14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4153 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka formanni fjh.- og viðskn. þessarar d. fyrir það hversu ljúfmannlega hann vékst undir bón okkar samtakamanna að leyfa að við fengjum að fylgjast með meðferð þessa máls í n. Í þessari n. var sannarlega, eins og síðasti ræðumaður lýsti nokkuð, að mörgu leyti ákjósanleg samvinna og vinnubrögð sem ég vil telja til fyrirmyndar. Ég álít að þar hafi fulltrúar þjóðarinnar leitast við að tryggja almannahagsmuni, hagsmuni heildarinnar, eins og kostur var gagnvart stórri skuldbindingu í þágu umfangsmikils einkafyrirtækis. Niðurstaðan af þessu starfi liggur fyrir í nál. hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hl. leggur auk þess til að áður en ríkisstj. notar heimild frv. um ríkisábyrgð til Flugleiða hf. undirriti stjórn Flugleiða hf. svofellda yfirlýsingu vegna ríkisábyrgðar á láni til Flugleiða hf.“ Og síðan kemur yfirlýsingin, sem hv. frsm. rakti.

Þarna liggur fyrir ótvíræður vilji nm. og nú vil ég fara þess á leit að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að tjá sig um það í þessum umr. hvort ríkisstj. fyrir sitt leyti ætlar að verða við þessu — við þeim vilja n. að setja þá skilmála sem tilgreindir eru í nál. fyrir ríkisábyrgðinni í þágu Flugleiða hf. Ég tel það skipti mjög miklu fyrir afstöðu manna til þessa máls að það liggi fyrir skýrt og skilmerkilega að hér sé ekki aðeins vilji n. á ferðinni, heldur sé það ásetningur hæstv. ríkisstj. að virða þann vilja og fara eftir honum.

Þær þrengingar, sem Flugleiðir hafa lent í á undanförnum árum og eru forsendan fyrir því að beðið er um stórfellda ríkisábyrgð fyrirtækinu til handa, eru beint framhald af því sem þegar var farið að gæta á flugmarkaði fyrir tveim-þrem árum og var þá til þess ásamt sérstaklega heiftúðugri samkeppni Loftleiða og Flugfélags Íslands á Norðurlandaleiðum að þáv. ríkisstj. beitti sér fyrir sameiningu flugfélaganna í það fyrirtæki sem hlaut nafnið Flugleiðir. Þá var m.a. gert ráð fyrir því að við sameiningu mætti koma við ýmiss konar hagræðingu miðað við það að flugmál íslendinga væru í höndum tveggja aðskildra fyrirtækja. Því er afar mikilvægt að mínum dómi að ríkt sé eftir því gengið ekki síst nú eftir að ríkið tekur á sig þær miklu ábyrgðir sem um er að ræða, að fylgt sé fram mjög rækilega 1. og 2. tölul. í skilmálunum sem fjárh.- og viðskn. er sammála um.

Flugrekstur á áætlunarleiðum milli Íslands og annarra landa er eftir þessa sameiningu á einni hendi. Því var lýst yfir af hálfu þáv. ríkisstj. að hún mundi fyrir sitt leyti stuðla að því að Flugleiðum yrði auðveldað að halda þeim flugrekstri uppi á eðlilegan og heilbrigðan hátt. Og það er eindreginn vilji minn og raunar allra sem ég veit til að við þær skuldbindingar verði staðið.

En hins er ekki að dyljast, að við þessa sameiningu er kominn til sögunnar afar sterkur aðili í íslensku atvinnulífi sem ræður yfir einum þýðingarmesta þætti í athafnalífi landsmanna, flugsamgöngum. Slíkri einokun á einn sviði fylgir ætið hætta á að sá, sem hana hefur fengið, freistist til að teygja sig út á skyld svið, efla áhrifasvið sitt, treysta sína stöðu með því að ná einnig í sínar hendur þjónustu sem að meira eða minna leyti er tengd þeim rekstri sem er hans aðalviðfangsefni og upphafleg orsök að tilveru fyrirtækisins. Því er ekki að leyna að það mun flestra mál að þessarar tilhneigingar gæti um of — einkum á síðari árum — og það beri að gjalda varhug við að lengra sé haldið á þeirri braut, og þeir eru til — og ég tel mig í þeirra hópi — sem álíta að þegar hafi verið gengið fulllangt. Slíkar svokallaðar lóðréttar samsteypur, þar sem hver rekstrarhlekkurinn tekur við af öðrum á heilu athafnasviði, hljóta að vera afar viðsjárverðar, ég vil segja hættulegar í okkar atvinnulífi. Þá er þeirri hættu boðið heim að allur almenningur verði þegar frá líður, ef einokunarvaldið verður nógu sterkt, að sæta þeim kjörum sem því sýnist í þeim greinum sem það hefur náð tökum á. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að halda því fram að það sé ásetningur forráðamanna Flugleiða að koma á slíkri einokun, en það liggur í eðli málsins að það er nokkur hvati fyrir forráðamenn svo stórs fyrirtækis í okkar takmarkaða hagkerfi að færa út kvíarnar, að breiða úr sér, og ég tel þörf á að vera betur á verði gagnvart þessu en hingað til ef ekki á að bjóða einokunarhættu heim.

Ég tel að það sé þó einkum í verkahring ríkisvaldsins að fylgjast með því að í slíkum efnum sé ekki um að ræða óheilbrigða samkeppni, undirboð í því skyni að losna við keppinauta svo að einokun náist. Það er tvímælalaust hlutverk ríkisvaldsins að stemma stigu við slíkum viðskiptaháttum. Sú skoðun mín, að ríkið eigi ekki, án þess að brýna nauðsyn beri til, að rugla reytum við rekstraraðila sem veikari aðilinn í rekstri eða sameign, veldur því að ég get ekki léð fylgi brtt., hv. 3. þm. Reykv. Hún mundi, ef samþ. yrði, gera íslenska ríkið að meðeiganda í Flugleiðum í mjög ríkum mæli, þar sem það hins vegar væri að settum þeim skilyrðum, sem hv. n. setti fram, að vísu smávegis meðeigandi í fyrirtækinu, en fyrst og fremst eftirlitsaðill og kröfuaðili. Og það tel ég heppilegast bæði fyrir fyrirtækið sem í hlut á, fyrir ríkið og fyrir almannahagsmuni. Það er ekki hollt að rugla saman reytum einkarekstrar og opinbers rekstrar nema mjög brýna nauðsyn beri til, eins og við þekkjum dæmin þegar hefur verið leitast við að bjarga við t.d. atvinnulífi á tilteknum stöðum því að ef til ríkisrekstrar á að koma tel ég að ríkið eigi þar að vera hinn sterki aðili, ekki einkaaðilar sem gengið er til samstarfs við, og ekki síst í þessu tilviki, vegna þess að ferðamál eru einmitt tilvalinn vettvangur fyrir alla helstu kosti eðlilegrar samkeppni. Í ferðamálum eru nær ótakmarkaðir möguleikar til fjölbreytni í framboði og þjónustu. Stór og vaxandi hluti þjóðarinnar notar ferðalög landa í milli ýmist sér til skemmtunar eða af nauðsyn. Því á hvert mannsbarn í landinu nokkuð í húfi að saman fari traustar og öruggar áætlunarflugferðir milli Íslands og annarra landa, en að jafnframt sé ferðaþjónusta og fargjöldin þá þar á meðal verðlögð á grundvelli heilbrigðrar samkeppni og þar hlýtur að vera eðlilegt að leiguflug eigi sitt eðlilega svigrúm.