14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson vék ítarlega að því máli sem hér er til umr. Í upphafi ræðu sinnar vildi hann víta ríkisstj. og þá sér í lagi fjmrh. fyrir það með hvaða hætti þetta mál væri lagt fyrir og að ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni sem fram kom frá þeim Alþb.- mönnum um að þeir fengju í sínar hendur skýrslur og greinargerðir varðandi þetta mál á þeim tíma sem þeir óskuðu eftir. Hv. þm. fékk í sínar hendur frv. og grg., en ekki aðeins drög að eða uppkast að frv. eins og hann orðaði það, heldur handrit að frv. og grg., og ástæðan fyrir því, að það barst honum síðar í hendur en ætlað var, var einfaldlega sú að formaður þingflokks Alþb. var fjarstaddur úr bænum nokkra daga og handritið í umslagi til hans þannig að þessi hv. þm. hafði ekki tækifæri til að sjá það.

Ég tel að þetta mál hafi verið unnið fyrir framlagningu mjög vel, það hafi verið skoðað af ríkisstj. og þeim aðilum, sem hún fól, með þeim hætti að n. sú, sem fékk málið til meðferðar í þessari hv. þd., gat skoðað málið. Og það var ekki á ræðu þessa hv. þm. að heyra að hann hefði ekki fengið fullkomnar upplýsingar og honum hefði ekki unnist tími til þess að skoða málið ofan í kjölinn. Og ég fullyrði að vinnubrögð við framlagningu þessa frv. eru siður en svo óvenjuleg. Þau eru með þeim eðlilega hætti sem ég þekki til og að mínum dómi undirbúningur undir málið kannske miklu betri en stundum áður hefur gerst.

Hv. þm. vék síðan að þeirri ríkisábyrgð, sem hér er farið fram á, og rakti forsögu þessa máls. Hann vék að þeim sjónarmiðum sem hann teldi í dag að hefðu átt að vera þegar sameining þessara flugfélaga átti sér stað árið 1973. Ég er honum í mörgu sammála. Ég var þessarar skoðunar þegar þessi mál voru til meðferðar. Ég fjallaði þá um þetta mál í bankaráði Landsbanka Íslands og þar sat einnig einmitt einn af ágætum flokksbræðrum hv. þm., núv. formaður bankaráðsins, fyrrum alþingisforseti, Einar Olgeirsson, og við vorum mjög sammála um það með hvaða hætti best væri að koma þessum málum fyrir. En því miður hafði þessi ágæti bankaráðsmaður ekki þau áhrif í þáv. stjórn landsins að hann fengi skoðunum sínum fram komið. Þess vegna stöndum við hér í dag með krógann eins og hann var skapaður af m.a. hv. 3. þm. Reykv. En hann sér í dag hvernig hann hefði átt að vera miklu skynsamari í þessum málum fyrir tveimur árum. Og svo endaði hann þessar umr. með því að gerast talsmaður samkeppninnar, og ég segi: guð láti gott á vita, þegar Magnús Kjartansson, hv. 3. þm. Reykv., hefur tekið það hlutverk að sér hér á Alþ.

Hér er um að ræða mikla ríkisábyrgð, rúmlega 80% af kaupverði eða söluverði þessara flugvéla sem hér er um rætt. Það er ekki langt frá þeirri prósentu sem veitt er í sambandi við kaup á togurum, þannig að hér er að vísu ekki um neitt einsdæmi að ræða um hlutfall á ríkisábyrgð í sambandi við kaup á flutningatækjum.

Í sambandi við það, sem hv. 3. landsk. þm., Magnús T. Ólafsson, sagði, þá er það eins og fram kom hjá hæstv. samgrh. að sjálfsögðu fyrirætlan í sambandi við ríkisábyrgðina að hún verði ekki veitt nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar eru fram sett, enda var þetta undirbúið af hálfu ríkisstj. og lögð fram í fjh.- og viðskn. drög að yfirlýsingu sem fulltrúar Flugleiða, Flugfélagsins og Loftleiða, voru reiðubúnir til þess að undirrita. Og eftir meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. verður að sjálfsögðu tekið fullkomlega tillit til þeirra breytinga sem þar voru gerðar á þeirri yfirlýsingu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um þetta mál. Ég vil þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir störf hennar og vonast til þess að þessi hv. d. geti lokið afgreiðslu þess máls nú í kvöld þannig að hægt verði að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok.