14.05.1975
Efri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4200 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

253. mál, þjóðminjalög

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég skal fylgja fordæmi menntmrh., sem mælti fyrir málinu í dag og reyna að vera stuttorður.

Hv. menntmn. þessarar d. hefur tekið málíð til afgreiðslu og eins og kemur fram á þskj. 752 er hún sammála um að mæla með samþykkt þess. Þar fylgir og fskj. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en í frv. felst fjárhagsleg kvöð á sveitarfélögin, þ.e.a.s. 20 kr. á íbúa, til þess að gera kleift að varðveita þær minjar og byggingar sem ástæða þykir til.

Má vera að við íslendingar höfum vaknað of seint til þess að varðveita okkar byggingar. Okkar elstu byggingar eru að vissu leyti ungar miðað við það sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. En betra er seint en aldrei og þetta er viðurkenning, ef að lögum verður, á nauðsyn þess að frekar verði aðhafst í málinu.

Herra forseti. Ég vitna til þeirrar ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti, og þeirra skýringa, sem fylgja með frv., ásamt með fskj. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og legg til að málinu verði vísað til 3. umr.