14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

257. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 58 frá 29. mars 1961. Það hefur dregist mjög úr hömlu, að mál þetta yrði tekið fyrir hér í þessari hv. þd. Ég hafði vænst þess að frv. þetta yrði að lögum fyrir lok þingsins, en það virðast nú dofna mjög vonir um að svo geti orðið.

Mál þetta er ekki stórt í sniðum og ég hygg að um það sé ekki mikill ágreiningur. Hér er hins vegar um að ræða réttlætismál. Löggjafinn hefur í sveitarstjórnarlögum ákveðið kjör oddvita og fyrst og fremst þeirra sem í senn eru oddvitar og raunverulegir framkvæmdastjórar sveitarfélaga sinna, þ.e.a.s. þeirra sveitarfélaga sem eru minni en svo að lög og reglur heimili ráðningu sveitarstjóra. Þess hefur ekki verið gætt að breyta kjörum þeirra í samræmi við gerbreyttar kröfur til hæfni og starfs þeirra. Stjórnvöld hafa lagt þeim mjög auknar skyldur á herðar. Samskipti og samstarf einstakra sveitarfélaga hefur farið vaxandi sem og virk þátttaka í störfum landshlutasamtaka sveitarfélaga og Sambands ísl. sveitarfélaga. Hér er um að ræða um það bil 180 manna hóp.

Lagt er til í frv. þessu að oddvitarnir fái nú sem laun 6% af rekstrartekjum sveitarfélaganna í stað þess að þeir fengu áður 4% af þeim tekjum, sem þeir innheimtu, auk ákveðins gjalds á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Þetta gjald var s.l. ár 195 kr. Nú er gert ráð fyrir að þetta gjald falli niður. En það gerir meira en að vinnast upp með hækkun prósentunnar sem auk þess leggst á allar tekjur sveitarfélagsins í staðinn fyrir aðeins innheimtu útsvara og fasteignagjalda áður. Samband ísl. sveitarfélaga hefur reiknað út hvernig þessi breyting mundi verða í raun. Er það sýnt á fskj. með frv. og sé ég ekki ástæðu til þess að gera nánar grein fyrir því, enda geta menn þar lesið sér til um það.

Ég hafði ekki hugsað mér að fylgja þessu frv. úr hlaði með langri ræðu nú í þessum miklu önnum, en ég vil ítreka það sem ég sagði áðan. Þetta er að mínu mati mikið réttlætismál, að löggjafinn komi að nokkru til móts við þessa aðila sem hafa óhjákvæmilega orðið að taka að sér miklu víðara starfssvið en áður var. Og hvað sem um málið verður á þessu þingi þar sem virðist vera orðið mjög þröngt um tíma, þá vænti ég þess þó að mál þetta fái sem allra fyrst góðan framgang og mun svo ekki tefja tímann frekar.