14.05.1975
Neðri deild: 89. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hefur veríð afgreitt þaðan. Efni þess er það að leggja skuli á gjald, iðnaðarmálagjald, er nemi 0.1% á allan iðnrekstur í landinu sem iðnlánasjóðsgjald er greitt af. Þetta gjald skal renna til þess að efla íslenskan iðnað, kynna hann og veita honum tækniþjónustu.

Þetta frv. er undirbúið og flutt að tilmælum Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands Ísl. samvinnufélaga og standa öll þessi samtök að frv.

Það er sérstaklega rétt að taka fram og benda á niðurlag 1. gr. frv. þar sem segir að óheimilt sé að leggja gjaldið við verð á vörum eða þjónustu iðnfyrirtækja. Þetta gjald verður því ekki til þess að hækka verð á vörum eða þjónustu. Það er bannað samkv. lagaákvæðinu, þannig að iðnaðurinn tekur sjálfur á sig þetta gjald.

Gert er ráð fyrir því í grg. að hefði þetta gjald gilt á s.l. ári, þá hefði það skilað samtals fyrir þessi þrjú samtök rúmlega 18 millj. kr.

Það er rétt að taka fram að hliðstæð ákvæði hafa verið lögtekin áður varðandi samtök bænda, þar sem er búnaðarmálasjóðsgjald sem rennur til Stéttarsambands bænda og búnaðarsamtakanna, og enn fremur er hluti af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem rennur til samtaka útvegsmanna og sjómanna.

Í Ed. var gerð sú breyting á frv. að í 2. gr. var ákveðið að upphæð sem svaraði til iðnaðarmálagjalds lagmetisframleiðenda, sem eru aðilar að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, skuli renna til þeirra samtaka, þannig að eins og frv. er nú verða fern samtök sem hér njóta góðs af.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.