15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

126. mál, kvikmyndasjóður

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég lýsi mig samþykkan því að styðja að íslenskri kvikmyndagerð og tel rétt að svo sé gert á myndarlegan hátt. Hlutverk þessa kvikmyndasjóðs, sem um ræðir í frv. til l. á þskj. 187, get ég vel hugsað mér að styðja, en ég vil þó gera aths. við þá skattheimtu sem á að eiga sér stað þessu ágæta máli til framdráttar. Ég vil benda á það að þegar fólk er búið að standa skil á sinum opinberu gjöldum til réttra aðila, þegar búið er að skattleggja tekjur þessa fólks af eðlilegri vinnu og afrakstri, þá lít ég það illum augum að skattleggja tómstundir fólks og ánægjustundir sem það veitir sér í hvíld frá önnum dagsins sér til upplyftingar. Ég vil benda á að hér er enn þá einu sinni verið að miða við verð á íslensku brennivíni eins og það er hjá útsölu Áfengisverslunar ríkisins, það er verið að skattleggja skemmtanir fólks, þegar það fer á böll og annað. Ég vil mótmæla þessari skattheimtu af þeim ánægjustundum sem fólk veitir sér til upplyftingar frá vinnu.