14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4139 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

209. mál, félagsráðgjöf

Frsm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. var lagt fram á síðasta reglulega þingi og hafði þá verið samið samkv. ítrekaðri ósk Stéttarfélags ísl. félagsráðgjafa. Það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi,m.a. vegna þess að þá var dregið í efa hvort það væri formlega rétt að heilbr.- og trmrh. flytti slíkt frv., hvort það ætti ekki fremur heima hjá félmrh. En það virðist nú vera orðin samstaða um að það sé eðlilegt að það eigi heima hjá heilbrrn. Við töldum að vísu í heilbr: og trn. að gerðar hefðu verið breytingar á frv. í Ed. sem varla væru til bóta, auk þess fannst okkur síðasta setningin í 3. gr. ekki fullkomlega viðkunnanleg. Þar er veitt heimild til þess að veita takmarkað og tímabundið starfsleyfi fólki sem er í starfi, en hefur ekki lokið fullu námi. Mér finnst það vera hálfleiðinlegt að fólkið, sem hefur starfað í þessu og er búið að fá í því langa reynslu og hefur reynst hæft í sínu starfi, skuli ekki fá að kalla sig þessu starfsheiti á þeim tíma sem líður á meðan þau ákvæði eru að komast í fullt gildi að menn verði að hafa lokið tilteknu námi. Engu að síður erum við í n. það hlynntir því að verða við óskum hæstv. heilbr: og trmrh. um að málið nái fram að ganga á þessu þingi að við mælum einróma með því að það verði samþ. Ef menn kunna að vilja gera breytingar á þessum atriðum sem ég hef vikið að, þá er hægt að gera það síðar. N. mælir sem sé með frv.