28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

5. mál, fjárhagsstaða atvinnufyrirtækja

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Till. til þál. á þskj, 5 um könnun á raunverulegri fjárhagsstöðu atvinnufyrirtækja er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela forsrh. að skipa eftir tilnefningu 9 manna n. til að kanna hver sé raunveruleg fjárhagsstaða atvinnufyrirtækjanna í landinu. Hver þingflokkur skal tilnefna einn mann í n., og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Iðnnemasamband Íslands skulu hvert um sig tilnefna einn mann. N. skipti sjálf með sér verkum og hraði störfum sínum svo sem kostur er. Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki Íslands skulu veita n. alla þá sérfræðilegu aðstoð, sem þörf er á, en kostnað við störf n. skal greiða úr ríkissjóði.“

Þó að ekki sé langur tími liðinn frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum hefur hún verið æði athafnasöm í aðgerðum á svíði efnahagsmála, — aðgerðum sem hafa í för með sér stórkostlega kjaraskerðingu hjá launþegum og almenningi í landinu. Þessar aðgerðir eru m.a. gengisfelling, kaupbinding og stórkostleg skerðing á kjörum sjómannastéttarinnar í landinu. Þessar aðgerðir eða ráðstafanir eru rökstuddar með fullyrðingum um slæma fjárhagsafkomu atvinnufyrirtækja, og sjálfsagt má finna einhver dæmi þess að slík rök eigi rétt á sér. Þó sýna einstök dæmi, sem komið hafa fram, að sum fyrirtækja — kannske mörg — í landinu standa þann veg að talsverður gróði mun vera af þeim. Menn minnast sjálfsagt, bæði dæma frá Neskaupstað og Húsavík og sjálfsagt fleiri stöðum, að atvinnufyrirtæki á þessum stöðum í sjávarútvegi hafa sýnt það sem af er þessu ári gróða svo að milljónum skiptir eða jafnvel milljónatugum. Er óumdeilanleg staðreynd að mörg fyrirtæki í þessum atvinnugreinum, sem að sögn eiga við mikil vandkvæði að etja, eru, eins og ég hef nú sagt, rekin með talsverðum hagnaði. Þegar slík dæmi koma upp hlýtur það að vekja efasemdir í hugum almennings í landinu, þess fólks, sem er ætlað að bera þessar byrðar með fjármagnstilflutningi frá launþegum yfir til atvinnufyrirtækja, — það hlýtur að vekja talsverðar efasemdir um réttmæti slíkrar stórkostlegrar fjármagnstilfærslu og kjaraskerðingar hjá öllum þorra fólks.

Það verður og að segja að það mun erfitt að fá almenning í landinu til þess að trúa slíku þegar engin dæmi sjást hjá hinum ýmsu atvinnufyrirtækjum um aukna hagkvæmni í rekstri fyrirtækjanna og sparnað. Og ekki verður annað séð af umsvifum ýmissa þessara fyrirtækja svo og eigenda þeirra og forsvarsmanna en að þessir aðilar lifi sem blóm í eggi.

Hæstv. sjútvrh. skipaði fyrir nokkru svo fyrir að viðskiptabönkum í landinu, ríkisbönkum, skyldi falið að gera könnun á fjárhagsafkomu eða fjárhagsstöðu atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Ég er þeirrar skoðunar að slík könnun leiði ekki til þess að þeir aðilar, sem hafa verið látnir borga það sem hér um ræðir og kannske verða í áframhaldi af því látnir borga það sem til þarf, sannfærist um að hér sé í reynd um að ræða þá brýnu nauðsyn, að því er varðar svo mikinn fjármagnstilflutning, sem stjórnvöld vilja vera láta.

Við flm. þessarar till. erum þeirrar skoðunar að það sé ekki eðlilegur gangur mála að í þessu tilviki sé bönkum falið það verkefni að kanna slíka fjárhagsstöðu, bönkum sem að mestu leyti eiga mestra hagsmuna að gæta að því er varðar útkomu á slíkri könnun. Við teljum eðlilegt og sjálfsagt að fulltrúar þeirra hópa og stétta launþega í landinu, sem látnir eru borga brúsann, fái sítt að segja um það, hvað hér er í reynd á ferðinni, að því er marka má af þeim röksemdum sem beitt er til þess að slíkar ráðstafanir eigi rétt á sér.

Engu skal um það slegið föstu á þessu stigi máls hvort þessar harkalegu aðgerðir á kostnað launþega í landinu eiga þann rétt á sér sem stjórnvöld vilja vera láta, og hvort slíkt hefur við rök að styðjast. En það verður að líta svo á, að sjálfsagt sé að fram fari hlutlaus könnun á því hvort þörf hafi verið og kannske ekki síður hvort þörf verði á áframhaldi slíkra ráðstafana sem hafa í för með sér enn frekari kjaraskerðingu hjá launþegum en orðið er, og þykir þó mörgum nóg komið af slíku.

Það er sem sagt megintilgangur okkar flm. þessarar till., að gengið verði úr skugga um það á þann veg einan sem hægt er, með hlutlausri könnun, hvort þær ráðstafanir, að því er varðar efnahagsmál, sem orðið hafa, hafi við þau rök að styðjast sem beitt er í sambandi við þær. Sá er einn tilgangur þessarar þáltill. sem hér er til umr.

Ég skal ekki í upphafi hafa öllu fleiri orð um þetta. En við teljum að það sé lágmarkskrafa þeirra launþega sem ætlað er að borga þessa hluti, að almenningur í landinu geti treyst því að forsendur fyrir þessari fjármagnstilfærslu frá launþegum til atvinnufyrirtækja séu réttar. Slíkar upplýsingar fást ekki að okkar dómi með því einu að bönkum í landinu sé fengið það verkefni í hendur að kanna þetta. Það fæst því aðeins að til þess séu settir fulltrúar úr þeim hópum sem hér eiga hlut að máli og þá fyrst og fremst fulltrúar launahreyfinganna, þeirra hópa sem ætlað er að borga þetta.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en legg til, herra forseti að að þessari umr. lokinni verði till. vísað til 2. umr. og hv. atvmn.