14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

Umræður utan dagskrár

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Út af því, sem hér hefur komið fram hjá hv. 9. þm. Reykv., langar mig að gefa hér örlitla skýringu.

Þessu frv., sem hann gerði að umtalsefni, var vísað til menntmn. fyrir viku og tók frv. þá þegar til meðferðar á fundi sínum og þar var samþykkt að skrifa Skáksambandi Íslands bréf og leita umsagnar þess um þetta mál. Auk þess kom fram krafa frá nokkrum úr n. síðar að þessu máli yrði vísað til Skólastjórafélags Íslands og þessu máli hefur einnig verið vísað þangað til umsagnar.

Nú er það rétt, sem hv. þm. sagði, að umsögn Skáksambandsins hefur borist. Samkv. því, sem hér er bókað, er komudagur erindisins 12. maí, þ.e.a.s. í fyrradag, og þetta erindi er stílað til menntmn. Nd. Alþ., c/o Ingvar Gíslason formaður. En hvern sem um er að saka — líklega er það mig einan um að saka — þá er það nú fyrst í dag að ég fæ að vita um þetta erindi, þetta bréf Skáksambandsins. Að sjálfsögðu hef ég ekki haft minnstu löngun til þess að liggja á þessu erindi eða leyna því fyrir samnm. mínum, en ég tek á mig alla sök á því að hafa ekki vitað um þetta erindi. En ég hefði nú talið það eðlilegast, þar sem þessu bréfi er beint til mín persónulega, að það hefði borist mér í hendur strax í fyrradag: En ég ætla engan að ásaka í því efni, þá sök tek ég á mig. Auðvitað hefði það verið eðlilegast trúlega að ég hefði kannað betur þau skjöl, sem kynnu að hafa borist nefndinni.

Í morgun hélt menntmn. fund og þar voru til umr. samkv. áður boðaðri dagskrá fundarins þrjú mál og þau voru öll afgreidd. Málefni þetta, sem hér hefur sérstaklega verið til umtals nú utan dagskrár, kom þar einnig nokkuð til tals, en þá kom í ljós að þeir sem á fundinum voru — það voru að vísu ekki alveg allir menntmnm. mættir, ég hygg að það hafi tveir verið fjarverandi — þeir voru ekki við því búnir að afgreiða málið, og það skal játað fúslega að þá lá ekki fyrir til umræðu álít Skáksambandsins. En fyrir tilmæli og vegna þeirra orða, sem hér hafa fallið frá hv. flm. umrædds frv., þá mun ég að sjálfsögðu verða við því að lesa hér fyrir þingheimi það bréf sem menntmn. hefur borist frá Skáksambandinu, og vil ég þá leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þetta bréf. Það er skrifað í Reykjavík 10. maí 1975:

„Skáksambandi Íslands er ljúft að verða við beiðni yðar um umsögn varðandi frv. til l. um skákkennslu. Skáksamband Íslands fagnar þessu frv. og lýsir fyllsta stuðningi sínum við það. Jafnframt lýsir Skáksamband Íslands sig reiðubúið að verða ráðh. til samráðs og aðstoðar um framkvæmdaatriði þessa máls, sem óskað yrði eftir.

Fyrir hönd Skáksambands Íslands.

Gunnar Gunnarsson forseti.“

Bréfið er stílað til menntmn. Nd. Alþ., til Ingvars Gíslasonar, formanns.

Þá hef ég lesið þetta erindi og er ljóst hvernig það er. En ég vil endurtaka það að þetta barst mér ekki í hendur eða varð mér kunnugt fyrr en nú síðdegis í dag. En vegna þessara orðaskipta og vegna tilmæla hv. flm. mun ég að sjálfsögðu verða við því að kalla menntmn. saman til þess að ræða málið, þó að það takist ekki í kvöld. Vegna þess að a.m.k. einn ef ekki tveir af menntmn.- mönnum hafa fjarvistarleyfi eða ég veit að verða fjarverandi, þá tel ég mig ekki geta boðað fundinn í kvöld, en ég mun gera það á morgun svo fljótt sem auðið er.