14.05.1975
Neðri deild: 89. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þó að nokkuð sé nú áliðið kvölds vil ég fara nokkrum orðum um það mál sem hér er til umr. Ég held að menn ættu að sleppa öllum æsingi og galsa varðandi umr. um þetta mál hér á Alþ. Ég held að það þjóni engum tilgangi hjá einum eða neinum. En eins og fram kom áðan hjá hv. 3. þm. Austf., þá erum við blessunarlega lausir við að eiga fulltrúa í þfkn., þ.e.a.s. við eigum ekki fulltrúa í þeirri n. sem síðasti hv. þm. var að beina spjótum sínum að í lok sinnar ræðu.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en ég ætla fyrst að víkja að því sem komið hefur fram í þessum umr. og það er hvort þm. eigi sjálfir að ákveða sín laun. Ég skal strax segja það sem mína skoðun að ég tel það óæskilegt að þm. ákveði sjálfir sín laun. En ég geri greinarmun á því hvort um beinar launagreiðslur er að ræða eða hvort verið er að ræða um það sem hér kemur fram í þessu frv., þ.e. í sambandi við húsnæðiskostnað, dvalarkostnað og ferðakostnað. Mér finnst munur á þessu tvennu: annars vegar beinum launum, launagreiðslum til þm., og hins vegar því sem þeim er borgað til þess að standa straum af dvalarkostnaði, ferðakostnaði eða öðru slíku. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé heldur óviðkunnanlegt að þm. ákveði sjálfir beinar launagreiðslur til sín og það væri betur komið í höndum t.d. kjaradóms. En að því er varðar hitt málið, þá finnst mér þetta ekki snúast eingöngu um það hvort Alþ. sé að setja ofan við breytingu eða slíkt. Menn verða að vega og meta hvað þeir telja réttast, og a.m.k. þegar ég hef velt þessu fyrir mér, þá hefur það verið sem hvað mest hefur mælt á móti því í mínum huga að gera þessa breytingu varðandi dvalarkostnað, ferðakostnað og annað því um líkt, það er það hvort Alþ. væri ekki að sleppa hendi af afskiptum af málefnum sem geta skipt þinghaldið sem slíkt máli og varðar eðlilegar breytingar á þróun á þinghaldi í framtíðinni. Mér finnst það a.m.k. vera spurning þegar síðast var gerð hvað mest breyting á þessu sem við erum nú að tala um, ekki beinlínís launagreiðslum, heldur t.d. ferðakostnaði í kjördæmi eða öðru slíku, hvort kjaradómur hefði tekið þá ákvörðun sem tekin var af þfkn. fyrir tveimur árum í sambandi við ferðir í kjördæmi. Mér finnst þetta vera miklu meiri spurning um það hvort Alþ. sjálft er að afsala sér rétti eða víkja sér undan að taka ákvörðun um málefni sem beinlínis varða þinghaldið sjálft, því að ég get ekki betur séð en að á þær greiðslur, sem hér um ræðir, sé lítið sem rekstrarkostnað Alþ., en ekki sem launagreiðslur. Og þetta er miklu meiri spurning í mínum huga heldur en hitt, hvort menn séu að hopa undan almenningsáliti eða hvort Alþ. sé að setja ofan við þetta.

Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt hjá Alþ. að sleppa hendinni af þessum hlutum. Ég er ekki sannfærður um það. Og það, sem mér finnst a.m.k. vanta í þetta ef menn á annað borð vilja að Alþ. afsali sér þessum hlutum, þá er það í fyrsta lagi það að taka allt með. Í þetta frv. er t.d. ekki tekinn með einn verulegur kostnaður sem alþm. fá nú greiddan, það er símakostnaður. Ef eðlilega ætti að standa að þessu máli og afsala sér þessum rétti, þá ætti auðvitað þessi kostnaður líka að fylgja með í því afsali. En ég veit ekki hvers vegna hv. flm. frv. hafa ekki tekið þennan kostnaðarlið með í sinum till. Og í öðru lagi, ef menn á annað borð vilja að kjaradómur ákvarði þessa hluti, sem ég er ekki á þessu stigi endilega að mæla gegn, en ef menn vilja það á annað borð, þá finnst mér að eigi að gera það hreint og þar með að láta þfkn. hætta öllum afskiptum af málinu. Hún á ekki að vera neinn umsagnaraðili eða tillöguaðili til þeirra sem endanlega ákvarða þetta. Annaðhvort á Alþ. að gera þetta sjálft og eitt eða þá, ef menn vilja breyta til, láta kjaradóm um það algerlega.

En vegna þess sem var rætt hér um þfkn. áðan, þá vil ég taka undir það sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði. Að vísu er ég nýliði hér á Alþ., en ég tel mig vita vel að það var fjöldi þm. sem var búinn að vera lengi á þingi þegar ég kom hér til þings sem hafði ekki hugmynd um hvað hann átti að hafa samkv. ákvörðunum þfkn. Og verði þessari aðferð haldið, þá finnst mér að það sé alveg ófrávíkjanleg breyting sem verði að gera að þfkn. birti þær ákvarðanir sem hún tekur, þannig að ekki bara þm. sé um þær kunnugt, heldur og öllum öðrum, því að ég held að þetta eigi ekki að vera neitt leyndarmál. Það er til skaða, ekki bara fyrir Alþ., heldur og alla aðila sem hlut eiga að máli, að leynd hvíli yfir þessu. Það á að vera öllum opið að fá allar upplýsingar um það með hverjum hætti launafyrirkomulagi þm. eins og annarra er fyrir komið. Á hitt verður að minna auðvitað, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason eða réttara sagt þingflokkur Alþfl. á fulltrúa í þessari n. og auðvitað gæti hann gert grein fyrir þessu. En það á að gera þetta opinbert, ég er alveg sammála því.

En fyrst verið er að ræða um kjör þm., þá get ég ekki stillt mig um að koma hér inn á einn þátt þess máls vegna þess að ég hef átt í allmiklum örðugleikum með að losa mig við greiðslur, að losna undan því að taka kaup fyrir störf sem ekki eru unnin. Það er svo í lögum um þingfararkaup að þeir aðilar, sem stunda önnur störf ásamt þingmennsku hjá hinu opinbera, eiga rétt á annars vegar 3/10 af launum og hins vegar 3/5 af launum, þ.e.a.s. þeir sem eru í starfi og ekki getað stundað það daglega, fá 3/10, en hinir fá 3/5. Ég var þannig í sveit settur þegar ég varð þess heiðurs aðnjótandi að verða kosinn þm. að ég var í starfi hjá hinu opinbera og var þá flokkaður undir það að ég ætti að halda 3/10 af launum. Nú hef ég ekki komið nálægt þessu starfi í nærri 4 ár, en eigi að síður alltaf á launum fyrir það að þessum hluta. Og það eru slík atriði sem Alþ. á auðvitað að leiðrétta. Það er fráleitt að borga laun þeim þm. sem geta ekki komið nálægt því starfi sem þeir fá borgað fyrir. Nú segja menn auðvitað: Þú gast auðvitað sagt af þér hinu fyrra starfi. — En það er engin lækning. Það á að gilda sama regla fyrir alla og þessu á auðvitað að breyta. En það fylgir sá galli því ef menn segja af sér starfinu, að þá segja þeir sem ráða og úrskurða: Ef þú ekki tekur launin, þá missir þú líka stöðuna. Þ.e.a.s. ef þú hættir að þiggja launin, segir upp starfinu, en óskar að halda launalausu starfi, þá átt þú ekki rétt til þess lengur. Annaðhvort verður þú að vera á þessum launum og halda þar með starfinu eða ef þú tekur ekki launin, þá verður líka tekið af þér starfið. — Þetta finnst mér vera rangt. Það þarf enginn að lýsa fyrir þm. að þeir eru kannske sú stétt manna sem er kannske hvað ótryggust í starfi, og mér finnst að það eigi að gera greinarmun á því annars vegar að menn geti haldið starfi einhvern tiltekinn tíma, en launalausu ef þeir geta ekki sinnt því, en það sé fráleitt að borga mönnum laun fyrir starf sem þeir geta ekki komið nálægt. En um þetta skortir úrskurð og þessu þarf að breyta.

Þá kem ég að því sem líka hefur komið inn í þessar umr.: Eiga þm. að gegna öðrum störfum? Ég er alfarið þeirrar skoðunar að þm. eigi einungis að gegna þingmennsku. mín reynsla af þingmennsku þau 4 ár, sem ég hef sinnt henni, er sú að ég tel það fullkomið starf ef menn ætla á annað borð að sinna því að einhverju leyti. En þá hlýtur að vakna spurning á móti: Þeir, sem halda því fram að þm. eigi að gegna einhverjum öðrum störfum með þingmennsku, telja þeir það þá réttlætanlegt að þeir haldi fullu þingmannskaupi eða ætlast menn til þess að vera á fullu þingmannskaupi og jafnframt kannske 30% eða 60% kaupi fyrir annað starf? Ef menn fá borgað fullt fyrir þingmannsstarfið, þá eiga þeir auðvitað að sinna því að fullu. Menn geta ekki, að því er ég tel, sinnt svo að í lagi sé meira en því starfi að vera þm. ef á að rækja það. Ef menn eru í fleiru, þá hlýtur það að koma niður á öðru hvoru starfinu sem þeir eru í eða einhverju ef þau eru fleiri en tvö. Þetta er mín skoðun. Það má vel vera að þetta sé breytilegt. Það má t.d. vel vera og mér þykir ekki ólíklegt að t.d. þm. Reykv. séu betur settir að þessu leyti heldur en þm. dreifbýliskjördæma, þannig að það má vel vera að þarna þyrfti einhvern greinarmun að gera á milli. En það, sem ég held að hafi valdið hvað mestu fjaðrafoki hvað varðar launakjör þm., það eru þær óeðlilegu reglur sem gilda um t.d. ferðakostnað eða dvalarkostnað. Og þá snýr dæmið aftur að þm. Reykv. og hér í nágrenninu. Það er óeðlilegt að þm., sem á heima uppi í Breiðholti, fær ekki aukagreiðslur, en þm., sem á heima í Kópavogi eða Hafnarfirði, fær aukagreiðslur. Þetta er auðvitað óeðlilegt og þessu á að breyta. Og það þarf ekkert annað til þess að breyta þessu heldur en bara einfalda samþykkt þfkn., og þetta ætti auðvitað fyrir löngu að vera búið að gera. Það er þetta sem ég held að fólk horfi hvað mest á og gagnrýni hvað mest, það er ósamræmið í því, hvernig þessum aukagreiðslum er háttað og fyrir komið. (SvH: Hvar eru mörkin?) Menn vita nú hvar þau eru núna, það væri frekar spurning hvar þau eigi að vera? (SvH: Já, ég meinti það.) Þú meintir það, já. Það er svo annað mál, hvar mörkin eiga að vera. Ég á ekki von á því að ég geti sett fram reglu sem allir telji hina einu réttlátu, en ég er a.m.k. ekki það blindur að ég sjái ekki að þetta er ekki réttlát regla eins og nú er, að því er mér finnst.

Ég sem sagt hef kannske ekki tekið allt fram sem ástæða væri til. En niðurstaða mín af þessu er sú að ég er ekki sannfærður um að Alþ. eigi að afsala sér þessum rétti. Ég er samþykkur því að beinar launagreiðslur verði ákveðnar af öðrum aðilum en Alþ. og í reynd er framkvæmdin svo nú ef ég skil rétt. En ég er ekki viss um að það sé rétt af Alþ. að sleppa þessum ákvörðunum úr sinni hendi.

Hitt vil ég segja: Það er alltaf hægt að deila um hvort þm. hafi of mikið kaup eða ekki. En ef t.d. þm. Reykjavíkur eru of illa launaðir, hvað má þá segja um hina? Það held ég að allir geti verið sammála um, að það er margfalt meiri kostnaður hjá þm. dreifbýliskjördæmis heldur en þeim þm. sem eru hér á Reykjavíkursvæðinu. Um þetta geta menn endalaust deilt og er auðvitað sanngjarnt og eðlilegt að menn deili um og ekki síst þá almenningur. Hann veitir þessu athygli eins og öðru sem varðar þm. og á auðvitað að gera það, og þm. þurfa ekkert að kveinka sér undan því þó að um þá sé rætt eða á þá deilt á hvaða sviði sem er. Hitt er höfuðnauðsyn, að engin leynd hvíli yfir einu né neinu að því er varðar launakjör alþm. Það á að vera öllum opið og allir eiga að því greiðan aðgang. Verði það, í hvaða formi sem menn svo vilja setja það fram, þá held ég að muni minnka það aðkast sem þm. telja sig hafa fengið frá hinum ýmsu stéttum. Ég vil ekki nafngreina hér einn eða neinn, ég tel það ekki við eiga, ég tel að það sé öllum heimilt að gagnrýna alþm. eins og hvern annan og ekki siður. En ég hygg sem sagt að það beri til þess brýna nauðsyn að þfkn., meðan engin breyting er gerð, lagfæri þá verstu ágalla sem ég og margir aðrir eru sannfærðir um að eru á þeim reglum sem nú gilda og það sé gert opinbert á hvern hátt þessu er hagað. Það hefur að mínu áliti verið of mikil leynd yfir þessu og leynd sem einungis er til þess fallin að vekja tortryggni og getsakir, getgátur um þessi mál, og það ætti a.m.k. að vera akkur þm. sjálfra að koma í veg fyrir að það haldi áfram. En fyrst og síðast: Það er auðvitað nauðsynlegt og ég vænti þess, hver sem kemur til með í framtíðinni að hafa þessi mál með höndum, að það verði leiðrétt þessi meginvilla sem ég tel vera að borga mönnum ár eftir ár kaup fyrir störf sem þeir geta ekki sinnt. Því tel ég að verði að breyta.