15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Á kvöldfundi í gærkvöld urðu allmiklar umr. um það frv. sem hér er til umr. og sýndist þar sitt hverjum. En eitt var þó það atriði, sem bæði ég og ýmsir aðrir töldum mest um vert að fá á hreint í þessu máli, og það var hvað ætti að gera við það fjármagn sem inn kæmi fyrir sölu happdrættisskuldabréfa ef frv. yrði samþ. Ég var að vonast til þess að hæstv. samgrh., sem fær í hendur litlar 2000 millj. með samþykkt þessa frv., hefði það mikinn áhuga á því hvernig þessu máli reiddi af, að hann fylgdist með umr, hér og leiðrétti misskilning sem fram kynni að koma ellegar svaraði fsp. En þegar til átti að taka og óska eftir svörum ráðh. við tilteknum spurningum, þá reyndist hann ekki nálægur og varð því að fresta umr.

Bakgrunnur þess, að ég legg fram fsp. þessar, er sá að frá mínu sjónarmiði séð er ekki sama ef aflað er mikils fjár til Vegasjóðs í hvað fjármunirnir fara, því að það er geysilega mismunandi hvaða verkefni þola bið og hvaða verkefni verður að ráðast í með litlum fyrirvara. Ég færði rök að því á fundinum í gærkvöld að það, sem ætti að hafa algeran forgang í vegaframkvæmdum á Íslandi, væri uppbygging traustra vetrarvega á allri hringleiðinni umhverfis landið svo og uppbygging tengibrauta frá þeim hringvegi til allra helstu þéttbýlisstaða. Þetta væri verkefni sem yrði að hafa algeran forgang, en hitt kæmi svo í annarri, jafnvel þriðju röð, að leggja varanlegt slitlag á þjóðbrautir og jafnvel hraðbrautir ellegar að byggja brýr sem eru svo kostnaðarsamar að þær gleypa mjög verulegan hluta af því fé sem tiltækt er, og mun ráðh. að sjálfsögðu gera sér grein fyrir um hvaða mannvirki þar er að ræða. Ég sagði: í annarri eða þriðju röð, vegna þess að ég tel að jafnvel þegar búið væri að afgreiða það mikla verkefni að byggja upp trausta og góða vetrarvegi á hringveginum kringum landið og tengibrautum út frá honum, þá sé þar að auki annað verkefni sem verði að hafa forgang á undan varanlegu slitlagi og öðrum framkvæmdum sem ekki eru jafnbrýnar í svip, en það er varanlega slitlagið í þéttbýlisstöðum víðs vegar kringum landið. Ég þarf hvorki að segja hæstv. samgrh.hv. þm. það að þetta verkefni er algjörlega eftir í okkar framkvæmdaáætlunum á sviði vegamála og furðulegt í raun og veru hvað þetta mikilvæga mál hefur lent í skugganum af mörgum öðrum framkvæmdum og hvað lítið virðist á döfinni í því sambandi. Þó verð ég að viðurkenna að það er að komast svolítill skriður á, en alls ekki nægilegur. En það er mín skoðun að lagning varanlegs slitlags á þjóðbrautir eigi ekki rétt á sér fyrr en búið er að ganga frá varanlegu slitlagi í þéttbýlisstöðum yfirleitt víðs vegar um landið, og ég vona að hæstv. ráðh. geti verið mér sammála um þetta atriði.

Eins og ég vék að áðan er þetta náskylt hinu, hvort einstakar framkvæmdir, eins og brúin yfir Borgarfjörð, geta átt rétt á sér á því ári þegar verið er að skera niður vegaframkvæmdir víðs vegar um land allt og ekki er nægilegt fé til að sinna allra brýnustu viðfangsefnum í uppbyggingu venjulegra malarvega, t.d. á Norðurvegi og Austurvegi. Eins og hv. alþm. mun kunnugt er fjárveiting á núv. vegáætlun til þessa mikla mannvirkis hvorki meira né minna en rúmar 500 millj. kr. á tveimur árum og mun þó aðeins hálf sagan sögð með þeim fjárveitingum því að mannvirkið mun kosta nokkuð á annað þús. millj. kr. En á sama tíma leggur hæstv. samgrh. fram vegáætlun hér í þinginu og gengur frá henni í samvinnu við fjvn. — sem er með þeim hroðalega annmarka gerð að nær ekkert fjármagn er ætlað til þess að byggja upp nauðsynlegustu heiðavegi landsins, svo sem veginn yfir Holtavörðuheiði, veginn yfir Öxnadalsheiði, eða til að ljúka veginum yfir Oddsskarð. Öll þessi verkefni sitja eftir. Vegurinn yfir Oddsskarð verður að vísu kláraður á næsta ári, en hefði mátt klára hann á þessu ári ef fjármagn hefði verið til þess. Öxnadalsheiðin fær að vísu nokkrar millj. kr., ekki ýkjamargar, ég hef það víst ekki hjá mér hvað þær eru margar, en þær eru sem sagt hverfandi miðað við þarfirnar. Og Holtavörðuheiðin fær bókstaflega talað ekki neitt, eða a.m.k. er það þá hverfandi lítið ef einhvers staðar er hægt að finna einhverja tölu sem hana snertir, mér er ekki kunnugt um það. Þetta er að sjálfsögðu stórhneyksli.

Ég veit að vísu að það er ekki með öllu sanngjarnt að velta ábyrgðinni af þessu yfir á hæstv. samgrh., þarna eiga þm. einnig nokkra sök. Vandamálið í sambandi við Holtavörðuheiðina er að sjálfsögðu því tengt að heiðin er fyrst og fremst mjög þarfur vegur fyrir norðlendinga, en hún tilheyrir öðru kjördæmi, þ.e.a.s. fyrst og fremst Vestfjörðum og að nokkru leyti Vesturlandi, og þm. þessara kjördæma virðast ekki hafa viljað sjá af neinum fjármunum til þess að leggja í heiðina og þar af leiðandi verður hún út undan ár eftir ár. En ég vonast til þess að hæstv. ráðh. geti verið mér sammála um að á þessu þarf að verða grundvallarbreyting. Það þarf sem sagt að stefna að því að þjóðvegurinn og þjóðbrautin hringinn í kringum landið verði tekin algjörlega út úr og verði metin sem ein heild og athugaðir þeir vegakaflar á henni sem er brýnast að fara í, þannig að þröng landshluta eða kjördæmasjónarmið verði þess ekki valdandi að einstakir vegakaflar og þá sérstaklega vegakaflar á mótum tveggja kjördæma verði algjörlega út undan eins og raunin er. Ég tel hins vegar að hæstv. samgrh. verði ekki með öllu firrtur ábyrgð í þessu sambandi. Hann hefði átt að sjá það vandamál sem þarna er að risa og ætla sérstaka fjárveitingu til vega á mótum landshluta, eins og t.d. í Holtavörðuheiðina eða Öxnadalsheiðina, og til annarra brýnustu fjallvega, og a.m.k. ekki láta það henda sig á því ári, þegar þessir vegarkaflar eru algerlega vanræktir, að þá sé verið að ráðast í mestu vegaframkvæmd Íslandssögunnar, brúna yfir Borgarfjörð, sem að vísu er afskaplega mikilvæg fyrir kjördæmi hans og fyrir þann stað sem honum er hjartfólgnastur, en það er að sjálfsögðu lítill og ágætur staður hér fyrir norðan okkur, En þarna er hins vegar bersýnilega um að ræða viðfangsefni sem er verið að hraða um of á kostnað geysilega margra annarra brýnna framkvæmda.

Menn kynnu nú kannske að segja og þ. á m. hv. forseti d., að þessar orðræður mínar ættu frekar heima við umr. um vegáætlun. En í sjálfu sér tel ég að sú aths. ætti ekki fyllata rétt á sér öðruvísi en að við hreinlega vísuðum til þess að öll umr. um happdrættislánin ætti heima við umr. um vegáætlun, því að það er út af fyrir sig rétt að þar ætti málið heima og þar ætti að ræða það, í samhengi við vegáætlunina. En ég hef sérstaklega gert að umtalsefni brúna yfir Borgarfjörð í þessu sambandi vegna þess að ég óttast að óeðlilega mikið fé til viðbótar við það, sem ætlað er af vegáætlun, kynni kannske að renna til þessa verkefnis og til þess að tengja það frv. um happdrættislán ríkissjóðs ef það yrði samþ. Í öllu falli hef ég enga tryggingu fyrir því að svo verði ekki.

Það vill svo einkennilega til að á sama tíma og við erum að afgreiða hér vegáætlun þar sem sundurliðað er krónu fyrir krónu hvað á að renna í einstakar vegaframkvæmdir, þá er verið að afgreiða hér í Ed. frv., sem á einu bretti hefur í sér fólgna fjárveitingu upp á 2000 millj. kr., án þess að alþm. sé ætlaður nokkur réttur til þess að ráðstafa þessu fjármagni. Ég veit að vísu að í vegáætlun er smáklausa þar sem segir að fjvn. eigi að hafa með það að gera hvernig viðbótarfjármagni yrði varið. En er það réttur Alþ. að vera gjörsamlega sviptur ákvörðunarrétti í þessu efni og gefa bara ráðh. og fjvn. auða ávísun sem þessir aðilar geti útfyllt að eigin vild. Ég ber fyllsta traust til samverkamanna minna hér í þinginu, svo langt sem það nær með pólitískum takmörkunum, en ég verð að segja að ég tel að það að svipta Alþ. rétti til að ráðstafa þessum fjármunum sé ekki með nokkrum hætti réttlætanlegt.

Ég hef síður en svo ætlað mér að tefja afgreiðslu þessa máls, en hef hins vegar viljað benda á það að margir þættir þess væru lítt ræddir enn. Og ég hef m.a. tekið að mér það hlutverk að kynna hér þessari hv. d. umsagnir sem borist hafa um frv. Ég veit ekki hvort hæstv. samgrh. hefur kynnt sér þessar umsagnir, en ef svo kynni ekki að vera, þá þykir mér eðlilegt að segja honum frá því að umsagnirnar eru nær allar mjög neikvæðar og sumar með eindæmum neikvæðar, eins og t.d. umsögnin frá Þjóðhagsstofnuninni, þegar um er að ræða mál sem er um það bil að hljóta samþykki Alþ.

Ég ætla ekki að orðlengja miklu frekar um þann þátt málsins sem ég gerði hér helst að umtalsefni í gær, þ.e.a.s. hvernig fjárins er aflað. Ég veit hins vegar að það er ekki aðeins að ýmsar stofnanir utan Alþ., eins og t.d. allir ríkisbankarnir ásamt Iðnaðarbanka, eru mjög mótfallnir þeirri fjáröflunarleið sem gert er ráð fyrir í frv. og þar að auki mælir Þjóðhagsstofnun mjög eindregið á móti þessari leið og telur hana mjög varhugaverða frá efnahagslegu sjónarmiði séð, auk annarra aths. sem þessir aðilar gera, heldur virðist mér sýnt af einkavíðræðum mínum við mjög marga hv. alþm. að þeir séu tortryggnir á þá fjáröflunaraðferð sem hér er um að ræða enda þótt þeir treysti sér ekki margir hverjir vegna vinskapar og annarra tengsla við aðstandendur þessa frv. að standa beinlínis á móti því og munu því láta afskiptalaust að það fljóti hér í gegnum þingið.

En um hinn þátt málsins, hvernig fénu verði varið, tel ég óhjákvæmilegt að hér fari fram nokkrar frekari umr. en orðið hafa. Ég læt þess aðeins getið varðandi það, sem ég hef rætt hér um Borgarfjarðarbrúna og þá hlíð málsins, að ég mun væntanlega flytja við umr. um vegáætlun brtt. þess efnis, að framkvæmdum við Borgarfjarðarbrúna verði frestað um eitt ár og fjármagnið verði notað til annarra og þarfari verkefna á þessu andartaki, og ég er sannfærður um það og hef heyrt það á undirtektum þm, að mjög margir eru mér innilega sammála um þetta efni. Ég tel að þetta fjármagn væri betur komið í nokkrum helstu fjallvegum landsins, svo sem Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði sem algjörlega eru vanræktar að þessu sinni eins og kunnugt er. En nóg um það. Víkjum nánar að því máli við umr. um vegáætlun seinna í dag.

Ég vil þá víkja aftur að hinu, til hvers því fjármagni verði varið sem hér er um að tefla. Ég get upplýst hæstv. samgrh. um það að hér í þinginu ríkir mikil ringulreið um það hvernig þessu fé verði varið. Ég hef spurt marga ráðh. um það hver sé þeirra skilningur á því, hvort þarna verði um að ræða viðbótarfjármagn ef frv. nái því að verða samþykkt, en ég hef fengið mjög misjöfn svör. Eins er um hv. þm. sem eiga sæti í fjvn., þeir virðast ekki hafa skilið það einum og sama skilningnum hvort um verði að ræða viðbótarfjármagn eða ekki. Einn hv. þm. benti mér á að e.t.v. mætti finna svar við þessu flókna vandamáli, hvað frv. þetta felur raunverulega í sér í umr. sem áttu sér stað um vegáætlun við 1. umr. Ég fór því og fletti upp hvað hæstv. ráðh. hefði sagt um það mál, en hann mun hafa sagt:

„Í sambandi við hraðbrautirnar vil ég geta þess að 500 millj. kr. á þessari vegáætlun er ekki skipt á neinn höfuðflokk vegaframkvæmdanna, hvorki hraðbrautir, þjóðbrautir, landsbrautir, en að sjálfsögðu mun verulegur hluti eða nokkur hluti af þessari fjárhæð ganga til hraðbrauta, og ég geri ráð fyrir því að öll þessi fjárhæð gangi til hraðbrauta og þjóðbrauta við skiptingu á síðara stigi.“

Þetta var það eina sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál við kynningu á vegáætlun, og veit ég ekki hvort margir hv. þm. eru mér miklu nær um það hvað hann átti við með þessum orðum. Í öllu falli er þetta sama gestaþrautin fyrir mér eftir sem áður. En í till. fjvn., sem lagðar hafa verið fram, er liður í áætluninni um fjáröflun sem heitir „Aðrar framkvæmdir“ og er upp á 500 millj. kr., þ.e. undir liðnum „Sérstök fjáröflun“. Mér hefur skilist það og ég fæ ekki betur séð en að þessum 500 millj. sé þegar ráðstafað og að ráðstöfun þeirra felist aðallega í ráðstöfun til ýmissa vegaframkvæmda undir kaflanum um hraðbrautir, en um þetta atriði væri ágætt að fá hér nánari skýringar hæstv. samgrh.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta mál frekar, en vil leyfa mér að lokum að spyrja hæstv. samgrh. eftirfarandi spurninga:

1. Ef frv. þetta verður samþ. óbreytt, bætist þá eitthvert nýtt fé við í Vegasjóð?

2. Til nánari skýringar: Verður 500 millj. kr. meira til ráðstöfunar til vegaframkvæmda heldur en nú eru uppi till. um af hálfu fjvn.?

3. Ef um er að ræða það, að samþykkt frv. geti falið í sér 500 millj. kr. viðbótarframkvæmdir á þessu ári, mun ráðh. nota sér þá heimild sem í frv. felst þannig að um verði að ræða 500 millj. kr. meiri framkvæmdir en ella hefði verið?