14.05.1975
Neðri deild: 88. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að setja á langa ræðu um þetta mál. Mig langaði þó í fyrstu til að víkja aðeins að tveimur atriðum sem hafa komið hér fram í ræðum hv. þdm.

Annað er nú smálegt, það kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., um ávörpin sem notuð eru hér á Alþ., hæstv. og hv. Mér finnst alveg sjálfsagt að halda þessari gömlu hefð hér innan þingveggja, en ég er hv. þm. hjartanlega sammála um að það sé ekki ástæða til að halda henni áfram utan þingsala og mér finnst t.d. sjálfum ofurlítið broslegt þegar grannar mínir og góðvinir fyrir austan ávarpa mig hæstv. ráðh. á fundum þar í heimahögum.

Annað, sem hér hefur verið minnst á og af fleiri ræðumönnum, eru hin æskilegu tengsl þm. við lífið og störfin í landinu í hinum ýmsu starfsgreinum. Ég get tekið undir allt sem hér hefur verið sagt um að æskilegt sé að þessi tengsl séu sem allra mest. Hins vegar álít ég að það sé nálega eða alveg ósamrýmanlegt í mörgum tilvikum að þm. hafi með höndum alvörustörf í þjóðlífinu á meðan þeir sitja á þingi. Hv. flm. nefndi t.d. að það væri æskilegt að þm. væru bændur, kennarar og skipstjórar. Mér er nú sem ég sjái kennsluna hjá t.d. — ja, hvað eigum við að segja — hv. 5. þm. Vesturl. (KP: Já, hann er hérna.) Sá held ég að kenni þó! Og svipað hefði verið um þann sem hér stendur ef hann hefði haldið embætti sinu sem skólastjóri austur á Mjóafirði. Ég held að þeir hefðu lítið kennt. — Já, skipstjóri, hvað um það? Ætli það sé nokkur útgerðarmaður á landinu svo heillum horfinn að honum dytti í hug að ráða alþm. fyrir skipstjóra hjá sér? Ég þekki svo sjálfur þetta með búskapinn. Eins og nú er komið sögu, þá byggist búskapur alþm., þeirra sem búa í alvöru, á því, mér liggur við að segja að níðast á fjölskyldu sinni ellegar þá að fá til dýran starfskraft utan fjölskyldu. Annaðhvort nægir þá afrakstur af meðalbúi rétt til þess að borga þau laun ellegar þá að greiða verður með því sem búið gefur. En slíkt er tóm vitleysa. Auðvitað búa menn ekki búi sínu með því að sitja hér á Alþ. allan veturinn og vera svo á ferð meira og minna um sín kjördæmi og sinna ýmsum félagsmálastörfum á sumrin. Því miður er þetta svona, að það er ósamrýmanlegt í flestum tilvikum að stunda störf eins og þessi, sem ég hef hér nefnt sem dæmi, í alvöru a.m.k. á meðan viðkomandi gegnir þingmennsku. Eigi að síður vildi ég segja það að tengsl alþm. við atvinnu- og athafnalíf í landinu eru æskileg og góð þar sem mögulegt er að koma þeim við. Og það er sem betur fer svo, að flestir alþm. og ég vil nú segja allir hv. alþm. koma til starfa hér á Alþ. beint úr hinum margvíslegu störfum í þjóðfélaginu, hvort sem þau eru unnin við framleiðslustörf, á skrifstofum eða annars staðar. Og það er þó alltaf nokkur bót í máli, þó svo að erfitt sé og mörgum tilvikum ógerlegt að halda þessum tengslum við með beinni og virkri þátttöku í hinum ýmsu störfum á meðan setið er á Alþingi. Það er engin regla án undantekninga og einstaka menn gera þetta nú samt með feiknalega miklum dugnaði og af ótrúlegum myndarskap, en hitt er það almenna.

Þá vil ég aðeins segja það varðandi meginefni þessa frv., þ.e.a.s. að breyta nú til og fela kjaradómi að ákveða kaup og kjör alþm., að ég er því algerlega andvígur. Alþ. hefur frá fyrstu tíð ákveðið sjálft laun og kjör þm. Þetta er orðin hefð og ég er það íhaldssamur að ég vil þegar af þeirri ástæðu halda þessari venju. Þar að auki lít ég svo á að þar sem Alþ., löggjafarsamkoman, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. drap hér á, það ákveður sjálft um störf sín og starfshætti að öllu leyti sé það í fullu samræmi að það ákveði einnig kaup og kjör. Alþm. eiga að bera — og bera auðvitað — ábyrgð gagnvart kjósendum sínum og skulu standa þeim reikningsskil ekki sjaldnar en fjórða hvert ár og þar hafa þeir aðhaldið. Laun alþm. eiga vitanlega að vera öllum kunn, enda hefur aldrei verið ætlast til annars. Og ég minni á það að í Alþt.

hvers árs er prentuð nákvæm skrá yfir greiðslur til hvers einstaks þm. Útgáfu á Alþt. hefur seinkað og þess vegna liggur þessi skrá ekki fyrir frá allra síðustu árum. En þetta hefur verið gert og verður gert enn jafnóðum og lokið er hverjum árgangi. Alþt. verða gefin út jafnharðan og þá hafa menn þetta þarna sundurliðað alveg nákvæmlega, laun og allar aðrar greiðslur til alþm. Og þannig á þetta að vera.

Það hefur verið minnst á það í þessum umr. að með því að fela þetta kjaradómi losni alþm. við leiðinlegt umtal um kaup sitt og kjör. En ég álít þetta ekki rétt. Menn halda auðvitað áfram að tala um kaup og kjör alþm. sem eru sífellt undir gagnrýni og eiga að vera það öllum öðrum mönnum fremur vegna þess að þeir ganga undir kosningar. Auðvitað halda menn áfram að tala um þetta þó að aðrir ákveði launin. Það verður ofurlítið á annan hátt, en það verður rétt stigmunur, en ekki eðlismunur á því umtali, enda þýðir ekkert fyrir alþm. að ætla að koma sér hjá umtali, illu eða góðu eftir atvikum það held ég að þýði ekki neitt. Þess vegna vil ég árétta það að ég tel rétt að halda gamalli hefð og sé enga ástæðu til þess fyrir alþm. að mæla sig undan ábyrgð af þessu starfi, að ákveða kaup og kjör alþm., alveg eins og starfstíma þingsins og alla starfshætti.