15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

126. mál, kvikmyndasjóður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil sem fyrsti flm. þessa frv. þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Enda þótt ég hefði að vísu kosið að frv. hefði náð að verða samþykkt á þessu þingi, þá tel ég það þó eftir sem áður talsvert merkilegan áfanga ei sú ályktun, sem menntmn. hefur hér gert till. um, verði samþykkt í þessari hv. d. Ég tel að orðalag till. sé með þeim hætti að miklar vonir eigi að vera bundnar við það að á næsta ári verði með tilstyrk menntmrh. og menntmrn. og í krafti frv., sem hann lét flytja hér í þinginu, sett löggjöf um aðstoð við kvikmyndagerð. Og ég fagna því alveg sérstaklega að í orðalagi ályktunartill. frá menntmn. er áhersla lögð á að frv. um þetta efni verði lagt fram þegar í upphafi næsta reglulegs Alþingis.

Eins og kunnugt er, þá er frv. þetta flutt til þess að skapa íslenskum kvikmyndaiðnaði fjárhagslegan grundvöll. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að veita þessum iðnaði, sem enn er í fæðingu og hefur ekki raunverulega náð neinni fótfestu hér á landi, hjálp til sjálfshjálpar. Frv. miðar að því að veita framleiðendum íslenskra kvikmynda nauðsynleg lán og fjárstyrki þannig að þeir geti staðið undir hinum gífurlega stofnkostnaði sem fylgir gerð kvikmynda og gera þeim þá væntanlega kleift að koma myndunum í það horf að af þeim megi hafa nokkrar tekjur og af þeim tekjum megi síðan endurgreiða þau lán, er veitt verða úr sjóðnum, á nokkrum árum. Í frv. er einnig ákvæði um það hvernig fjár til sjóðsins skuli aflað og var þar reynt að komast hjá því að um verulega hækkun á aðgangseyri að kvikmyndasýningum yrði að ræða. Í frv. er gert ráð fyrir því að aðgangseyrir að kvikmyndasýningum hækkaði aðeins um 3.5%, en að öðru leyti féllu til sjóðsins tekjupóstar sem þar eiga réttilega heima.

Um frv. komu allmargar umsagnir ýmissa aðila og þær voru langflestar jákvæðar, þ. á m. var mjög jákvæð umsögn menntmrn. sem virtist reiðubúið að taka að sér stjórn og umsjón þessa sjóðs, einnig var umsögn fjmrn. tvímælalaust jákvæð, því að í þeirri umsögn kemur skýrt fram að ekki yrði um nema mjög óverulega tekjurýrnun að ræða hjá Félagsheimilasjóði og Sinfóníuhljómsveit Íslands þrátt fyrir samþykkt þessa frv., vegna þess hvernig tekjuöfluninni er hagað, meira að segja dregið í efa að þar verði um nokkurn tekjumissi að ræða. Var því ekki annað að skilja á umsögn fjmrh. en að það hefði ekkert við það að athuga að frv. næði fram að ganga. Eins er óhætt að fullyrða að umsögn Félags kvikmyndagerðarmanna var ákaflega hvetjandi og jákvæð og á það bent að mál af þessu tagi hafi lengi verið til umræðu manna á milli án þess að nokkurt raunhæft átak væri gert fyrr en hugsanlega með samþykkt þessa frv.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á að allir hv. þm. munu hafa fengið í hendur áskorun frá norrænu þingi kvikmyndagerðarmanna, þar sem alþm. voru minntir á það, að Ísland væri eina landið í Norðurálfu sem ekki ætti sér neinn kvikmyndasjóð eða neina stofnun sem sérstaklega væri til þess fallin að styðja innlenda kvikmyndagerð, og á það bent, að þetta ástand væri ekki vansalaust, og ályktunarorðin voru þá að sjálfsögðu þau að brýna nauðsyn bæri til að Alþ. samþykkti það frv. sem hér lægi fyrir þinginu.

Það verður að segja hverja sögu eins og gengur, að það virðist vanta herslumuninn á að þetta frv. fái greiða leið gegnum þingið. Þar er á ferðinni tregðulögmál sem er alkunnugt í störfum Alþ. og verður að kenna við íhaldssemi. En út af fyrir sig skal ég ekkert vera með ásakanir í garð hv. meðnm. minna þó að þeir séu sumir hverjir varkárir og vilji skoða málið vandlega. En niðurstaðan hefur sem sagt orðið sú að málið verði ekki samþykkt á þessu þingi, heldur verði því vísað til ríkisstj. í trausti þess að hún semji löggjöf um aðstoð við kvikmyndagerð og leggi málið fram í upphafi næsta reglulegs Alþ. Ég hefði talið eðlilegast að frv. hefði verið samþ. núna vegna þess eindregna og ótvíræða stuðnings sem það hefur hlotið úr ýmsum áttum og vegna þess að ég hef grun um að meiri hl. alþm. sé þeirrar skoðunar að þörf sé á að frv. nái fram að ganga. Þetta er annað árið sem frv. er á ferðinni hér og er svo sannarlega kominn tími til að taka af skarið um þennan sjálfsagða stuðning við íslenska kvikmyndagerð. En eins og ég hef sagt, við verðum að láta nægja þann áfanga sem nú er í vændum hugsanlega með samþykkt þessarar till. Ég endurtek að ég tel að þessi afgreiðsla sé þó, þrátt fyrir allt, alljákvæð, og ég þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu málsins.