inn í væntanlega stofnun sem lagt er til að komið verði á fót með þessu frv. Aths. slíks manns hljóta að vega mjög þungt. Ég held að flestir hv. alþm. hljóti að samþ. það. Og ég vil einnig benda á að það, sem Helgi Bergs hafði um þetta mál að segja í n., er afrakstur þeirra umr. og þeirrar skoðunar sem frv. fékk hjá stjórn sjóðsins sem hefur einnig veríð að fjalla um þetta mál.

Hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni þótti engin ástæða til að kalla á neina sérfræðinga á fundinn og þm. hefðu ekki þurft neina aðstoð. Ég er ekki að halda því fram að hv. nm. séu neitt verri, síður en svo, en aðrir hv. þm. Hins vegar leyfi ég mér að draga mjög í efa að hv. nm. hafi svo mikla þekkingu í þessu máli að þeir þurfi ekki á neinum leiðbeiningum eða aths. að halda, að þeirra dómgreind ein sé nægileg til þess að gera þetta mál upp við sig.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði, eins og ég bjóst reyndar við af honum, að honum þættu aths. færustu og völdustu manna í þessum efnum ákaflega léttvægar og einfaldar, tæknilega einfaldar. Við hv. þm. vitum allir að honum vaxa ekki erfið mál í augum, þessum hv. þm., hvorki tæknileg né annars eðlis. Hitt er annað mál, að það gefur ósköp einfaldlega auga leið að það hlýtur að verða til þess að mál fái betri meðferð ef til eru kvaddir menn sem hafa unnið að þeim málum, mennirnir, sem sömdu frv., og aðrir slíkir menn sem geta orðið til þess að bæta frv.

Ég vil lýsa því yfir hér sem minni skoðun, að mér finnst frv. í höfuðatriðum allgott og ég vil leggja á það áherslu að það fáist samþykkt hér sem fyrst. Ég segi fyrir mig og ég held mér sé óhætt að tala fyrir alla stjórn Viðlagasjóðs að ég held að við værum ósköp fegnir að losna heldur fyrr en seinna út úr því verkefni sem við höfum glímt við. Þeim mun fyrr sem hægt er að ganga frá öllum lausum endum í þeim málum þeim mun betra. Hitt er svo annað mál að menn hafa bent hér á mjög greinilega ágalla sem er auðvelt að laga, og ég held að ég megi fullyrða að brtt. við þetta frv. séu tilbúnar. Þær eru tilbúnar. Allar hugmyndir, sem komið hafa fram við skoðun frv., eru komnar meira eða minna á blað og ég hygg að það taki mjög stuttan tíma að semja brtt. og er viss um að ef þetta mál fengi skynsamlega meðferð og yrði vísað aftur til n. sem fengi síðan til sín bæði höfunda frv. og þá menn sem hafa unnið að slíkum hlutum og kæmu til n. með sínar hugmyndir, þá væri ekki lengi verið að setja saman hóflegar brtt. Ég er enn vissari um að allir hv. þm. munu leggjast á eitt í því að koma málinu í gegn, jafnvel á þessu þingi þó að stuttur tími sé eftir. Og ég vil eindregið mælast til þess að n. fái málið aftur í hendur, að n. fái til sín höfunda frv., að n. ræði við sérfræðinga í þessum efnum, að n. geri fljótt nauðsynlegustu brtt. og að n. skili þeim til þingsins svo fljótt að málið geti fengið eðlilega afgreiðslu.