14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

210. mál, landgræðsla

(Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt. á l. um landgræðslu, sem eru frá árinu 1985, og eru þessar breytingar gerðar vegna þeirrar reynslu sem af lögunum hefur fengist á þessum tíma. Lagt er til að kveðið verði skýrar á um að það sé hlutverk landgræðslunnar að hafa eftirlít um meðferð og notkun gróðurlendis, rýmkaðar eru heimildir til þess að ráða sérfróða starfsmenn til þess að sinna gróðurvernd, gróðureftirliti og sandgræðslu. Ákvæðunum er varða gróðurverndarnefndir, er nokkuð breytt. Það er nú fastkveðið á um að þær skuli starfa í hverri sýslu. Eftir gildandi lögum eiga sýslurnar að greiða helming af funda- og ferðakostnaði gróðurverndarnefnda, en í þessu frv. er lagt til að þessi kostnaður verði þannig að Landgræðslan greiði 2/3, en sýslurnar 1/3. Þá eru gróðurverndarnefndir skyldaðar til að skila árlegum skýrslum, bæði til Landgræðslunnar og viðkomandi búnaðarsambanda.

Þetta frv. var sent frá Ed. til Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélagsins og landgræðslustjóri kom til fundar við n. og umsagnir allra þessara aðila voru mjög jákvæðar. Voru gerðar smávegis breytingar í Ed. á frv. Landbn. Nd. hefur athugað frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með áorðnum breytingum, sem eru á þskj. 567. Hv. þm. Benedikt Gröndal var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins.